16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2172 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vil byrja með því að þakka háttv. nefnd fyrir það, hvernig hún hefir tekið undir aðalefni 1. gr. frv., liðina b.–d., sem beint miða að því að fyrirgirða það, að skattalögin geti hindrað vöxt og viðgang hlutafjelaga. En mjer þykir leitt, að hv. meiri hl. hefir ekki getað fallist á uppástungu þá, er felst í a-lið 1. gr. frv., að skatturinn skuli miðaður við þriggja ára tekjumeðaltal. En jeg vil þó fara fram á það við hv. deild, að hún samþykki till. hv. minni hl. nefndarinnar, þ. e. að samþykkja frumvarpið óbreytt. Í núgildandi skattalögum eru 3 mismunandi reglur, sem farið er eftir við álagning skatts á fjelög, eftir því hvort það eru fjelög með eða án innborgaðs hlutafjár eða samvinnufjelög, sem greiða 6% Fjelög án innborgaðs stofnfjár og útlend fjelög greiða skatt eftir sama stiga og einstaklingar, og verður sá skattur venjulega miklu hærri en skattur samvinnufjelags af sömu tekjum. Loks greiða innlend hlutafjelög skatt eftir sjerstökum stiga, sem er ennþá miklu hærri, og yfirleitt 50% hærri en t. d. í Danmörku. Hjer við bætist það, að arður hlutafjelaga er hjá okkur tvískattaður, en samvinnufjelögin hafa með rjettu verið undanþegin tvísköttun. Þetta vona jeg að sýni, að nokkur ástæða er til að breyta ákvæðum laganna um hlutafjelög, þó lögunum í heild sinni verði ekki breytt í þetta sinn. Á móti þessari tillögu um þriggja ára meðaltal er ýmislegt haft. Fyrst og fremst það, að hún veiti þeim fyrirtækjum ívilnanir á skatti, sem í mestum uppgangi eru og hafa þess því síst þörf. Þessi mótbára á vitanlega við togarafjelögin. En hún stafar að miklu leyti af ókunnugleik, og því til sönnunar skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp brjef frá einum bankastjóra Íslandsbanka, þar sem hann gerir mjer grein fyrir ástæðum þeirra togarafjelaga, sem hafa öll sín bankaviðskifti við Íslandsbanka. Brjef þetta er dagsett 15. mars þ. á. og hljóðar þannig:

„Samkvæmt tilmælum yðar, herra fjármálaráðherra, leyfi jeg mjer að staðfesta hjer með ummæli mín á sameiginlegum fundi gengisnefndar og bankastjóranna hjá yður skömmu áður en Alþingi kom saman, um það, að eftir að jeg hafði kynt mjer hag þeirra 15 botnvörpunga, sem hafa öll bankaviðskifti sín við Íslandsbanka, eins og hann var við síðastliðin áramót, bæði með því að kynna mjer efnahagsreikninga, sem þá lágu fyrir, og með því að eiga tal við aðstandendur skipanna, þá komst jeg að þeirri niðurstöðu:

1. að 1/3 — einn þriðji — skipanna eiga ekkert til upp í hlutafjeð, og skulda auk þess mikið fje, jafnvel um 200 þús. kr. sum þeirra;

2. að tæpur helmingur skipanna á fyrir skuldum og auk þess meira og minna upp í hlutafjeð;

3. að 1/5 — einn fimti — skipanna á fyrir hlutafjenu, og auk þess eitthvað umfram hlutafjeð.

En við þessa athugun hefi jeg ekki talið skipunum til útgjalda tekjuskatt vegna gróða þeirra síðastliðið ár. Væri tekjuskattur talinn með, mundi fullur helmingur skipanna að mínu áliti falla undir 1. lið og hin undir 2. lið, nema tvö skip, sem fjellu samt undir 3. lið.“

Þetta eru þá ástæður þessara skipa, sem öll eru eign hlutafjelaga. Og þetta ástand kemur engum á óvart, sem þekkja til, hvað gerst hefir undanfarin ár, að á flest skipin hefir hlaðist tap á tap ofan, og að bankarnir hafa haldið áfram að lána þeim, í von um, að einhverntíma kæmi góðæri, svo þeir á þann hátt gætu bjargað því fje, sem þeir þegar voru búnir að lána þeim.

Þegar því talað er um gróða þessara fjelaga síðastliðið ár, ber þess að gæta, að hann er alveg sama eðlis og gróði þess manns, sem týnir mikilli peningafúlgu fyrir nýár, en finnur hana svo aftur eftir nýárið. Það er ekki raunverulegur gróði, þó að fjelögin vinni dálítið á eitt ár og grynni á skuldasúpu sinni, sem safnast hefir á tapsárum. Á þessu eru bygð ummæli bankastjórnanna, sem fylgja áliti minni hlutans, þar sem þær telja nauðsynlegt að gera þá breytingu á útreikningi tekjuskattsins, sem stjfrv. fer fram á.

Þá er það haft á móti þessari till., að hún hafi í för með sjer tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, og til stuðnings því hefir meiri hl. fjhn. reiknað skattinn út um 12 ára tímabil, bæði eftir gildandi lögum og eftir reglum frv. Hefir hv. meiri hl. komist að þeirri niðurstöðu, að samkvæmt því dæmi, sem hann tekur, þá nemi tekjur ríkissjóðs samkv. gildandi lögum fullum 172 þús. kr. yfir þetta tímabil, en ekki nema tæpum 139 þús. kr., ef reglum stjfrv. sje beitt. Við þetta er það fyrst og fremst að athuga, að mismunurinn er ekki svona mikill; því að skatturinn í þessu tilfelli er eftir reglum stjfrv. 155 þús. kr.

Samkvæmt þessu er að vísu dálítill tekjumissir á pappírnum. En það, sem hjer á að skera úr, er það hvort ekki sje að öllu leyti sanngjarnt að veita þessar ívilnanir, og verður þá að miða við það, að fjelag, sem hefir jafnar tekjur öll árin, en sömu útkomu yfir tímabilið í heild, hefði aðeins gefið ríkissjóði yfir þetta tímabil 130 þús. kr. í tekjur. Það, sem er fram yfir þá upphæð, verður fjelagið í þessu tilfelli að greiða, af því að afkoman er misjöfn frá ári til árs. En jeg lít svo á, að engin sanngirni sje í því að láta fjelag greiða meiri skatt í ríkissjóð fyrir það eitt að reka áhættusaman atvinnuveg. Eftir ákvæðum stjfrv. er þó ekki bætt úr þessu nema að litlu leyti, því að ívilnanir í þessu tilfelli yrðu samkvæmt því ekki nema 17 þús., en ættu í raun og veru að vera 42 þús., ef sýna ætti þessum fyrirtækjum sömu sanngirni og þeim fyrirtækjum, sem eru áhættulaus og hafa jafna afkomu ár frá ári.

Þessi regla, að miða skattinn við meðaltal síðustu 3 ára, er því ekki nema lítið spor í áttina til þess að sýna hinum áhættusömu fyrirtækjum sanngirni, móts við þau fyrirtæki, sem enga áhættu hafa. Jeg hefi reiknað út mörg dæmi um þetta og altaf komist að þeirri sömu niðurstöðu, að þessar ívilnanir væru ekki eins miklar og þær ættu að vera. Því að eftir stórgróðaár getur skatturinn orðið svo mikill, að hann jafnvel verði fyrirtækinu að fótakefli, ef efnahagur þess er á mjög veikum þræði. En hagsmunir ríkissjóðs eru undir því komnir, að fyrirtækin geti eflst og þar með gefið honum tekjur í fleiri myndum en tekjuskattinum einum.

Í dæmi hv. meiri hl. er sú villa, að skatturinn er ávalt tilfærður einu ári áður en hann á að greiðast. í reyndinni er það svo, að skattur af tekjum gróðaárs kemur á næsta ár þar á eftir, og ef hið síðara er rýrt ár eða tapsár, getur hinn hái skattur orðið fyrirtækinu að falli. Á þessu er hætta eftir núgildandi tilhögun, og er mjer kunnugt um, að höfundi tekjuskattslaganna var þetta þegar ljóst í upphafi og áleit þá þegar, að þriggja ára meðaltal væri miklu rjettara, en slíkt ákvæði var þá ekki hægt að setja inn í lögin, af því að framtöl tveggja undanfarandi ára voru þá ekki fyrir hendi. En nú er hægt að taka upp meðaltalsregluna, án þess að hún geri tjón, því að árin 1922 og ’23 voru óvenjulega tekjulítil.

Þá hefir því verið hreyft sem mótbáru gegn frv. þessu, að af því geti leitt skattgreiðsla á tekjulausum árum, sem sje óeðlileg. Þetta á sjer stað einmitt nú. Skatturinn af gróðaárinu síðasta fellur að sjálfsögðu yfir á næsta ár, og ef það verður gróðalaust, fellur skatturinn á tapsár. Til þess að ráða bót á þessu er frv. fram komið; því að jöfn skattgreiðsla getur síður orðið fyrirtækjunum að fótakefli.

Frá sjónarmiði ríkissjóðs er ekki heppilegt að fá inn mikinn skatt sum árin, en svo ekki neitt hin. Hitt er betri regla, að fá skattinn jafnari, þó aldrei nema hann lækkaði lítið eitt, sem jeg geri þó ekki ráð fyrir að komi til eftir þessu frv.

Um 2. gr. frv., að veita einstaklingum, sem reka sjerstaklega áhættusamlega atvinnu, sömu ívilnanir og fjelögum, þarf jeg ekki að fjölyrða. Það er nú svo, að hætta einstaklinganna að þessu leyti er nokkuð lík og fjelaganna, að undanskildri tvísköttuninni, sem ekki kemur til greina gagnvart þeim. Þessu til sönnunar vil jeg nefna dæmi, sem jeg hefi heyrt, en er ekki skjalfest ennþá; en jeg hygg, að háttv. form. fjhn. (KIJ) sje það þó fyllilega kunnugt.

Dæmið er af manni á Norðurlandi, sem rekið hefir undanfarin ár síldarsöltun og síldarsölu, en altaf með tapi. Fjeð til rekstrar þessarar atvinnu hefir hann fengið með sjálfskuldarábyrgðum og með því að veðsetja fasteignir ættingja sinna. Og í árslok 1923 er svo komið, að hann skuldar 100 þús. kr., og ættingjar hans þar með að verða öreigar, sem lánað höfðu honum eignir sínar að veði fyrir bankaskuldunum. En 1924 græðir hann 100 þús. kr. og borgar með þeim gróða það tap, sem hann hafði beðið á undanförnum árum. Eftir gildandi lögnin á hann að greiða 20–30 þús. kr. í tekjuskatt, og er sagt, að ef lögunum verði framfylgt, þá sje ekki annað fyrir hann að gera en að gefa sig upp sem gjaldþrota eða fá lán til þess að greiða skattinn.

En jeg verð að segja, að skattalöggjöfin er illa komin, þegar eignalausir menn verða að taka lán til þess að greiða skatt af ímynduðum gróða, eða að öðrum kosti gera sig gjaldþrota.

Skal jeg svo ekki þreyta háttv. deildarmenn með lengri ræðu að sinni, og vildi jeg vona, að bæði þetta mál og önnur merkileg mál, sem liggja fyrir þinginu, þurfi ekki að tefjast vegna þess eins, að menn hafi ekki hóf á ræðuhöldum sínum. Skal jeg gera mitt til þess, að umræður teygist ekki úr hófi fram, og læt því þær skýringar, sem jeg hefi nú gefið, nægja, enda þó jeg hefði haft ástæðu til þess að taka fleira fram.