21.04.1925
Neðri deild: 61. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2203 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Aðeins örstutt ávarp til hæstv. fjrh. (JÞ), og skal jeg ekki tefja mikið.

Hann lagði áherslu á það við fyrri hluta þessarar umr., að hann væri ekki hluthafi í neinu togarafjelagi, rjett eins og það væri blettur á hæstv. fjrh. að eiga þar hlut að máli. Jeg hafði ekki sagt neitt um, að svo væri, en skýrt þannig fyrir mjer fylgi hans og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) við meðaltalsregluna um greiðslu tekjuskatts, að þeir hlytu að vera nærstæðir þessum fjelögum, og það held jeg, að geti ekki talist nein goðgá. Mjer finst ekki eðlilegt, að neinn sje svo viðkvæmur, að hann taki sjer þetta nærri. En að hæstv. fjrh. sje í skoðunum nærstaddur þessum mönnum, sem hjer eiga hlut að máli, held jeg að verði ekki varið. Annars er það svo, eins og vitað er um allan fjölda manna, að skoðanir þeirra eru meira eða minna litaðar af hagsmunavonum sjálfra þeirra og þeirra, sem standa þeim næstir. Þykist jeg vita, að hæstv. fjrh. sje í þessu efni engin undantekning frá reglunni. Hinu trúi jeg vel, að hæstv. fjrh. sje ekki beinn hluthafi í togarafjelagi, því að jeg veit, að hann er mjög slyngur og gætinn fjármálamaður. Jeg þykist vita, að hæstv. fjrlr. sje ekki beinn þátttakandi í því stóra kaupmannafjelagi hjer í bæ, sem nú er að leita hófanna um að taka við tóbakseinkasölunni, þegar hún verður lögð niður, og reyna að ná þeim samböndum við útlönd, sem hún hefir haft. En þótt jeg álíti þetta, efast jeg samt ekki um, að hæstv. fjrh. er nærstæður þeim mönnum, sem þarna eru að verki, þar sem hann hefir í þinginu talað þeirra máli og rekið þeirra erindi. Það þarf engan að furða á því, þar sem það er lýðum ljóst, að öflugustu fylgismenn hans og hæstv. stjórnar eru þessir stórlaxar, kaupmannavaldið í Reykjavík og togarafjelögin. Hví skyldi hæstv. fjrh. ekki vera þessum mönnum þakklátur og sýna það, þegar um þeirra hagsmunamál er að ræða? Eru það ekki einmitt þessir menn, sem leggja fram fje til þess að halda uppi dýrum blöðum til stuðnings stjórninni, til þess að breiða yfir breyskleikasyndir hennar og óvirða andstæðingana? Það er því eðlilegt, að hæstv. fjrh. sje nærstæður þessum mönnum, og mætti það heita mikið vanþakklæti, ef hann ekki í þinginu ljeti einhversstaðar skína í þakklátssemina.

Jeg ætla ekki að fjölyrða meira um þetta, en færa heldur hæstv. fjrh. þakkir mínar fyrir ágætar upplýsingar, sem hann gaf mjer við fyrri hluta þessarar umræðu um hag togarafjelaganna, sem skifta við Íslandsbanka. Hann upplýsti, að auk þess, sem skuldir þeirra vegna rekstrarkostnaðar væru miklar, jafnvel hjá sumum 200 þús. kr., þá hefðu sum þeirra týnt öllum höfuðstól. En það þýðir, að þessi fjelög skulda þá, fyrir utan þessar skuldir vegna rekstrarkostnaðar, jafnmikið og nemur höfuðstólnum, úr því skip og tæki eru til. Þegar svo er komið, fer jeg að draga í efa, að rjett sje kenning hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) um þær traustu og voldugu máttarstoðir þjóðfjelagsins, sem togarafjelögin sjeu. Mjer virðist þvert á móti, að þessar stoðir sjeu harla ótraustar og fúnar, ef skýrslan er rjett. Og í öðru lagi finst mjer þetta benda á dálítið athugaverðan bankarekstur, eins og stundum hefir verið minst á á undanförnum þingum, og reikult eftirlit þeirra, sem fjármálastjórnina hafa á hendi, með peningastofnunum landsins. Það er augljóst, að þegar svona er ástatt um stór fjelög, þá vofir mikil hætta yfir lánardrotnunum, og þá er líka skiljanlegt, hvernig stendur á þeim okurvöxtum, sem skilamennirnir verða að greiða, þegar á liggur að taka krónuvirði að láni hjá bönkunum.

Það var vel gert af hæstv. ráðh. (JÞ) að gefa þessa skýrslu.

Jeg skal ekki fara langt út í þær vjefengingar, sem hann kom fram með um útreikning meiri hl. á tekjuskattinum, samanborið við meðaltalsreglu frv. Þeim hefir verið svarað svo vel og rækilega af háttv. 3. þm. Reykv. (JakM), að jeg þarf litlu þar við að bæta. Hv. 3. þm. Reykv. hefir með þessu gert hæstv. ráðh. (JÞ) álíka grikk og Steinvör kerling gerði Þangbrandi forðum, snúið öllu í villu fyrir hæstv. ráðherra. Það mátti ekki minna kosta. Annars benti hv. 3. þm. Reykv. á það, eins og áður hefir fram komið, að það má viðhafa margvíslegar aðferðir, og útkoman fer í hvert sinn eftir því, við hverjar tekjur er miðað og hvaða reglu maður vill fylgja. Jeg hafði áður tekið það fram, að jeg liti ekki á þennan útreikning sem neina algilda sönnun, heldur sönnun í því tilfelli, sem lá fyrir, og sem þá má líka byggja ályktanir á. Að telja útreikninginn rangan, eins og hæstv. ráðherra gerði, af því frádráttur eftir 11. gr. laganna kemur ekki fram á skattskyldum tekjum frá fyrri árum, er ekki annað en vindhögg eða hártogun, því að í yfirlitstöflunni er allur frádráttur gerður frá tekjum síðasta árs, áður en sýndar eru skattskyldar tekjur þess. Þetta er því aðeins hártogun hjá hæstv. ráðh. (JÞ) og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Hv. þm. N.-Ísf. hafði litlar ástæður til að koma fram með svona aðfinslur, þar sem háttv. minni hl. fylgdi þessari sömu reglu um útreikninginn. Jeg verð því að halda því fram, að óvjefengjanlegt sje, að skaði ríkissjóðs af meðaltalsreglunni hljóti að verða mikill. Jeg skal bæta því við, að ótalinn er í þessum dæmum, bæði frá meiri og minni hl., sá skaði af meðaltalsreglunni, sem ríkissjóður verður fyrir af því, að tekjurnar koma altaf eftir á, með öðrum orðum vaxtatap um eitt og tvö ár, á ári hverju frá því að byrjað er á meðaltalsreglu frv. Eins og áður hefir verið drepið á, er ekki hægt, vegna þess að upplýsingar vantar um síðasta framtal, að fara nærri um það, hve miklu munar tekjumissir ríkissjóðs á þessu ári eftir meðaltalsreglunni, en með tilliti til þess, að mörg togarafjelögin hafa á síðasta ári hagnast vel, væru það að minni hyggju engar öfgar að áætla tekjumissinn á þessu ári nokkur hundruð þúsunda. Jeg hefi giskað á 4–5 hundr. þús.

Nokkur áhersla var lögð á það við fyrri hluta þessarar umr., að báðir bankarnir hefðu gefið frv. meðmæli sín og talið breytinguna sjálfsagða. Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) gaf svör við þessu, en jeg vil bæta því við, að ekki væri undarlegt, þótt bankarnir, sem eftir kenningu hæstv. fjrh. eiga stórfje hjá útgerðarfjelögum, sem týnt hafa öllum höfuðstól, vildu auka gjaldgetu fjelaganna með því að mæla þau undan háum sköttum. Annars verður hjer að minnast þess, að meðmæli bankanna eru ekki skýlaus, því að undirskrift tveggja bankastjóra vantar undir meðmæli bankanna.

Vel má vera, að atkvæðastyrkur hæstv. ráðh. (JÞ) sje nægur hjer í hv. deild til að fella brtt. vor meirihlutamanna og veita gæðingum hans ívilnunina mestu, en kurlin koma þá síðar til grafar.