06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

1. mál, fjárlög 1926

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á hjer brtt. á þskj. 299 undir I. lið, ásamt tveimur öðrum hv. þm., þar sem við leggjum til, að hækkað sje á 2. gr. 22, það er ágóði af tóbakseinkasölunni, úr 275 þús. upp í 325 þús. kr. Jeg hygg, þótt sjálfsagt sje að fylgja þeirri reglu að áætla sem varlegast tekjumegin í fjárlögunum, að með þessari áætlun sje ekki hægt að telja neitt óvarlega farið. Samkv. reynslu síðasta árs hefir tóbakseinkasalan gefið ríkissjóði í hreinum og beinum tekjum 350 þús. kr. En auk þeirra hefir verið lagt í varasjóð verslunarinnar eitthvað um 35 þús. kr. Upphæðin, sem við förum fram á, að sett verði tekjumegin í fjárlögin, verður um 60 þús. kr. minni en arður verslunarinnar síðastl. ár. Að vísu kemur ekki öll sú upphæð til innborgunar í ríkissjóð, þar sem 35 þús. eru lagðar í varasjóð verslunarinnar; en þessi upphæð okkar er þó 25 þús. kr. lægri en borgað var í ríkissjóð síðastl. ár. Samkv. rekstri verslunarinnar á því ári, og eftir því sem gengi íslensku krónunnar var háttað, hygg jeg, að áætlun okkar sje mjög gætileg og að undir engum kringumstæðum verði ekki mun meiri arður af rekstri verslunarinnar heldur en við gerum ráð fyrir með þessari till. Fyrir mitt leyti hefði jeg heldur ekki viljað flytja þessa till., ef ekki væri fyrirfram víst, að arðurinn færi fram úr áætlun, og það að mun; því jeg hefi áður látið það í ljós, og er þeirrar skoðunar enn, að það er ekki lítil trygging í því fólgin að áætla ætíð sem varlegast tekjuliði fjárlaga.

Skýrslur þær, sem landsverslun hefir gefið um innflutning tóbaks á síðastl. ári, sýna það, að innflutningurinn hefir alls ekki verið mikill, og þar að auki voru óhagstæð innkaup á tóbaki, sökum verðfalls íslensku krónunnar. Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður var vinningurinn af versluninni þetta mikill. Þess vegna tel jeg það fyrirfram vitað, að verslunarágóðinn muni fara allmikið fram úr áætlun okkar, enda vildi jeg þess gjarnan óska. Jeg get bætt því við, að þó að Alþingi nú kunni að gera einhverja breytingu á skipun verslunarinnar, þá þykir mjer ekki sennilegt, að það verði gert á annan hátt en þann, að sjeð sje fyrir því, að ríkissjóður bíði engan tekjumissi af þeirri ráðstöfun.

Jeg tel mig svo ekki þurfa að gera frekari grein fyrir þessari till.

Aðra brtt. á jeg á þskj. 290, um styrk til læknisbústaðarins og sjúkrahússins í Laugarási. Var hún hjer flutt við 2. umr., en þá tók jeg hana aftur og flyt hana nú 1 þús. kr. lægri. Hefi jeg gert það í samráði við hv. fjvn.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, var þessi læknisbústaður reistur ásamt sjúkraskýli. Landlæknir hefir kynt sjer bygginguna og telur hana í alla staði góða. Sá styrkur, sem sjúkraskýlið hefir fengið áður, er ekki 1/10 af því, sem byggingin kostaði, sem voru liðug 30 þús. Þó læknishjeraðið fái nú þennan styrk, þá vantar mikið á, að það fái 1/3 kostnaðar, eins og sumstaðar hefir verið veitt áður. En til þess að fá hv. fjvn. í liðsinni við þetta málefni, flyt jeg upphæðina minni.

Þá á jeg till. undir XLI. lið, er jeg flyt ásamt hv. samþm. mínum (MT). Þar er farið fram á að hækka styrk til bryggjugerðar og lendingarbóta um 5 þús. kr. Hv. þdm. er það kunnugt, að í fjárlögum fyrir 1923 voru veittar 10 þús. kr. til bryggjugerðar á Eyrarbakka. Auk þess var í fjárlögum áður veitt allmikil upphæð til lendingarbóta á Stokkseyri. Var það fje þó ekki notað nema að litlu leyti. En umbætur á innsiglingunni á Stokkseyri eru bráðnauðsynlegar. Væri strax nokkur bót að því, þótt ekki væri varið til þess meira en 2–3 þús. kr. Á Eyrarbakka er ákaflega mikil þörf fyrir bryggju; sú, sem til er, nær svo skamt fram, en uppskipun þar er mjög erfið. Þeir, sem þekkja staðinn, vita, að jeg fer hjer með rjett mál. Jeg get þegar bætt því við, að það er búið að undirbúa allmikið bryggjugerð á Eyrarbakka t. d. með því að viða að efni með ærnum kostnaði. Er það ákaflega nauðsynlegt fyrir hjeraðsbúa, að þeir fái komið verkinu í framkvæmd sem allra fyrst. Jeg held mjer sje óhætt að segja, að hv. fjvn. sje þessari till. fylgjandi, og jeg leyfi mjer að vona, að háttv. deild ljái henni samþykki sitt.

Svo á jeg brtt. á sama þskj., LV. lið, um að stjórninni sje heimilt að kaupa hús af prestinum á Torfastöðum í Biskupstungum. Það hefir komið til orða, að presturinn sækti burtu þaðan; og hann á að heita má öll hús á jörðinni. Hann hefir verið mjög framkvæmdasamur, gert ákaflega mikið af jarðabótum og byggingum. Það er ekki á annara færi en stórefnamanna að taka jörðina. En það verður ekki vitað fyrirfram, hvort sá prestur, er sækir næst um brauðið, sje svo efnum búinn, að honum verði það kleift. Þessi kaup þurfa ekki að koma til framkvæmda nema því aðeins, að stjórnin telji nauðsynlegt. Þetta er í fylsta samræmi við það, sem gert er á öðrum prestssetrum, þegar svona stendur á. Skil jeg því ekki, að neinar rjettmætar ástæður verði færðar þessu til fyrirstöðu.

Eina tillögu á jeg eftir á þskj. 299, við 16. gr. 5, um Skeiðaáveituna. Hv. frsm. mintist á þær till., sem fjvn. hefir fallist á viðvíkjandi þessu máli. Það er sem sje undir XXXVIII. lið b. á þskj. 290. að stjórninni er falið að skipa mann á áveitusvæðinu, eða í nánd við það, til þess að hafa á hendi fjárreiður áveitunnar. Einnig er ríkisstjórninni falið að sjá um, að stjórn Landsbankans gefi áveitubændum eftir greiðslur af veðdeildarlánum áveitunnar 1924 og 1925. Þessar tillögur mun hæstv. atvrh. hafa fyrst borið fram við hv. fjvn. Till., sem jeg flyt til viðbótar á þskj. 299, um að ríkið greiði vexti og afborganir af veðdeildarláni áveitunnar í 5 ár með 6 þús. kr. á ári, hana mun hæstv. atvrh. líka hafa borið fram við nefndina, en hún ekki viljað fallast á hana.

Um fyrri hluta till., sem fjvn. hefir fallist á, að skipaður verði maður til að hafa á hendi eftirlit með fjárreiðum áveitunnar, hefi jeg ekkert að segja; jeg er ekkert á móti því. Jafnvel hygg jeg, að það sje mjög æskilegt, að einhver hafi umsjón með áveitunni. Ekki af því, að jeg treysti ekki mönnunum á þessu svæði fullvel til að standa í skilum eftir bestu getu, heldur er það af hinu, að þá er síður hætta á, að sá grunur rísi, að hlutaðeigendur dragi að greiða eftir getu áveitukostnaðinn. Þetta segi jeg ekki að ástæðulausu. Það komu fram við 2. umr. fjárlagafrv. ummæli, sem ekki er hægt að skilja á annan veg en að bændur þessir mundu lítið hirða um sínar skuldbindingar við Landsbankann. Því var mótmælt þá, og jeg mótmæli því enn, að þeir hafi sýnt neitt tómlæti í þessu efni. En það er einmitt gott að fá eftirlit, til þess að fyrirbyggja tortrygni gagnvart bændunum.

Um síðari lið þessarar till. hv. fjvn, hefi jeg heldur ekki nema gott eitt að segja. Jeg hygg alls ekki gengið nærri ákvörðunarrjetti bankans, þó að þingið geri slíka fyrirskipun. Hann hefir sannarlega verið frjáls að ráða sínum fjárreiðum og þarf alls ekki að kvarta yfir því, að lagðar hafi verið hömlur á starfsemi hans, enda ekki nema sjálfsagt að sneiða hjá slíku. En þvert á móti hefir þingið oft og mörgum sinnum sýnt honum fylsta liðsinni í ýmsum málum, er snerta hag hans. Jeg get ekki sjeð, að umráðarjettur bankastjórnarinnar yfir bankanum sje skertur hið minsta með nefndri fyrirskipun.

Þvert á móti er það mín meining, að bankastjórninni ætti að vera það kært, að þingið lýsti yfir vilja sínum í þessu efni. Við vitum allir, hversu fyrirtæki þetta hefir orðið dýrt, og að það fór langt fram úr upphaflegri áætlun, af ástæðum óviðráðanlegum þeim mönnum, sem hlut áttu að máli. Er þess vegna ekki nema sanngjarnt, að bankinn sýni þessa liðveislu.

Það má benda á í þessu sambandi, að þó að bankinn greiði þessa upphæð, þá er það ekki nærri sú upphæð, er bankinn græddi á verðfalli veðdeildarbrjefanna og kostnaði, er varð við lántökuna; hún hefir orðið svo dýr. Má það þó ekki minna vera, úr því fyrirtækið hefir orðið svo kostnaðarsamt, en að bændur borgi ekki líka á þessum lið stórfje. Mjer hefði verið það ákaflega kært, hefði hv. fjvn. getað fallist líka á það, að ríkið legði fram að sínum hluta þessar 6 þús. kr. á ári næstu 5 ár. Mjer skilst það hefði verið langæskilegast, að sú ákvörðun hefði verið tekin einmitt nú, að hve miklu leyti ríkið vildi hlaupa undir bagga með þessum bændum. Mjer skilst það væri nokkur stuðningur fyrir hæstv. stjórn til þess að koma þessu máli fyllilega fram á hreinum grundvelli, að þingið tæki nú slíka ákvörðun um þetta efni. Jeg verð að segja, að jeg er hálfundrandi yfir því, að hv. fjvn. skyldi ekki sjá það mikla nauðsyn þessa máls, að hún vildi taka till. upp. En jeg get í þessu efni verið mjög þakklátur hæstv. stjórn fyrir skilning hennar á þessu máli, og þá sjerstaklega hæstv. atvrh. (MG), sem hefir bæði í fyrra og nú látið sjer mjög ant um að koma málinu í rjett horf. Og mjer þykir ilt til þess að vita, að ýmsir hv. þdm. leiða það hjá sjer að líta á þá brýnu nauðsyn, sem er til þess að veita þessum mönnum lið. Ef menn vildu athuga það, hversu miklar skuldir þessir menn hafa á herðum sjer, þá mundu þeir ekki komast hjá því að skilja, að það er öldungis ofvaxið svo fáum búendum að standa í skilum, nema þeir fengju eitthvert liðsinni. Jeg tel, að það verði ekki til annars en að tefja það óhæfilega, að málið komist á svo hreinan grundvöll sem æskilegi væri, að slá þessari ákvörðun á frest. Nú er mjer kunnugt um það, að margir í fjvn. — ef til vill allir — telja nauðsynlegt, að ríkið hlaupi þarna undir bagga, en vildu samt slá á frest að taka fullnaðarákvörðun um það. En jeg get ekki almennilega skilið þeirra ástæður.

Jeg vil því vona, að enda þótt hv. fjvn. hafi ekki sjeð sjer fært að taka þessa till. upp, þá vilji hún ekki leggja stein í götu þessa máls.

Það væri líka illa til fallið, ef þeir hv. þm., sem þar eiga sæti, yrðu fyrstir til að hindra framgang svo sanngjarnrar kröfu.

Jeg skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en vænti þess, að hv. deild taki á því með fullri samúð og sanngirni.