28.04.1925
Efri deild: 62. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2264 í B-deild Alþingistíðinda. (1239)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hv. 5. landsk. sagði, að fjelögin gætu verið komin um koll, þegar þau ættu að fara að greiða skattinn eftir þessu frv. Og það er ekki fortakandi, að slíkt kunni að koma fyrir, þó æskilegt sje, allra hluta vegna, að það verði sem sjaldnast. En hverjum kemur þá ívilnunin til góða? Bönkunum fyrst og fremst, og svo skilamönnunum. Það er rjett, að ef skattur tapast, þá er það í raun og veru aðeins ívilnun til skilamannanna.

Þá talaði hv. þm. (JJ) um togarakaupin sem sönnun þess, hvað fjelögin hefðu grætt. Hann vildi gera ekki lítið úr því, að fjelögin hjer hefðu bætt við sig togurum. Jeg þekki nú aðeins tvö, og er annað þeirra fátækt, en hitt er auðugt. eitt efnaðasta útgerðarfjelagið, sem hjer er. En einstaklingar þeir, sem að þessum atvinnuvegi standa, höfðu yfirleitt góðar tekjur árið sem leið, og eiga að greiða þar af fullan skatt án tillits til þessa frv., og þeir hafa sjeð sjer fært að leggja fram hluti í ný fyrirtæki.

Þá sagði hv. þm. (JJ), að afstaða bankanna sannaði ekki neitt. Hún sannar að vísu ekki annað en það, sem hann sagði, að það eru þeir og skilamennirnir, sem standa fyrstir í áhættunni.

Ennfremur drap hv. þm. (JJ) á samvinnulögin og að jeg hefði verið á móti þeim. Jeg hefi ekki dregið þau inn í þessa umr. Jeg hefi aðeins sagt, að tekjuskattsákvæðin gagnvart samvinnufjelögunum væru sanngjörn og rjettmæt. En þau standa ekki í samvinnulögunum, heldur í lögunum um tekju- og eignarskatt, svo að þó jeg sje ánægður með þessi ákvæði. þá get jeg vel verið óánægður með ýmislegt í samvinnulögunum.

Jeg ætla að ganga fram hjá röksemdum hv. þm. (JJ) viðvíkjandi skoðunum hæstv. forseta (HSteins). Aðrir mega dást jafnmikið eða jafnlítið og jeg að því, hvernig honum tókst að sanna það, að hjer væru minst 8 jafnaðarmenn í deildinni.

Seinast sagði hv. þm. (JJ), að ef eitt fjelag hefði engan ágóða eitt ár, en græddi 100 þús. kr. næsta ár, þá væri það „spekulation“. Þetta kalla jeg nú grunt rist, eða þá að margt fellur undir „spekulation“. Við vitum, að af þeim fyrirtækjum, sem hjer eru rekin, þá eru það einkum fiskiveiðafjelögin, sem eiga við ójafnasta útkomu að stríöa. Er það þá „spekulation“ að fara á sjó og veiða fisk? Jeg vona, að hv. þm. (JJ) svari þessu við næstu umræðu. Jeg hefi altaf haldið, að „spekulation“ væri alt annað.