16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Já, það er nú svo, að skattamál eru þau mál, sem mest taka til hvers borgara þjóðfjelagsins, og það hefir hingað til verið svo, og mun verða, að þau löngum verði álitin einhver vandamestu mál hvers löggjafarþings. Víðast annarsstaðar hagar svo til, að taka má talsvert af tekjum ríkissjóðs með beinum sköttum, þar sem auðsafn mikið er saman komið á höndum einstakra manna eða fjelaga. Því miður, ríkissjóðs vegna, er oss vant þeirra hluta, sem auðsafn einstakra manna eða fjelaga gefa ríkissjóði. Að hinu leytinu er auðsafn ekki æskilegt, nema öllum geti liðið vel fjárhagslega. Við höfum ekki neitt hjer, sem auðsafn heitir, og efnin eru lítil, því miður, og þótt einstakir útgerðarmenn hafi orðið allvel efnaðir á bestu árunum, þá hefir það viljað brenna við, að gróði góðu áranna hefir horfið á misbrestsárunum; auk þess er öll aðstaða atvinnuveganna hjer á landi sú, að ekki er hægt að taka mikið af tekjum ríkisins með beinum sköttum. Fyrst og fremst er það sýnilegt með þeirri reynslu, sem fengin er með skattalögunum frá 1921, að af landbúnaðinum er varla að vænta neinna teljandi tekna með þessu fyrirkomulagi. Það má segja, að fyrirfarandi ár, að undanteknu árinu 1924, hafi verið fremur vond, en jeg hygg samt, að síðastliðið ár megi telja óvenjulega gott ár til lands og sjávar að því er atvinnuvegi snertir, en það mun sýna sig, að þetta góðæri í fyrra mun gefa ríkissjóði litlar tekjur af landbúnaðinum, en hlutfallslega mjög miklar tekjur af hinum aðalatvinnuveginum, sjávarútveginum, enda er það ekki nema sanngjarnt, þegar vel lætur í ári, að hann borgi talsvert af miklum tekjum, en þó verður að stilla svo í hóf, að ekki sje gripið svo djúpt niður í vasa skattgreiðenda, að þeir, ef misbrestur verður, sjeu ófærir til að stunda atvinnu sína áfram.

Meðan eingöngu var að ræða um smábátaútgerð, rjeði það ekki eins miklu fyrir eigendur útgerðanna, þó misbrestur yrði; þeir liðu ekki mjög mikinn hnekki efnalega, þótt lítið aflaðist og verðið lækkaði, en þar á móti lentu þessi vondu ár meira á sjómönnum og þeim, sem í landi unnu og bundnir voru við atvinnuveginn. Við þekkjum þess dæmi, að það hefir legið við, að meiri hluti fólksins hafi flust úr ýmsum hjeruðum, á meðan menn voru svo að segja bundnir við það að róa úr einni eða tveimur verstöðvum í hjeraði hverju og gátu ekki flutt sig, eða svo var ástatt, að ekki var hægt að stunda útgerð nema frá þeirri veiðistöð, sem menn lágu við í. Þá sáu menn nauðsynina á því að stækka skipin, til þess að geta leitað til annara hjeraða, þegar betra var þar. Á þessu var byrjað um 1890 í litlum stíl, með þilskipaútgerð, en um og eftir aldamótin var þilskipaútgerðin farin að sýna ýmsa galla og stórkostlegir örðugleikar á rekstri hennar, og svo fór að lokum, að þeir, sem áttu þilskip og gerðu út um margra ára bil, höfðu tapað öllum hagnaðinum af þeirri atvinnu, og margir miklu meira. Ráðið fyrir þessa menn varð þá að leita annara úrræða, stækka skipin og breyta um veiðiaðferð; og þetta var gert. Á þessu var byrjað um 1905 með vísi til togaraútgerðar hjer á landi, og sú breyting, sem orðin er á útveginum, er að mestu leyti orðin á 15 síðustu árum. Þeir, sem játa því, að þessi breyting hafi verið eftir atvikum nauðsynleg, hljóta líka að játa það, að samvinna manna í þessu efni, að stækka skipin og breyta útgerðinni, hafi verið nauðsynleg, því að það verður löngum einstaklingnum um megn að kaupa togara, enda ekki æskilegt eftir mínu áliti, að togaraútgerðin komist á fárra manna hendur. Hitt er æskilegt, að sem flestir geti orðið atvinnurekendur og tekið þátt í útgerðinni; en þetta verður aðeins með því móti að hafa hlutafjelagsfyrirkomulag. Þar sem flestum mun koma saman um það, að þetta fyrirkomulag til útgerðar, eftir því sem ástandið og útlitið er nú um útgerð hjer á landi, muni vera heppilegast, þá er það sýnt, að löggjafarvaldið verður að búa svo um, að þessum fjelagsskap sje ekki íþyngt um of. Jeg hygg, að það sje farsælast fyrir þjóðarheildina að ætla sjer ekki að grípa alt of mikið niður í vasa þessa atvinnuvegar í einu lagi, heldur taka það eitt, sem skynsamlegt er, það eitt, sem hann getur borgað, án þess að atvinnureksturinn þurfi að stöðvast, því að það er vissulega svo, að nú orðið er afkoma og atvinna margra þúsunda manna undir því komin, að þessi atvinnuvegur stöðvist ekki, og það er heldur ekki svo, að þessi atvinnurekstur, togaraútgerðin, borgi ekki ríkissjóði geysimikið fje á ári hverju fyrir utan tekjuskatt; það er óhætt að fullyrða, að togari með meðalafla borgi í út- og innflutningsgjald, fyrir utan það, sem þeir borga, er stunda vinnu við hann á sjó og landi, frá 24–30 þús. kr. á ári. Á síðasta ári var þetta talsvert meira hjá nokkrum skipum, og auk þess, sem hlutafjelögin greiða þessa skatta, greiða þau líka útsvar, og það er víst, að afkoma sumra bæjarfjelaga hjer á landi er komin undir því, að þessi fjelög geti greitt ríflegan skatt til bæjarfjelaganna. Auk þess þurfa þau oft að greiða þann skatt á fleirum en einum stað. Eins og nú er ástatt, getur það komið fyrir, að hlutafjelag hafi borgað meiri tekjuskatt eingöngu heldur en gróði þess á 4 árum hefir verið að frádregnu tapi. Breytingár þær á tekjuskattslögunum, sem hjer liggja fyrir, gera ekki breytingu á þessu, og það er erfitt að koma því svo fyrir, að ríkissjóður fái hæfilegar tekjur og að hindra að þetta komi fyrir, enda ekki ætlast til þess með frv. Þessu líkt kemur ekki fyrir annarsstaðar, af því að atvinnufyrirtæki í öðrum löndum eru bygð á alt öðrum og traustari grundvelli en sjávarútvegurinn hjer á landi. í öðrum löndum er það svo, að flest skipaútgerðar- og iðnaðarfyrirtæki — en það eru stærstu fyrirtæki þar — eru stofnuð með nokkurn veginn vissu um það að gefa árlega frá 7–15% arð. Það er mjög sjaldan, að þau fari niður fyrir það, og sjaldan yfir, nema á stríðsárunum, en þá voru þeir tímar, sem ekki er hægt að miða við og ekki á að miða við. Já, jeg held að það sje óhætt að fullyrða, að það komi ekki fyrir annarsstaðar, að atvinnufyrirtæki tapi höfuðstól sínum á einu ári, en slíkt hefir komið fyrir hjer í fiskiútgerð og annari útgerð. Þrátt fyrir þetta er það nú samt svo, að hlutafjelög eru sköttuð hjer hærra en annarsstaðar; þau hafa hærri tekjuskatt hjer en nokkursstaðar annarsstaðar, nema í Englandi; þar eru nokkrar greinar hlutafjelaga, sem eru skattaðar hærra en hjer, og það eru þau fjelög, sem taka tekjur sínar af almenningi, járnbrautarfjelög, talsímafjelög og fjelög, sem selja ljós og hita, en aftur þau fjelög, sem vinna úr skauti náttúrunnar, hvort sem það er til lands eða sjávar, þau eru sköttuð miklum mun lægra. Og það er víst, að hámarksskattur einstaklinganna er hærri en hlutafjelaganna í öllum öðrum löndum en Íslandi.

Við samningu og samþykt tekjuskattslaganna, árið 1921, voru lög nágrannaþjóðanna lögð til grundvallar; lögin voru, að heita mátti, í öllum atriðum og að því er skattstigann snerti alveg samhljóða dönskum og sænskum lögum, en síðan hefir skattstiginn verið lækkaður í þessum löndum að því er snertir hlutafjelög. Árið 1922 voru þessi lög endurskoðuð í Danmörku, og eftir fenginni reynslu undanfarinna ára var hámark skattsins, sem var 30%, fært niður í 20.%. Af ástæðum stjórnarinnar sje jeg, að það hefir sjerstaklega verið bent á það, að arður hlutafjelaga væri tvískattaður, en hjá einstaklingum væri hann aðeins einskattaður. Nú mun liggja fyrir danska þinginu frv. frá stjórninni, sem er jafnaðarmannastjórn, um að hækka skattinn upp í 25% . Hún hefir ekki treyst sjer til þess að fara lengra í kröfunum, og þó er það öllum vitanlegt, að það er hægt að skatta þau fyrirtæki meira, sem hafa jafnan arð, heldur en þau, sem hafa svo misjafnan arð, að 2–3 ára arður getur tapast á einu ári, og það er auðsætt, að hafi niðurfærsla skattsins í öðrum löndum haft við rök að styðjast, hversu miklu meiri. rök myndi það þá ekki hafa við að styðjast að lækka skattinn hjer.

Jeg heyrði við umr. hjer í deildinni fyrir nokkru, að einn hv. þm., (þm. Str.), sagði, að hlutafjelagafyrirkomulagið væri stórhættulegt. Jeg held ekki, að svo sje hjá okkur. Það er undir vissum kringumstæðum í öðrum löndum, að svo getur verið, en með því fyrirkomulagi, sem hjer er, staðhæfi jeg, að þetta hafi ekki við nein rök að styðjast, og jeg held, að allir verði að vera sammála um það, að ef við getum ekki rekið stórskipaútgerð með atbeina einstaklingsins, þá verði menn að slá sjer saman; og allflestir eru sammála um það, og þar á meðal háttv. þm. Str., að sem flestir ættu að taka þátt í atvinnurekstrinum. Mjer er líka kunnugt um það, að í sumum útgerðarfjelögum er fjöldi þátttakenda; í einu hjer í Reykjavík eru nær 200 hluthafar. Sami hv. þm. sagði, að með þessu fyrirkomulagi, eða með þessu frv., sem hjer liggur fyrir, væri stefnt að því að ljetta sköttunum af þeim stórríku, en þyngja á þeim fátæku. Þetta er mælt af mikilli vanþekkingu á þessum fjelagsskap. Jeg vil með einu dæmi benda á, hversu fjarstætt þetta er. Á Vestfjörðum hefir verið mjög aflalítið 4 undanfarin ár, að undanskilinni vorvertíðinni 1924; útgerðarmenn hafa tapað miklu fje, sjómenn hafa haft ljelega atvinnu og þeir, sem á landi voru, höfðu ljelega atvinnu, því að atvinna þeirra byggist mikið á útgerðinni. Þá var það að nokkrir menn, fyrst og fremst máske bankastjórnirnar þar vestra, kvöddu menn saman til þess að ráðgast um, hvað hægt væri að gera í þessu máli. Endirinn á þessu varð sá, að keypt voru tvö botnvörpuskip, og mjer er óhætt að fullyrða, að fjöldi hluthafanna er miklu fátækari eða efnaminni en margir þeirra, sem engan þátt tóku í þessum fjelagsstofnunum, enda lögðu menn ekki fje í þessi fyrirtæki af því einu, að þeir gerðu sjer von um háan arð, heldur af því, að þeir höfðu hug á að lyfta undir atvinnuvegi hjeraðsins. Af því að við erum yfir höfuð allir fátækir, verðum við að „slá okkur saman“, ef um stór fyrirtæki er að ræða. Jeg hygg, að það mundi verða æðiþröngt fyrir dyrum hjá mörgum, bæði þeim, sem lagt hafa fje í þessa útgerð þar vestra, og þeim, sem bygt hafa atvinnuvon sína á þessum fjelögum, ef útgerðin yrði að hætta og menn yrðu að láta skipin af hendi aftur. Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að lagt er í útgerð, er svona stendur á, og jafnvel þó ekki sjeu alstaðar jafnillar ástæður og voru á Vestfjörðum síðastl. ár, hygg jeg þó, að þessu líkt muni vaka fyrir þátttakendum í öðrum svipuðum fjelagsskap. En það, sem oft hefir valdið því, að bæði útgerðarfjelög og önnur hlutafjelög hafa orðið að leggjast niður og hætta, er það, að þau hafa ekki haft nógu mikið innborgað hlutafje og komist í fjárþröng á fyrsta misbrestaárinu. Best og tryggilegast er, að hlutafje sje sem mest, svo að sem minst þurfi til annara að leita eftir rekstrarfje. Hv. þm. Str. (TrÞ) hjelt því fram í ræðu hjer í deildinni nýlega, að í stað venjulegra hlutafjelaga gæti vel komið til mála að hafa samvinnusnið á þessum fjelögum, en það held jeg að sje algerlega ótækt; og jeg held, að erfitt væri að samræma það samvinnulöggjöfinni. Ef við ætlum að breyta þessu í það horf og byggja sem mest eða einvörðungu á samábyrgð hluthafanna, mundu einstakir menn verða tregari til þátttöku og bankarnir mundu verða miklu tregari til að styrkja þau, þar sem lítið fje væri lagt fram og ábyrgðirnar tvísýnar, og yrði fjelögunum breytt í þetta horf, mundi ríkissjóður tapa stórfje á breytingunni, óhætt að segja mörg hundruð þúsund krónum árlega, því þá yrðu fjelögin sköttuð eins og önnur samvinnufjelög.

Háttv. frsm. meiri hl. fjhn. (SvÓ) gat þess, að í nál. meiri hl. væri sett fram dæmi um það, hversu mikið skatturinn mundi rýrna við að nota meðaltalsreglu þá, sem ætlast er til að notuð verði við álagning skattsins samkv. a-lið 1. gr. frv., og segir hann, sem satt er, að þetta dæmi sýni fram á talsverða skattrýrnun fyrir ríkissjóð, en gallinn á þessu er sá, að dæmið er rangt reiknað hjá háttv. meiri hl. En jeg sleppi að fara nánar út í þetta, þar eð jeg geri ráð fyrir, að hv. frsm., eða þá einhver annar háttv. meirihlutamanna, leiðrjetti þessa skekkju í nál. meiri hlutans við þessa umræðu. Mjer er það enginn ánægjuauki að hrekja samnefndarmenn mína í ræðum í þeim atriðum, sem sýnilega byggjast á vangá þeirra.

Þá sagði hv. frsm. meiri hl. (SvÓ), að minni hl. hefði valið dæmi í nál. sínu með tilliti til þess að fá út sem minsta tekjurýrnun fyrir ríkissjóð. Þetta er alls ekki rjett. Dæmið, sem tekið var, er sem næst raunverulegt dæmi um eitt botnvörpungsútgerðarfjelag hjer í Reykjavík. Ef við hefðum viljað fá sem minstan skattmun eftir meðaltalsreglunni, þá hefðum við auðvitað tekið dæmi um jafnar árlegar tekjur, því þá er enginn mismunur á fekjuskattinum, hvaða reglu sem fylgt er.

Hv. meiri hluti segir, að „óneitanlega mundi meðaltalsregla þessi veita gjaldendum mikla ívilnun í skattgjaldi“, ef tekið væri tillit til tekjurýrðar undanfarandi ára, en tekjur væru miklar í ár. Þetta skýrir sig að nokkru leyti sjálft, því þó að tekjurnar hafi verið ríflegar eitt árið, jafnar það sig upp á næstu árum, en skattrýrnunin fyrir ríkissjóð yrði sem svaraði 8—10%, samkvæmt þeim mörgu dæmum, sem jeg hefi reiknað, en jeg ætla ekki að þreyta háttv. þingdeildarmenn á því að lesa þau upp að sinni, en mun gera það í lok ræðu minnar. En hv. meiri hluti kemst líka að þeirri niðurstöðu, að samkvæmt þessari reglu yrði nokkur hluti teknanna tvískattaður, og það gerir vissulega fyrstu árin meiri uppbót á skattinum fyrir ríkissjóð en nemur skattrýrnuninni hin síðari árin. Þá gerir hv. meiri hl. lítið úr því, þó að skatturinn jafni sig upp frá ári til árs, tekjur ríkissjóðs af skattinum verði jafnari. En það er einmitt mjög mikils um vert fyrir ríkissjóð að geta bygt á jöfnum tekjum frá ári til árs. Hv. frsm. (SvÓ) virtist ætla, að hin stórkostlega aukning útgerðarinnar, einkum stórútgerðarinnar, á hinum síðari árum stafaði einungis af gróðafýsn manna; jeg ætla mjer ekki að hafa fyrir því að andmæla þessu, þar eð dæmið, sem jeg tók áðan, ósannaði þessa staðhæfing hv. frsm. (SvÓ: Misskilningur). Jæja, ef hv. þm. vill ekki hafa sagt þetta, skal jeg á það líta, og tala þá ekki meira um það.

Jeg gat þess áðan, að hvergi þar, sem jeg þekki til, eru hlutafjelög jafnhátt sköttuð og hjer á landi; t. d. ekki á Norðurlöndum eða á Englandi. Skatturinn er þar alstaðar lægri. En jeg játa, að fyrir mjer er þetta þó alls ekkert aðalatriði, og jeg held því fram, að það geti verið forsvaranlegt, þegar ríkissjóður er í fjárþröng, en þó aðeins um fárra ára bil, að hámarksskattur á þessum fjelögum sje eitthvað hærri hjer en í öðrum löndum. Jeg skal og benda á, að annarsstaðar en hjer er hámarksskattur einstakra manna hærri en hlutafjelaga. Hjer er þetta öfugt, og það er algerlega óhæft, því mest af þeim gróða hlutafjelaganna, sem fer til arðgreiðslu, er tvískattað, fyrst hjá fjelaginu og síðan hjá hluthafa. Jeg get bent á eitt dæmi enn, er sýnir, að þetta er mjög ósanngjarnt. Á Ísafirði er 3 íshús, fyrir utan íshús það, sem hinar sameinuðu ísl. verslanir eiga. Eitt íshúsið er eign hlutafjelags, og eru hluthafar í því um 30. Hin tvö eru einstakra eða mjög fárra manna eign. Gróði þessa fyrnefnda íshúss er alveg sá sami og hinna, verslunarumsetningin er hjer um bil hin sama og hjá hinum fjelögunum, hvoru um sig, og aðstaða öll er alveg hin sama, en útkoman er sú, að íshúshlutafjelagið greiðir 2–3–4 sinnum meiri skatt á ári en hin bæði til samans. Þetta er af því, að gróði fjelagshússins er skattaður í einu lagi, en hinna í 8–9 pörtum. Þetta hlutafjelag var stofnað til þess að smáútgerðarmenn gætu fengið ódýrari beitusíld en áður; en með þeirri skattálagningaraðferð, sem nú er notuð, má fullyrða um þetta íshúsfjelag, að hefð því ekki verið vel og gætilega stjórnað alt frá byrjun, mundi það algerlega hafa orðið útundan í samkepninni við hin íshúsin.

Jeg gat þess áðan, að fyrir mjer væri þetta ákvæði frv., meðaltalsreglan, ekkert aðalatriði, þó jeg hafi með óhrekjandi sönnunum sýnt fram á, hversu ósanngjarnlega hlutafjelög eru nú sköttuð: heldur er það hin aðalbreytingin, sem öll nefndin var sammála um, að veita hlutafjelögum ofurlitla ívilnun í skatti af þeim upphæðum, sem lagt er upp til tryggingar og eflingar atvinnurekstrinum, og mundi þetta þá síður hvetja til ógætilegrar útborgunar á ársarðinum, en það hefir, eins og mörgum hlýtur að vera kunnugt, komið mörgum fyrirtækjum á knje, einkum erlendis, að of mikið af arðinum hefir verið greitt hluthöfum, en sama og ekkert lagt frá í tryggingar- og varasjóði. Það mundi ekki síst vera nauðsynlegt hlutafjelögum hjer á landi að safna sjer í tryggingar- og varasjóði, þar sem um stóratvinnurekstur er að ræða í samanburði við fjármagn þjóðarinnar. Því það eru ekki aðeins hluthafarnir, sem tapa við það, að fjelögin verða að hætta vegna misbrests í atvinnurekstrinum, heldur er það líka mikill þorri almennings, sem á undir þeim bæði fje og atvinnu.

Hv. frsm. (SvÓ) sagði, að með þessari þriggja ára meðaltalsreglu fengist ekki rjettlát skattálagningaraðferð gagnvart einstökum mönnum. Þetta er hinn mesti misskilningur, því fjelögin eru nú sköttuð stórum hærra en einstaklingar með sömu tekjum. Það má ekki gleyma því, að vegna þess að fjelögin hafa mjög mismunandi arð frá ári til árs, með öðrum orðum reka áhættusama atvinnu, þá verða þau að greiða alt að 50% hærri skatt en ef þau hefðu jafnan arð. Þeim er hegnt með þyngri skattálögum, af því þau reka áhættusama atvinnu.

Þá skildist mjer á hv. frsm. (SvÓ), að þetta næði aðeins til botnvörpuskipaútgerðarfjelaga, en það er langt frá að svo sje. Þetta nær til allra hlutafjelaga á landinu, bæði til smábátaútgerðarfjelaga og annara. Hv. frsm. hefir ef til vill ekki athugað, að það væri t. d. ekki úr vegi að stofna hlutafjelög til landbúnaðarframkvæmda, svo sem til að reka fyrirmyndarbú. Þá segir hv. frsm. (SvÓ) ennfremur að höfuðstóll sumra fjelaga sje óeðlilega hár. Þessari skoðun er jeg algerlega ósamþykkur. Jeg álít, að þess hærri, sem höfuðstóllinn er, þess betra sje það að öllu leyti. Ef hlutafjeð er lítið, en tæki til atvinnurekstrarins eru dýr og mikið er haft í veltu, verður fyrirtækið stórkostlega áhættusamt, þ. e. það verður hrein og bein „spekulation“ og ekki annað. Sje aftur á móti mikið hlutafje, er fyrirtækið miklu betur trygt fjárhagslega sjeð; það þarf minna að leita til banka eða annara lánsstofnana eftir rekstrarfje Það getur verið hagnaður fyrir ríkissjóð í bili, að hlutafjeð sje lítið, en þá er hin stóra áhætta fyrir þjóðfjelagið, að atvinnufyrirtækið fari á höfuðið og máske þúsundir manna verði atvinnulausir. Það er nú svo, að við hv. frsm. (SvÓ) og jeg byggjum sinn á hvorum grundvelli. Hann virðist vilja haga skattálagningunni svo, að ríkissjóður fái sem mestar tekjur í bili. Jeg vil haga henni svo, að ríkissjóður fái sem jafnastar tekjur og koma í veg fyrir, að atvinnufyrirtækin þurfi, vegna óskynsamlegrar skattálagningar eingöngu, að gefast upp, því það skaði þjóðfjelagi? máske svo, að ekki verði undir risið.

Eins og sjest á nál. minni hl., eru báðir bankarnir eindregið fylgjandi þessu frv. og leggja til, að meðaltalsreglunni verði fylgt við álagning skattsins. Telja þeir nauðsynlegt, að frv. nái fram að ganga og það mundi verða til þess, að atvinnureksturinn næði betur tilgangi sínum og starfaði á heilbrigðari grundvelli. Að lokum skal jeg með nokkrum dæmum sýna hv. deildarmönnum, hversu hlutafjelagaskatturinn er ósanngjarnlega hár og misrjettið í skattálagningunni, eins og hún er framkvæmd nú.

Jeg gat þess, að skattdæmi minni hl. á þskj. 213 væri ekki reiknað nákvæmlega, eins og líka sagt er í nefndarálitinu. Sje dæmið reiknað alveg út að fullu, þá verður skatturinn eftir þriggja ára meðaltalsreglunni kr. 114735,00, eða um 4000 kr. lægri heldur en ef fylgt væri núgildandi fyrirkomulagi. Að skatturinn yfirleitt er svona hár, kemur af því, að tekjurnar eru svo misháar. Ef þetta fjelag, sem dæmið er tekið um, hefði jafnar tekjur öll sex árin, þá væri skatturinn aðeins 97198 kr. Af þessu sjest, að fjelögum, sem reka áhættusama atvinnu, og hafa þess vegna misjafnar árstekjur, er hegnt, þ. e. þau látin greiða hærri skatt en hin fjelögin, sem hafa tryggari og jafnari tekjur.

Þess utan er það algengt, að útgerðafjelögin greiði meira í tekjuskatt til ríkissjóðs en sem nemur öllum tekjum þeirra á fleiri árum, að frádregnu tapi. í dæminu á þskj. 213 eru tekjurnar í þau sex ár, sem dæmið nær yfir, 530 þús. kr., en töpin 450 þús., tekjur að frádregnum töpum 80 þús. kr., en skatturinn eftir núgildandi fyrirkomulagi kr. 118800,00 eða 38800 kr. hærri en allar nettótekjur.

Er þá nokkur sá, sem í alvöru vill halda því fram, að 4000 kr. ívilnun í skatti sje ekki á fylstu rökum og nauðsyn bygð, svo framarlega að hv. þdm. ekki af misskilningi eða blindu hatri til allrar útgerðar vilji eyðileggja útgerðarhlutafjelögin ?

Það hefir ekki verið talinn búmannshnykkur að svelta mjólkurkýrnar, og jeg vil vona, að Alþingi beiti ekki slíkri aðferð við þessar mjólkurkýr ríkissjóðsins.

En það vil jeg endurtaka, að þriggja ára meðaltalsreglan er fyrir mjer ekkert aðalatriði, heldur hin önnur ákvæði frv. undir b.- c.- og d.-liðum 1. gr.

Skal jeg svo að endingu taka dæmi um hlutafjelag með 100 þús. króna höfuðstól og gera ráð fyrir,

1) að fjelagið starfi í 4 ár:

Skattar eftir

Skattsk. tekjur.

Skattur eftir núg. lögum

þriggja ára meðaltalsr.

1924

18000 kr.

2750 kr.

2750 kr.

1925

18000 —

2750 —

2750 -

1926

14000 —

1950 —

2255 —

1927

10000 —

1150 —

1750 —

A118

8600 kr.

9505 kr.

1) Sama fjelag með þessum tekjum:

Skattnr eftir Skatt. samkv.

Skattsk. tekjur. núg. lögum. meðaltalsr.

1924 (tap 75000 kr.) 0

1925 80000 kr. 19650 kr. 8150 kr.

1926 80000 — 19650 — 11650 —

1927 (tap 25000 kr.) 0 15650 —

Alls 39300 kr. 35450 kr.

Dæmi þetta sýnir ljóslega, að skattgjaldið er margfalt hærra, ef fjelögin hafa misjafnar tekjur og stórtöp og stórgróði skiftist á heldur en ef þau hafa jafnar tekjur, þó sæmilegar sjeu; því fjelagið hefir nákvæmlega sömu tekjurnar í báðum dæmunum, þegar búið er að draga frá töpin í síðara dæmi. Dæmið sýnir ennfremur, að hjá þeim fjelögum, sem hafa vissa og jafna afkomu, er skatturinn hærri eftir þriggja ára reglunni, en hjá fjelögum, sem hafa óvissa afkomu, er nokkur ívilnun, eftir þessari reglu, í skattgjaldinu.