24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Það mun vera tilgangslítið að fjölyrða um þetta mál eins og því er nú komið og eftir þá meðferð, er það sætti við 2. umr. Forlög þess virðast vera þegar ráðin af hinum ríkjandi flokki þingsins og ívilnanir og verðlaun ætluð og heitin hinum trúu og dyggu þegnum íhaldsins, sem hlut eiga að máli.

Það skiftir líklega litlu í augum þeirra manna, sem þessar breytingar skattalaganna styðja, hvort ríkissjóður missir nokkur hundruð þús. kr. tekjur eða ekki. En torskilin fer nú að verða sú mikla alvörugefni um bættan fjárhag ríkissjóðs, afborgun skulda og sparnað á ríkisfje, sem hæstv. fjrh hefir á vörum borið bæði á síðasta þingi og þessu, þegar hann til hagsmuna nokkrum stjórnargæðingum í kaupmannastjett vill á einu ári fórna vissum miljónarfjórðungi króna af tekjum tóbakseinkasölunnar, og hinsvegar draga undan stórgróðaskatti nokkra vildarmenn, og bíða auk þess svo árum skiftir eftir tekjuskatti, sem nema mundi líklega tvöfaldri upphæð hagnaðar af tóbakseinkasölunni, jafnframt og skapað verður átakanlegasta misrjetti við aðra skattþegna, sem engan frest eða ívilnanir fá um skattgreiðslur.

Engan þarf því að furða, þótt jeg og fleiri fari að efast um landsföðurlega umhyggju um fjárhaginn hjá hæstv. fjrh. Og engan þarf að furða, þótt stuðningur þm. við tekjuöflun hans í ríkissjóð rjeni, einkum þegar sú tekjuöflun er þá ýmist hugsuð eins og neysluskattur, nefskattur eða happdrættishagnaður. Með þeirri skattamálastefnu virðist í ljós komin svo einhliða og ógeðsleg kúgunartilraun við alla minnimáttar gjaldendur, að óhugsandi er annað en hún hefni sín og veki til mótspyrnu alla sanngjarna menn, og espi jafnvel ótamdar hvatir Öreiganna til hefnda við þann, sem þvinguninni vill beita.

Það er ekki af hefndarhug eða óvild, að jeg bendi hæstv. ráðherra á þetta, heldur af því, að jeg vil vara hann við að skapa óöld í landinu með taumlausu dekri við þröngsýna fjepúka, og jafn taumlausri lítilsvirðingu á hag og kjörum smælingjanna.

Jeg veit vel, að öll siðmennileg viðleitni er með einskonar öldugangi, svo í stjórnmálum sem í öðrum efnum. Ýmist berast þær hærri hugmyndir á öldufaldi, og verður þá útsýni meira og bjartara, eða þær sogast niður í öldudal, þar sem útsýnið byrgir. Á einum þessum öldufaldi virtist mjer Alþingi standa 1921. Þá voru skattalög samin, sem að rjettlátlegri skattálagningu tóku mjög fram þeirri gömlu En nú á að takmarka það rjettlæti. Þá voru sett lögin um tóbakseinkasöluna, sem unnu það tvent í senn, að afla ríkissjóði mikilla og vissra tekna, án þess að valdbjóða gjald frá nokkrum manni og án þess, að varan yrði neytendum dýrari vegna ríkisteknanna, af því að þær fengust af því, sem áður hafði verið kaupmannsgróði. Nú á að fella þau lög úr gildi.

Í þriðja lagi var þá borið fram frv. um korneinkasölu, sem að vísu varð ekki að lögum, en átti þó rætur í þjóðfjelagslegri umhyggju og ennþá geymir vísi til mikilla hagsbóta fyrir þjóðfjelagið, þótt ekki væri það þá þroskað til að hagnýta þær.

Fleira líkt mætti telja frá því þingi, sem sýndi, að því var öllu bjartara fyrir augum en þessu, svo sem lög um samvinnufjelög, lög um ríkisveðbanka o. fl., en jeg skal ekki þreyta háttv. þdm. á lengri upptalningu. Á hitt skal jeg benda, að hæstv. atvrh. (MG), sem þá var fjrh., bar einmitt þá fram til sigurs tvö fyrstu málin, er jeg nefndi: tekjuskattslögin og lögin um tóbakseinkasölu. Hann naut samhygðar og fylgis af meiri hl. þings og var sjálfur snortinn af þeim hærri hugsjónum, sem þessi mál áttu og eiga að baki sjer. Hann var þá í góðum fjelagsskap og samverkamaður þess atvrh., sem reyndi að koma á korneinkasölunni, manns, sem bæði flokksbræður og andstæðingar virtu og viðurkendu fyrir sakir drengskapar og ósjerplægni. Nú er öldin önnur. — Jeg vil ekki segja, að hún sje öll af dygðum snauð. — Útsýnið er breytt. Aldan er riðin hjá og vjer höfum sogast ofan í djúpan öldudal, þar sem gjörningaþoka fjepúka íhaldsins grúfir yfir öllu og bregður ógeðslegri glætu á umhverfið. En niðurstöður starfsins verða þessu líkar.

Óskabörn núverandi hæstv. atvrh. frá 1921 eru nú borin út og hann veitir þeim sjálfur nábjargir. Afgreiðsla þýðingarmestu mála litast af hagsmunum og kröfum þeirra manna, sem yfir Íhaldinu standa með sjóðinn reiddan til höggs, ef út af ber, en opinn til stuðnings, ef hlýtt er.

Og þjóðin á að leita sannleikans í blöðum þessa flokks, sem útlendir og innlendir maurapúkar halda uppi vegna eigin hagsmuna, og hún á að falla fram og tilbiðja þann gullkálf.

Jeg skal ekki þrátta við hæstv. fjrh. (JÞ) út af rangfærslum hans og hártogunum á áliti meiri hl. fjhn. Taflan á þskj. 189 er rjett reiknuð og tekjuskattur fyrra árs er hvert sinn dreginn frá nýjum skattskyldum tekjum, en ekki þeim gömlu, eins og eðlilegt er eftir 11. gr. laganna. Tjón ríkissjóðs af lögfestingu þessarar meðaltalsreglu í frv. er svo auðsæilegt, að hverjum manni má vera það auðskilið, en önnur ákvæði þess, sem frambærileg eru, eru ekki þess verð, að þvílík fórn sje færð þeirra vegna.

Þess vegna hlýt jeg að greiða atkvæði gegn frv. og vænti þess, að allir þeir, sem samneyti vilja hafna við stefnu fjepúka Íhaldsins, geri það einnig.