24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2241 í B-deild Alþingistíðinda. (1227)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bjarni Jónsson:

Orð mjer af orði

orðs leitaði,

verk mjer af verki verks.

Það er nú svo hjer, að ef maður leyfir sjer að segja tvö, þrjú orð, þá verður þar af löng rekistefna. Jeg skal þá fyrst svara háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) og athugasemdum hans. Jeg sagði ekki í minni ræðu, að hann hefði sagt, að landssjóður biði engan halla af þessu frv., heldur sagði jeg, að ræða hans hefði sannfært mig um þetta. Af dæmi því, er hann tók og jeg hygg að væri rjett reiknað, var það auðsjeð, að litlu munaði fyrir landssjóð, hvort breytingin er samþykt eða ekki. Hjer er því ekki á annað að líta en þetta, hvort gjaldþegninn eigi að greiða skattinn á þægilegan eða óþægilegan hátt. En eins og hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, þá er hjer raunar aðeins um gjaldfrest að ræða.

Þá sagði háttv. 3. þm. Reykv., að veiku fjelögin yrðu hjer ver úti en þau öflugri. En það er ekkert sjerstakt við þessa breytingu, heldur hlýtur það altaf að verða svo. Það er auðvitað, að veiku fjelögin standa altaf ver að vígi. Það er ekki hægt að sigla fyrir öll sker, og ef maður hugsar um tekjuskatt einstaklinga, þá liggur í augum uppi, að það er þyngra fyrir þann mann að gjalda skatt, sem hefir þungt heimili, en hinn, sem veifar ljettum hala. Því er ver, að hjer verður alls ekki girt fyrir alt ranglæti. Það væri auðvitað rjettast, að hver greiddi skatt eftir efnum og ástæðum, en ekki í tollum. Það er hugsjón, sem allir játa, að eigi að keppa að, ef nokkur máttuleiki væri á því að koma því þannig fyrir. En ef litið er til niðurjöfnunar útsvara, þá glæðir það ekki vonir manna um, að ranglætinu verði þannig útrýmt. Það er alt annað þegar einstakt góðæri kemur eftir vond ár og menn þurfa á öllu sínu að halda, hvort þeir verða að greiða í einu háa upphæð í ríkissjóð eða þeir fá að skifta henni á fleiri ár. Háttv. þm. (JakM) sagði, að gjaldfresturinn væri einskis virði. Það er rjett, að fyrir þau fjelög, sem eru stórauðug, er hann lítils virði, en fyrir hin, sem ver standa að vígi og harðara verða úti. er hann mikils virði. Jeg beygi mig hjer fyrir vilja gjaldþegna sjálfra, og þeir álíta sjer það betra. — Jeg skal svo enda mál mitt til hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Mjer datt ekki í hug að rangfæra orð hans, en hann sannfærði mig um það, að lnddssjóður mundi engan halla bíða af því, þó þetta frv. yrði samþykt. Það getur vel verið, að þetta hafi verið tómur fyrirsláttur af hálfu hv. þm., en hann sannfærði mig, og það er mjer nóg.

Þá var einhver hv. þm. að tala um það, að eftir þessu frv. yrði skattur greiddur af tapi. Það er ekkert nýtt. Flestir gjalda skatt af tapi, og fæstir þeir, sem gjalda tekjuskatt, hafa raunar ofan í sig. Flestir gjalda skatt með nýrri skuld. En svo er þetta ekki allskostar rjett. Þeir gjalda ekki skatt af tapi, heldur gjalda þeir skuld, sem þeir eru komnir í áður, jafnvel þó þeir hafi tapað.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að jeg hefði fundið mig knúðan til að standa upp flokkanna vegna, þessara stóru. Reyndar gerði jeg það ekki, enda hefi jeg ekkert umboð til þess og þarf ekki neitt um þá að sjá. En jeg stóð upp til þess, að mjer yrði ekki blandað neitt þar inn í. Jeg vildi láta það sjást, að jeg greiði mitt atkvæði eins og jeg tel rjett, en ekki af því, að jeg væri í neinu íhaldi, hvorki fjepúkaíhaldinu eða mauraíhaldinu, eða hvað þau kunna að verða kölluð þessi stóru íhöld. Þá talaði hv. þm. (SvÓ) um það, að hann hefði drukkið mjer til í íhaldsvíni. Ef þessi hv. þm. meinar, að jeg hafi mína skoðun þaðan, þá er það misskilningur. Jeg hefði orðið við ádrykkju hans, ef vínið hefði verið keypt í frjálsri verslun. En einokunarvín þykja mjer ekki svo góð, að jeg verði við ádrykkju nokkUrs manns í þeim.

Hv. þm. (SvÓ) sagði, að hann hefði ekki haldið því fram, að þessi skattalög væru allskostar rjettlát, heldur væru þau rjettlát í samanburði við eldri skattalög. Þetta er rangt. Eldri skattalögin voru miklu rjettlátari, en hin gefa að vísu meira fje í ríkissjóð. Það var ekki öldufaldur rjettlætisins, sem hv. þm. (SvÓ) reið á 1921, heldur öldufaldur fjepúkans.

Eitt var harla einkennilegt í ræðu hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), er hann mintist á korneinkasöluna. Hann sagðist vera fylgismaður frjálsrar verslunar, en þó hefði hann verið með einkasölu á korni, af því þjóðin væri ekki þroskuð upp í annað fyrirkomulag.