06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (123)

1. mál, fjárlög 1926

Sveinn Ólafsson:

Nafn mitt er tengt við 4 brtt. á þskj. 290, og skal jeg því lítillega minnast á þær. Þrjár þeirra lágu reyndar einnig fyrir við 2. umr., svo jeg þarf ekki að fjölyrða mikið um þær að þessu sinni.

Fyrsta brtt. er undir VII. lið atkvæðaskrár og fer fram á 2000 kr. styrkveitingu til Þorvarðar Helgasonar á Skriðu í Breiðdal, til heilsubótar og verknáms farlama syni hans. Við 2. umr. skýrði jeg allnákvæmlega, hvernig ástæður þessa manns væru og hvernig ástatt væri um þennan lamaða son hans, og hafa legið hjer frammi í lestrarsal vottorð læknis og oddvita um drenginn og allar heimilisástæður umsækjandans. Þarf jeg því ekki að fara mörgum orðum um þetta atriði nú; aðeins skal jeg leiða athygli hv. þm. að því, að svipaðar fjárveitingar til farlama manna hafa verið samþyktar því nær á hverju þingi undanfarið, og vil jeg því vona, að þessari beiðni verði ekki synjað.

Næsta brtt., undir XXII. lið, er einnig gamall kunningi frá 2. umr. Er þar farið fram á að leggja fje til viðbótarbyggingar við skólann á Eiðum, 50 þús. kr., í stað 60 þús., sem till. hljóðaði um við 2. umr. Sú tillaga fjell þá með jöfnum atkv., og lít jeg svo á, að það hafi stafað af því, að í hita dagsins og kapphlaupi hv. þdm. um hinar ýmsu brtt. hafi ekki nema sumir hv. þm. gert sjer ljóst, hvernig á þessari ósk stendur. Hjer er ekki um neinn styrk eða ölmusu að ræða. Þetta er engin venjuleg fjárbeiðni, heldur hæverskleg tilmæli um að efna loforð, sem gefið hefir verið. Tilmæli um, að ríkissjóður inni af hendi fjárgreiðslu, sem öllum er kunnugt, að hann á að inna af hendi, og sem áformað hefir verið að greiða um mörg ár.

Hjer er nefnilega um að ræða skuld, sem ríkissjóður stendur í, því þessa umbeðnu upphæð, og miklu meiri, afhenti hjeraðið ríkissjóði að gjöf fyrir nokkrum árum.

Nauðsyn þessarar byggingar hefir áður verið rækilega lýst og þá tekið fram, hversu mikill hnekkir hjeraðinu er að því að geta ekki notið skólans öðruvísi en nú, þar sem alt að helmingur þeirra, sem um inntöku sækja, verður frá að hverfa árlega sökum rúmleysis, og þá annaðhvort leita aðrar leiðir eða fara á mis við þá fræðslu, sem þeir óska eftir og þarfnast.

Þá er þriðja brtt., sem jeg er við riðinn. Hana er að finna undir XXXVI. lið, og var hennar einnig getið við 2. umr. Þá skildist mjer, að hún, eða öllu heldur svipuð tillaga um sama efni, fjelli fyrir þá skuld, að formið þótti ekki allskostar rjett, en úr því er vonandi bætt nú. Hjer er sem sagt aðeins farið fram á, að aths. við liðinn um alþýðufræðslu Stúdentafjelags Reykjavíkur verði breytt þannig, að fjárveitingin skiftist milli landshlutanna. Flytjum vjer þrír tillöguna. háttv. þm. N.-Ísf. (JAJ), háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) og jeg, og leggjum til, að af þeim 1500 kr., sem samþykt var við 2. umr. að veita til fyrirlestrahalds alþýðufræðslunnar, gangi 400 kr. til fyrirlestra í Austfirðinga- og Vestfirðingafjórðungum, 200 kr. í hvorn stað. Jeg býst varla við, að nokkur muni álíta þessa kröfu ósanngjarnlega, þar sem mikill meiri hluti fjárveitingarinnar er eftir sem áður ætlaður hinum fjórðungum landsins, enda eru þeir fjölmennari.

Þá skal jeg minnast stuttlega á síðustu brtt., sem nafn mitt er tengt við. Hún er ný, enda barst mjer erindi um hana ekki fyr en meðan á 2. umr. stóð hjer á dögunum. Þessi brtt. er undir LIV lið og fer fram á að heimila landsstjórninni að ábyrgjast alt að 120 þús. kr. lán fyrir Búðahrepp, vegna rafmagnsveitu, sem þar er í ráði að byggja. Þessi ábyrgðarheimild hefir áður verið veitt, bæði árin 1920–1921, en þá fórst framkvæmd verksins fyrir, vegna dýrtíðarerfiðleika. Árið 1923 var ábyrgðarheimildin aftur endurnýjuð, því að þá var svo langt komið, að samningar voru hafnir við rafvirkjafjelag eitt um framkvæmd verksins, en þeir fórust fyrir á síðustu stundu, svo að ekkert varð úr því, að til heimildarinnar þyrfti að grípa.

Nú hefir hreppurinn fengið tilboð frá norsku fjelagi um að reisa rafmagnsstöðina í nánd við kauptúnið fyrir 128 þús. kr., og hefir oddviti hreppsnefndarinnar sent mjer símskeyti og óskað eftir því, að lánsábyrgðarheimildin yrði enn af nýju tekin upp í fjárlögin, þar sem nú má við því búast, að verkið verði framkvæmt á þessu og næsta ári og fyrirheit fengið um lánsfjeð, ef örugg trygging fáist.

Að sjálfsögðu er það undir hæstv. landsstjórn komið, hverra trygginga hún krefst af hreppnum fyrir ábyrgðinni, en hinsvegar er þess að gæta, að hjer er ekki um neina fjárveitingu að ræða. Hjer á í hlut tiltölulega vel stæður hreppur, svo ábyrgð þessi er engan veginn varhugaverðari en svo fjölmargar aðrar, sem ríkissjóður hefir gengið í fyrir sveitar- og bæjarfjelög.