24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Torfason:

Það hefir vitaskuld verið lagt bann fyrir það að ræða þetta mál. Að þessu hefi jeg ekki teygt umræðurnar, en ætla nú að leyfa mjer að tala nokkur orð, þó það verði sjálfsagt í fullri óþökk hæstv. fjrh. (JÞ).

Jeg verð að segja það, að jeg varð dálítið hlessa, þegar jeg sá, að þetta frv. kom fram og aftur var farið að hræra í skattalögunum frá 1921. Jeg varð hlessa á þessu bæði af því, að það er óvenja að grauta svona í slíkum lögum, enda ekki líkt því fengin full reynsla fyrir því, hvernig þau verka. Fyrir 2 árum komu tilmæli frá fjármálaráðuneytinu um það, að yfirskattanefndir segðu til um breytingar, sem þær vildu láta gera á lögunum. Þetta var tekið fyrir í yfirskattanefnd Árnessýslu, og eftir að hafa rætt um málið á annan dag komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að ekki væri enn fengin nóg reynsla til þess að hægt væri að gera ákveðnar till. um breytingar á lögunum, nema þá þær, sem fælust í athugasemdum yfirskattanefndar, sem við gerðum eins ítarlega og hægt var. En einkum var þó eitt atriði, sem við þóttumst fullkomlega sjá, að ekki væri komin nóg reynsla á, en það er sjálft skattaframtalið. Það hefir farið svo, að á skattaframtalinu hafa orðið ýmsir gallar, en þeir hafa þó heldur lagast þessi ár, þótt langt sje enn frá því, að alt sje eins og vera ber, af ástæðum, sem jeg skal ekki þreyta menn á að fara út í.

Þó verð jeg að geta þess, að mikið bar á því, hve erfitt var að fá rjett framtal og fult hjá hærri og stærri gjaldendum. Eins og menn vita, eru engin stór fyrirtæki í Árnessýslu, en það er þó niðurstaða yfirskattanefndar, að landssjóður fái tiltölulega minni skatt hjá hinum stærri gjaldendum heldur en þeim smærri. En því skal ekki neitað, að smátt og smátt hefir þetta færst heldur í lag.

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, gengur í þá átt að veita ívilnun hinum stærri gjaldendum. Nú vil jeg benda á það, að hinir stærri gjaldendur hjer í Reykjavík hafa sjerstaka menn til þess að hjálpa sjer til þess að telja sem minst fram. Það er vitanlegt, að hjer eru vissir menn, sem gera sjer það að atvinnu. Og án þess að jeg vilji vera að bera neinn óhróður á hærri gjaldendur hjer í Reykjavík, þá er það vitanlegt, að þeir komast fremur hjá því að telja vel fram en menn í sveitum, sem enga aðstoð geta haft og telja stundum fram sjer í óhag. Tryggingin fyrir rjettu framtali er ekki eins góð og vera ætti. Og frá þessu sjónarmiði er ekki kominn tími til þess að bera fram frv., sem gengur í þá átt að ívilna þessum hærri gjaldendum.

Það hefir verið sagt hjer í salnum, að útgerðarmenn undantekningarlaust heimtuðu þessa breytingu, sem í frv. felst. Þessu vil jeg neita. Jeg er nákunnugur einum útgerðarfjelagsformanni, og hann hefir lýst yfir því, að hann kærði sig ekkert um það. Eina ákvæðið, sem hann taldi nokkurs vert, er viðvíkjandi varasjóði, og skal jeg ekki neita því, þó jeg telji það athugavert, að þessari heimild eru engin takmörk sett, önnur en þau, sem sjálft fyrirkomulag hlutafjelaganna kann að hafa í för með sjer.

Nú kom það fram í ræðu hæstv. fjrh., að þessi breyting er beinlínis bygð á skökkum grundvelli. Hann lítur nefnilega þannig á, að upphæð hlutafjárins eigi ekki að liggja til grundvallar fyrir skattinum. Og þá finst mjer hann bæta gráu ofan á svart með því að byggja þessa breytingu á því, hvort hlutafjeð er mikið eða lítið. Besti kostur tekjuskattslaganna 1921 var, að menn samkv. þeim greiddu skattinn strax eftir að tekjurnar fengust og voru ekki píndir til að greiða skatt löngu eftir að gróðinn var tapaður.

En með þeirri breytingu, sem hjer er verið að gera, er stofnað til þess, að menn borgi skatt af tapi — ekki aðeins ári eftir, heldur tveimur eða þremur árum eftir að tap er skollið á þá, og ganga þau því í öfuga átt.

Þá verð jeg að leggja afarmikla áherslu á það, að þessi lög innleiða mjög mikið misrjetti gagnvart einstaklingum. Í mínu lögsagnarumdæmi er talsverð bátaútgerð, sem er mörgum sinnum áhættumeiri heldur en togaraútgerðin, eins og menn geta gert sjer í hugarlund, þar sem hann er svo mjög háður óstöðugum gæftum. Þarna eru menn persónulega ábyrgir fyrir rekstrinum, en hjer hafa menn hlutafjelög á bak við sig, og er það mikill munur.

Enn er eitt atriði, sem jeg vil benda á, og það er þetta: Mjer virðist fullkomið Reykjavíkurbragð að þessu frv. Það er vitanlegt, að þar eru hlutafjelögin flest og mest, og því kemur þessi breyting til að verka fyrst og fremst í Reykjavík. Jeg álít, að hv. þdm. mættu taka nokkurt tillit til þess, að hv. 3. þm. Reykv. (JakM), — sem kunnugt er um, að heldur allra manna skarpast fram hagsmunum Reykjavíkur —, hann getur ekki fallist á frv., og ætti hann þó að hafa athugað það vel, enda haft betri aðstöðu til þess en flestir aðrir. En það er víst, að hann mundi mæla með frv., ef hann sæi sjer það fært.