28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2252 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg var bundinn við atkvgr. í hv. Nd. og er því afsakaður, að jeg gat ekki verið viðstaddur, þegar frv. var tekið fyrir. (JJ: Jeg fylgdi því úr hlaði). Þetta frv. hefir verið samþykt að heita má óbreytt í hv. Nd. Það er nokkuð ósamstætt að efni til, en menn mega líta svo á, að aðalákvæðin felist í 1. gr., sem fjallar um útreikning á tekjuskatti innlendra hlutaf jelaga, og tilgangurinn með ákvæðunum er fyrst og fremst sá, að hvetja aðstandendur þessara fjelaga til þess að efla fjelögin sjálf með því að safna þeim varasjóði, heldur en að útbýta miklum arði meðal hluthafanna. Það eru sjerstaklega b- og e.-liðirnir í 1. gr., sem lúta að þessu og fara fram á það, að 1/4 þeirrar upphæðar, sem slíkt fjelag leggur í varasjóð, skuli vera skattfrjáls, og er þetta ákvæði tekið eftir samskonar lögum í Danmörku; og ennfremur, að með innborguðu hlutafje skuli mega teljast sá varasjóður, sem fjelögin hafa safnað, og það er vegna þess, að eftir ákvæðunum skiftir það hlutafjelagið nokkru, hvort hlutafjeð er mikið eða lítið, og í þessu liggur hvöt til að auka hlutafjeð með öllum ráðum, sem ekki er æskilegt fyrir fyrirtækið, og er rjettara, að löggjöfin stuðli að því, að fyrirtækin leggi fje í varasjóð, heldur en að útbýta nýjum hlutum. Um þessi ákvæði greinarinnar varð en'ginn ágreiningur í Nd., en ágreiningurinn varð um a.-liðinn, sem segir, að skatturinn skuli vera miðaður við meðaltal af skattskyldum tekjum þriggja næstu ára á undan. Þetta ákvæði er bygt á því, að afkoma margra fjelaga verður ákaflega misjöfn, þeirra, er stunda áhættusaman atvinnuveg; þau hafa stnndum mikinn ágóða, en stundum mikið tap. Það hafði komið til mála að taka upp þessa reglu, þegar lögin um tekju- og eignarskatt voru samin, en þetta þótti ekki gerlegt þá, af því að tekjuframtöl fyrir næstu ár á undan voru ekki fyrir hendi, en nú er farið fram á, að þetta verði tekið upp, og það mun standa svo, að það verði ekki mörgum hlutafjelögum til taps, þótt reglan sje tekin upp, ef reiknað er eftir henni í fyrsta skifti á þessu ári. Fjelögin fá frest á greiðslu á nokkru af þeim skatti, sem þau annars mundu greiða af tekjum síðastl. árs; en þetta vinst aftur upp með því, að skattar fjelaganna verða þá hærri næstu tvö árin. Það hafa komið fram í hv. Nd. útreikningar á því, hvaða þýðingu þetta hefði, og þó að þeir hafi verið misjafnlega rjettir, þá hefir það þó sýnt sig, að í sumum tilfellum verður skattur fjelaganna í heild, jafnvel þótt afkoman sje nokkuð misjöfn, ekkert minni, þegar tekið er nokkurt árabil í heild. Þá hafa verið reiknuð önnur dæmi, sem sýna, að á löngu árabili verður skattur fjelaganna heldur lægri; þó munar þetta mjög litlu. Til þess að dæma um, hvort þessi ívilnun muni vera sanngjörn, verður að bera svona fjelag saman við annað, sem hefir jafnar tekjur ár frá ári yfir sama árabil og sömu útkomu að lokum. Meðaltalsreglan hefir engin áhrif á skattgreiðslu slíks fjelags, sem hefir jafnar tekjur, en útreikningurinn sýnir það, að í sumum tilfellum lækkar skattgjaldið dálítið, ef tekjurnar eru misjafnar, en þó er það ávalt svo, að ívilnunin nemur ekki nema litlum hluta af því, sem skattur slíks fjelags er umfram þaö, sem fjelög með jafnri afkomu greiða, en það verður að líta svo á, sem það sje í raun og veru óeðlilegt, að fjelög greiði hærri skatt einungis fyrir það, að afkoman er misjöfn ár frá ári. Ef skattalöggjöfinni væri hagað rjettlátlega, ætti það fjelag, sem hefir sömu niðurstöðu efnalega eins og annað fjclag eftir sama tímabil, að bera sama skatt. Það, sem áhættufjelag greiðir yfir tímabilið umfram það, sem fjelög greiða með jöfnum vinningi, er ekki annað en refsiskattur fyrir að reka áhættusama atvinnu, og ívilnunin, sem meðaltalsreglan felur í sjer, nemur aldrei meira en nokkrum hluta af þessum refsiskatti. Þetta er því aðeins til þess að koma á meiri sanngirni á skattgreiðsluna milli fjelaganna innbyrðis, og það er því meiri ástæða til að koma meiri sanngirni á þarna, sem innlend hlutafjelög eru harðar sköttuð en nokkrir aðrir gjaldþegnar ríkisins. Á meðan hlutafjeð skiftir ekki miljónum, verður hann miklu hærri en nokkur skattur, sem reiknaður er eftir 6. gr. laganna, og jeg þarf ekki að taka það fram, að hann er miklu hærri en skattur samvinnufjelaganna, sem er 6% af tekjunum. Ennfremur eru þessi fjelög einu fyrirtækin á landinu, þar sem ágóðinn er tvískattaður. fyrst hjá fjelögunum sjálfum og svo hjá hluthöfunum á eftir, að því leyti sem þeir fá hann útborgaðan.

Jeg hefi nú gert grein fyrir aðalatriðunum í 1. gr. frv., en tel hinar greinarnar síður þurfa skýringar við, og skal þess vegna ekki lengja umr. með því að gera þær sjerstaklega að umtalsefni að svo stöddu.