28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jónas Jónsson:

Þegar litið er á þau tvö mál, sem hjer hafa verið til umr. í dag, kemur í ljós sami munur á hæstv. atvrh. (MG) og hæstv. fjrh. (JÞ), að annar er nú að beita allri orku til að eyðileggja þau fáu nýtilegu mál, sem fjelagi hans studdi í fyrri stjórnartíð sinni. Því með þessum tvennu lögum, sem hjer hefir átt að breyta í dag, og hæstv. núverandi atvrh. (MG) kom fram á þingi 1921, er hægt að segja, að lagður hafi verið grundvöllur að allmiklum og vissum tekjum fyrir ríkissjóð. En þessar miklu tekjur vill nú hæstv. fjrh. (JÞ) gera að engu. Önnur breytingin er af kunnugum talin skaða landssjóð um miljón króna á ári, en hin um 14 milj. kr. Það má því segja, að þessi dagur í Ed. sje dýr fyrir landið, þegar sá, sem geyma á kassann, kastar frá sjer 3/4 milj. kr. tekjum, samhliða því, sem hann er að reyna að halda í verðtollinn, sem var neyðarráðstöfun og kemur mest niður á þeim, sem fátækir eru.

Í ræðu sinni í dag segir hæstv. fjrh. (JÞ), að þessi ráðstöfun eigi að vera til þess að tryggja hlutafjelögin. En þau hafa verið hjer áður og þrifist vel. Þegar þeim hefir gengið illa, hefir það einungis verið illu árferði að kenna. En svo kemur þetta dásamlegra frv., sem sagt er, að sumum yngri fjelögunum þyki jafnvel skömm að, því að þau vilia ekki skjóta sjer undan skatti, þegar þau hafa grætt mikið. Er bví frv. betta sjerstaklega komið fram til bess að ljetta undir með eldri hlutafjelögunum, sem betur ættu að þola skattinn,

Jeg býst nú við, að hæstv. fjrh. muni eftir þeim ummælum sínum í öðru máli hjer í vetur, þar sem hann sagði, að menn yrðu sumpart að flýja hjeraðið og sumpart að gefa rangt upp tekjur sínar, ef þeir ættu að geta greitt tekjuskattinn. Jeg vildi ekki trúa því þá. En ef til vill á þetta frv. að vera til þess að lögfesta þá skoðun hans, sem hann fjölyrti þá um í ræðu sinni.

Hæstv. ráðherra skýrði ekkert, hvað landið myndi tapa við þessa breytingu. En hann var svo kurteis að taka það fram, að hann hjeldi ekki, að breytingin yrði til tjóns fyrir hlutafjelögin. Því trúi jeg líka.

Þá sagði hæstv. ráðherra (JÞ), að þessar ívilnanir væru mjög sanngjarnar. Það er nú svo. En hvað segir hann þá um verðtollinn og innflutningstollana? Eru þeir sanngjarnir? Jeg held ekki. Er þá nokkurt vit í að taka einstaka menn út úr og veita þeim stórar ívilnanir, aðeins til þess að vera sanngjarn, samhliða því að leggja 60–70 kr. á hvert nef landsmanna með tollum á nauðsynjavörum? Telur hæstv. fjrh. verðtollinn sanngjarnan, sem mestmegnis kemur niður á hinum fátækari neytendum í landinu ? Telur hann vörutollinn, kaffitollinn og sykurtollinn sanngjarna ? Ef svo er ekki, hvers vegna á þá að vera svo sanngjarn að veita þeim einum, sem græða hundruð þúsunda, og jafnvel svo skiftir miljónum, þær ívilnanir, að breyta lögum til þess að hlífa þeim?

Og ef það er rjett, að tap ríkissjóðs á einu ári við þessa breytingu nemi 5–6 hundr. þús. kr., hvað þýðir þá fyrir hæstv. fjrh. að vera að hrópa með það, að hann vilji á einu ári losna við lausaskuldir og kvarta um háu vextina á fjenu. Það gerir enginn annað en hlæja að slíkri fjarstæðu,

Þá talaði hæstv. fjrh. um, að það væri refsiskattur á hlutafjelögin að borga stighækkandi gróðaskatt, sem þó er svo meistaralega útbúinn, að hann hækkar ekki eftir að hann hefir náð vissri hæð.

Þessi refsiskattur er ekkert annað en gælunafn þeirra manna, sem ná vilja háu tekjunum undan tiltölulega lágum skatti. Hvað mætti þá segja um hina skattana? Eru það ekki refsiskattar ?

Nei, því verður ekki neitað, að það er sanngjörn leið, sem farin er í tekjuskattslögunum, svo að síst þarf betur að gera. Þegar illa gengur fyrir hlutafjelögunum, þurfa þau engan skatt að borga. En þegar vel gengur, er ekki nema rjett, að þau borgi. Að þessu leyti eru stórgróðafjelögin betur sett en einstaklingarnir. Ef embættismennirnir eru teknir til dæmis, þá borga þeir sinn kaffi-, sykur- og verðtoll, hvernig sem árar. Að þessu leyti eru þeir píndir á árum eins og 1921 og 1922. Því verður ekki neitað. Og fátæklingarnir, sem búa í kjallaraholum eða þakherbergjum, borga sinn toll af kaffi, sykri og tóbaki, hvort sem vel eða illa gengur. Skýrsla, sem fyrir þinginu hefir legið í vetur, sýnir vitanlega, að tóbaksnautn er dálítið minni á krepputímum en á öðrum tímum, en þó hvergi nærri eins lítil og hún í raun og veru ætti að vera. Það má því segja, að aðaltekjustofn ríkissjóðs sje refsiskattur, sjerstaklega í vondu árunum, þar sem bæði ríkir og fátækir verða að greiða jafnt. Ein ástæðan fyrir þessum ívilnunum við þá, sem græða tugi miljóna, er sú, að þeir reki svo áhættusaman atvinnuveg. En þetta er ekki rjett. Áhættan við áhættufyrirtækin kemur niður á almenningi gegnum bankana. Tapið lendir því á skilamönnunum, sem borga sína litlu víxla skilvíslega.

Jeg hefi skrifað hjá mjer eitt orð: „Krossanes“. Út af því vil jeg skjóta þeirri fyrirspurn til hæstv. fjrh., hvort ekki sje ætlast til, að hálfútlend eða alútlend fyrirtæki njóti blessunar af þessu frv., þegar það er orðið að lögum. Jeg spyr þessa af því, að altaf eru fleiri og fleiri leppfjelög að flytja hingað til landsins og reka hjer atvinnu. Fjelög, sem safna hjer stórgróða, sem þau flytja burtu af landinu, en leppa atvinnu sína meira eða minna. En með þessu fyrirkomulagi er verið að hjálpa þeim til þess að komast undan að greiða hjer rjettlátan skatt.

Þá harmaði hæstv. fjrh., að hlutafjelögin skyldu þurfa að greiða meiri skatta en einstaklingar. Þetta er ekki allskostar rjett, því einstaklingarnir borga mikla neysluskatta, sem hlutafjelögin borga ekki.

Annars er það rjett, að hlutafjelög eiga að borga meiri skatta en einstaklingar. En af því að þau eru undir þessu dásamlega merki „ Ltd.“, geta þau svikist frá skuldbindingum sínum, þegar þeim sýnist. Til stuðnings því má nefna dæmi: Setjum svo, að við hæstv. fjrh. værum í fjelagi saman, græddum mikið 5 fyrstu árin og stingjum gróðanum í vasa okkar, en svo kæmi mikið tapár. Við hlypum frá og ljetum tapið lenda á bönkunum, því að við þyrftum ekki að borga nema það, sem við höfðum lagt fram sem hluthafar.

Einmitt bak við þetta liggur hið mesta eitur í viðskiftalífinu í heiminum. Það er því rjett, að því ábyrgðarminna sem fjelagið er, því hærri skatt á það að greiða. Þetta ætti að vera svo auðskilið, að jafnvel hæstv. fjrh. ætti að geta skilið það. Jeg hefði nú gaman af, ef hæstv. fjrh. vildi láta dálítið af skattaheimspeki sinni í tje sem svar við þessum spurningum: Hvers vegna eiga ríku mennirnir ekki að greiða skatt, þegar þeir eru hepnir í fyrirtækjum sínum, þegar þeir sleppa við hann, er miður gengur ? Og í öðru lagi: Er hæstv. fjrh. ánægður með að skríifa skatta út úr fátæklingum, eins pg gert er með neyslusköttunum ? (Fjrh: JÞ: Fæ jeg ekki þessar spurningar skriflegar?). Hæstv. fjrh. hefir einu sinni af flokksbróður sínum verið kallaður „heili heilanna“, og verður honum því sennilega ekki mikið fyrir að muna og skilja þessar einföldu spurningar. Og jeg vildi enn bæta þeirri við, hvort honum sýndist ekki rjettast að halda nú þessum litla tekjuskatti óbreyttum eins og einn fyrirrennari hans kom honum fyrir 1921.