24.04.1925
Neðri deild: 63. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2244 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Út af orðum hv. þm. Str. (TrÞ) vil jeg segja það, að jeg hefi aldrei talið það æðstu hugsjón nokkurs fjármálaráðherra að reita alt, sem reitt verður, í ríkissjóð, hvort sem það er með röngu eða rjettu móti. Jeg tel hóf á því best eins og hverju öðru. Og jeg vil fremur segja, að ef jeg gæti talað um ánægju í starfi mínu sem fjármálaráðherra, þá væri hún sú, ef jeg gæti komið með einhverjar till. um að ljetta útgjaldabyrði almennings, þó hlutskifti mitt hafi orðið annað hingað til, af orsökum, sem öllum mættu vera kunnar.

Hv. þm. (TrÞ) hjelt því fram, að ekki væri víst, að miklar tekjur kæmu af hlutafjelögum árið 1926. Jeg skal ekki um það deila. Hinsvegar vita það allir, að það er engin nýbreytni hjer, þó það komi fyrir, að einstakir menn og fjelög greiði háan skatt á tapári, jafnvel engu síður en á tekjuári.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) talaði um það, að þetta nýja fyrirkomulag yki ranglæti að því er snerti illa stæð fjelög. En þetta er ekki rjett. Og jeg gæti meira að segja helst búist við, að ef þessi þriggja ára meðaltalsregla yrði til að lækka skattinn á nokkrum fjelögum, þá yrði það á þeim, sem hafa lítið hlutafje og sem undir núv. fyrirkomulagi mega einmitt óttast tiltölulega há gjöld. Vel stæðum fjelögum ívilnar frv. ekki. Og ef eitthvað mætti að því finna, þá væri það einmitt helst, að það veitir þeim fjelögum, sem við þröngan hag eiga að búa, ekki svo mikla ívilnun sem sanngjarnt væri. — Jeg held, að enska reglan sje rjett, að sá, sem hefir tapað, verður að fá að vinna upp tapið, áður en konungurinn kemur að krefja hann skattsins. Það er ríkinu heillavæmlegra til frambúðar, að fjelagið borgi fyrst skuldir sínar, áður en það greiði því sjálfu háan skatt.

Þá verð jeg algerlega að mótmæla því, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að algengt væri, að menn hjer fengju sjer reikningsfróða menn til aðstoðar við að koma eignum sínum undan skatti. Þetta á auðvitað við engin rök að styðjast. Hinsvegar tíðkast það, að menn fá reikningsglögga menn til að gera upp ársreikninga sína, og miðar það einungis til þess, að skatturinn verði rjettur. Eins nær það auðvitað ekki neinni átt að halda því fram, að fyrirtæki, sem hafa bókfærslu, geri eða geti fengið reikningsgerð, er dregur undan skatti, því hverju framtali verður að fylgja ársreikningur fjelaganna. Þess krefst skattstofan. Í annan stað verð jeg að segja, að það situr illa á hv. þm. (MT) að bera Reykvíkingum á brýn óheiðarleik hvað greiðslu tekjuskattsins snertir, því það er vitanlegt, að svo er með þau mál farið hjer, að varla mun í betra lagi annarsstaðar á landinu, enda er hjer sjerstakur skattstjóri, sem hefir tök á að ganga eftir því, að rjett sje talið fram. Lögin um tekju- og eignarskatt hafa líka reynst koma sjerstaklega niður á borgurum þessa bæjar, og það svo mjög, að kringum 2/3 af skatti alls landsins eru goldnir hjeðan.

Sami hv. þm. (MT) taldi ákvæðin um varasjóð varhugaverð. En rjett er að geta þess, að þau eru tekin upp úr dönsku lögunum um þetta efni og hafa þar reynst svo vel, að jafnaðarmannastjórnin, sem nú situr þar, hefir í frv. til nýrra tekjuskattslaga stungið upp á, að skattfrjálsa upphæðin yrði hækkuð úr 1/4 upp í 1/3.

Þá sagði hv. þm. (MT) ennfremur, að misrjetti kæmi fram við þá einstaklinga, sem rækju áhættusaman atvinnuveg. En þetta er ekki rjett. Í 2. gr. frv. er einmitt gerð tilraun til að sýna einstaklingum svipaða sanngirni og hlutafjelögum. Og því má heldur ekki gleyma, að skattstigi hlutafjelaga er miklu hærri en einstaklinga, svo að þó að hlutafjelögum sje gerð nokkur ívilnun með varasjóðsákvæðinu, þá mun samt svo, að þau greiða htvrri skatt samkv. 7. gr. en einstaklingar greiða af sömu upphæð eftir 6. gr. frv. Annars er sjerstök ástæða til að ívilna hlutafjelögum, því þau eru mjög þungt sköttuð og þyngra en nokkur önnur fjelög, sem atvinnu reka. En það er vegna ríkissjóðs, að ekki er farið fram á meiri rjettingu á þessn. Því má ennfremur bæta við, að í raun og veru eru hlutafjelögin tvísköttuð, þar sem bæði er lagður skattur á þau og svo aftur skattlagður sami arðurinn hjá einstaklingunnm, sem í þeim eru.

Hvað viðvíkur brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JakM), þá skal jeg geta þess, að eftir þeim skýringum, sem hann ljet fylgja, þá sje jeg ekki, að máli skifti, hvort þær verða samþyktar eða ekki.