24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2234 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg mun ekki víkja að einstökum atriðum í frv. þessu eða ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), enda þótt hann liggi mjög vel við höggi. Læt jeg hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um að svara honum, enda var flestum skeytum beint til hans í ræðu hæstv. ráðh. (JÞ). En því vil jeg þegar mótmæla, að Framsóknarflokkurinn geri sjer að leik að lengja umr. hjer í deildinni, enda þótt hann láti það ekki fara fram hjá sjer orðalaust, að hvert óhæfuverkið sje framið hjer á fætur öðru. —

Ef til væri erindisbrjef fyrir fjármálaráðherra landsins, hlyti það að vera á þá leið, að fyrsta skylda hans væri að sjá ríkissjóði fyrir nægum tekjum. Þetta er alstaðar viðurkend aðalskylda hans. En hvað kemur upp úr dúrnum um hæstv. fjrh. (JÞ)?

Vjer stöndum nú á tímamótum vetrar og sumars. Síðasta verk vor Framsóknarmanna hjer á þingi á vetrinum var að verja ríkissjóð fyrir ágangi hæstv. fjrh. (JÞ). Og fyrsta verk vort á sumrinu er að verja ríkissjóð fyrir ágangi sama hæstv. fjrh. Fyrir atbeina hans var samþykt hjer í hv. Nd. á síðasta vetrardag að kasta burt 250 þús. kr. tekjum úr ríkissjóði af tóbakseinkasölu. Í dag gerir hann og flokkur hans aðra tilraun til að svifta ríkissjóðinn enn meiri tekjum. Og þetta frv. er einmitt borið fram eftir það ár, þegar hlutafjelögin hafa grætt fleiri hundr. þús. en tugi þúsunda áður. Jeg held, að það sje ekki að ástæðulausu, þótt sumir haldi, að frv. sje borið fram til þess að hlífa gróða síðasta árs við skatti.

Jeg vil enn benda á, að þetta nýja skipulag stofnar ríkissjóði í mikla hættu um að fá þessa skatta alls ekki greidda. Eftir gróðaár er hægt að ganga að fjenu vísu, en hætt er við, að skattarnir komi ekki allir í leitirnar eftir næsta slæmt ár. Hæstv. fjrh. ætti að muna eitt dæmi um það, að tekjuskattur tapaðist af því, að hann var krafinn of seint. (Atvrh. MG: Þetta er ekki satt). Jeg veit ekki til, að skatturinn sje greiddur enn, sem jeg á við. Hjer myndi bera að sama brunni, að innheimtan færi of seint fram.

Síðasta vetrarverk fjármálastjórnarinnar íslensku var að svifta ríkissjóð 250 þús. kr. tekjum. Fyrsta sumarverk hennar er að svifta hann enn meiri tekjum. Jeg veit ekki, hvers vjer andstæðingar hennar erum megnugir, en eitt er víst, að jeg mun gera mitt til að slík stjórn þjái ekki land og lýð lengur en þörf krefur.