28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Mjer er auðvelt verk að rökræða þetta við háttv. 5. landsk. (JJ). Öll hans frammistaða er í því fólgin að búa sjer til grýlu í máli þessu, án þess að slíkt sje á nokkru bygt, og á þessu fóstri sínu hamast hann með hnúum og hnefum, uns hann hefir gengið af því dauðu. Jeg hefi því ekki getað annað en kímt að öllum hans tilburðum í dag í þessu máli.

Hann segir, að með þessu frv. sje verið að svifta ríkissjóð 500–600 þús. kr. tekjum á ári, og ljest vorkenna mjer sem fjrh. þennan tekjumissi og talaði um, að mikið hefði mátt greiða af vöxtum skulda með fjárhæð þessari. Jeg fer ekki út í það mál, en þar skulum við spyrja að leikslokum, en ekki vopnaviðskiftum.

Þá sagði hv. 5. landsk., að í frv. fælist tilraun til að skjóta gróða síðasta árs undan skatti. Frv. heimilar skattfrelsi fyrir 14 af því, sem lagt er í varasjóð fjelags. Þetta er alt og sumt. Um þetta hefir enginn ágreiningur verið í hv. Nd.

Það er alls ekki hægt að segja, að meðaltalsreglan undanþiggi nokkra upphæð skatti. Að vísu getur hún leitt til dálítillar lækkunar á skattstiganum, en líka haft gagnstæðar afleiðingar, eins og þegar hefir verið bent á.

Háttv. þm. (JJ) spurði um álit mitt á kaffi- og sykurtolli. Án þess að háttv. 5. landsk. sje nokkur skriftafaðir minn, get jeg sagt honum það, að mitt álit er, að hið opinbera vasist í alt of mörgu og verði þess vegna að ganga lengra í ýmsum álögum heldur en eðlilegt er. En hvað tollana snertir að öðru leyti, eru þeir alls ekki sambærilegir við þennan skatt, er hjer um ræðir. Ætti sá samanburður að eiga sjer rök, yrði t. d. kaffitolli að vera svo fyrir komið, að hann væri annar á fimtudögum en laugardögum.

Þá sagði hv. 5. landsk., að skattnr á hlutafjelögum hjer væri mjög hógvær á móts við það, sem annarsstaðar gerðist. Sannleikurinn er þó sá, að ef stjórnin hefði treyst sjer til vegna fjárhags landsins, hefði hún átt að flytja till. um lækkun á skattstiga 7. gr. tekjuskattslaganna, sem fjallar um hlutafjelög. í Danmörku er skatturinn miklu lægri en hjer, og einnig í Englandi, enda þótt hann sje innheimtur þar eftir öðrum reghim, svo að hann er eiginlega ekki sambærilegur við okkar skatt.

Háttv. 5. landsk. bar ekki skatt þennan saman við skatt einstaklinga, enda tók hann fram, að slíkt væri ekki sambærilegt. Hinsvegar ætti að mega bera skatta innlendra hlutafjelaga saman við skatta annara fjelaga. Jeg þarf ekki annað en minnast já hina margnefndu Krossanesverksmiðju. Það er öllum kunnugt, að ákvæði 7. gr. um tekjuskatt hlutafjelaga ná ekki til útlendra fjelaga, heldur greiða þau miklu lægri skatt eftir 6. gr. laganna. En hvaða sanngirni er í þeim mismun, sem á sjer stað í þessu efni milli innlendra hlutafjelaga og annara fjelaga?

Þá sagði háttv. 5. landsk., að áhætta hlutafjelaganna lenti öll á bönkunum, og þyrfti því ekki að vorkenna þeim, er að fyrirtækjunum stæðu, þótt illa færi. Þetta síðara get jeg að vísu engan veginn fallist á, en hitt, að áhættan komi einkum niður á bönkunum, og svo á almenningi, er einmitt orsök til þess, að bankarnir mæla eindregið með þessari breytingu. Þeir líta sömu augum á málið og hv. 5. landsk., en þeir draga rjettar ályktanir af skoöun sinni, en það gerir hv. þm. (JJ) ekki.

Hv. þm. (JJ) hrósaði samábyrgð sinni í þessu sambandi, og þarf engan að undra slíkt. Jeg fer ekki inn á það svið hjer, en hinsvegar álít jeg ákvæðin um tekjuskatt samvinnufjelaga einmitt vel sniðin og geta orðið til fyrirmyndar um skatta löggjöf hlutafjelaga. (JJ: Það er gleðilegt fyrir þá, sem lögin sömdu). Jeg á hjer ekki við skatt til sveitarfjelaga, sem talsvert hefir verið deilt um, enda þótt jeg hafi setið hjá í þeirri sennu.

Þá spurði hv. þm. (JJ), hvers vegna þeir ríku ættu ekki að greiða tekjuskatt, er vel áraði, úr því að þeir slyppu á hallaárunum. Þessari spurningu get jeg alveg gengið fram hjá, af því að hún er ekkert annað en öfugmæli, eins og öllum mun vera ljóst.

Þá fór hann. aftur að spyrja mig um stefnu mína í tollamálum og hvort jeg væri ánægður með að skrúfa skatta út úr fátæklingum sem ríkum með vörutolli. Jeg segi eins og fyr, að jeg er ekkert skriftabarn hv. 5. landsk. En hitt get jeg sagt, að í raun og veru finst mjer, að sú stefna, er fylgt var fram til 1911, frá því að vjer fengum fjárhagslegt sjálfstæði, að leggja aðeins tolla á munaðarvörur, er að mínu áliti hin rjetta stefna. En nauðsyn brýtur lög, svo að fleira verður að gera en gott þykir til að afla ríkissjóði tekna.

Jeg hefi þá svarað háttv. 5. landsk., en vildi aðeins-bæta örfáum orðum við framsöguræðu mína. Það, sem felst í frv., er einkum tvent. Annað er það að jafna tekjur ríkissjóðs frá ári til árs og gera þær vissari um leið; hitt er að koma í veg fyrir það tjón, sem fjelögin sjálf og almenningur um leið bíður við það, að þeim sje ofboðið með skatti, vegna þess að einstakt gróðaár kemur inn á milli tapára eða arðlausra ára. Ef útgerðarfjelögin ættu nú að greiða skatt eftir núgildandi skattalögum, yrði afleiðingin að öllum líkindum sú, að þau fjellu úr skatti næsta ár. Samkv. brjefi því frá Íslandsbanka, er borist hefir um málið, er ástand fjelaganna nú þannig, að mörg þeirra eiga ekkert upp í hlutafje sitt, sum nokkuð, en fá eða engin alt. Það er því ekki furða, þótt það valdi bönkunum áhyggju, að háar upphæðir sjeu lagðar á svokallaðan gróða síðasta árs, sem eingöngu gekk til að greiða áfallið tap. Frv. hefir því, eins og jeg sagði, tvenskonar hlutverk, að tryggja starfsemi fjelaganna og að jafna tekjur ríkissjóðs og gera þær vissari.