13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg á ósvarað háttv. 5. landsk. (JJ) í næsta máli, og jeg hygg, að jeg þá geti fengið leyfi hæstv. forseta til að slá þeim málum báðum saman, til þess að stytta umr., en þó ætla jeg samt að fara nokkrum orðum um þessa síðustu ræðu hv. 5. landsk. Hann kvartaði yfir því; að jeg hefði ekki verið viðstaddur, er hann hjelt hjer námsskeið í deildinni um breska skattalöggjöf, en svo stóð á, að jeg hafði annað að gera í svipinn, og hafi fræðslutilhneiging hv. 5. landsk. ekki kulnað út á meöan, verð jeg að skjóta því á frest að þiggja fræðslu hans, þangað til þingstörfin eru um garð gengin. Allar aths. hans um þau mál, sem fyrir þinginu liggja, fer jeg lítt út í að þessu sinni. En út af orðum hans um verðtollinn, sem hann kallaði þrælaskatt á nýjum heimilum, og hverjir þar eigi sök á að þetta ráð varð upp að taka, skal jeg þó segja honum eins og er, úr því að hann hefir dregið þetta inn í umr., að það var sú fjármálastjórn, sem með völdin fór árin 1922–1923 og sýndist vera blind á alt, sem þá fór fram, og ljet safnast tekjuhalla í lausum skuldum á hverju ári, án þess að nokkur vissi um, og jafnvel ekki stjórnin sjálf. Að síðustu fór auðvitað svo, er alt var komið í öngþveiti, að grípa varð til þessara harðræða, og var það gert með nær einróma fylgi þingsins, að þessi tollur var lagður á. En í tíð núverandi stjórnar hefir svo giftusamlega til tekist, að tollur þessi hefir fengist uppbættur á annan hátt, svo að hann hækkar ekki lengur verð varanna frá því, sem það var áður, því tekist hefir að jafna gengismismun á okkar peningum og erlendum peningum, t. d. dönskum, svo að meira nemur en verðtollinum. Því finst mjer sem bæði jeg og öll núverandi stjórn geti þessa vegna borið höfuðið hátt, en hv. 5. landsk. ætti að tala með meira lítillæti um þessa hluti. Um útreikning Einars próf. Arnórssonar skal jeg taka það fram, að hann kom mjer alls ekki á óvart. Mjer var ljóst, að um stórar upphæðir var að ræða, sem hlutafjelögin ættu að gjalda, en fjárhagsástæður margra þeirra voru þannig, að þeim var mjög hætt, ef ekki var eitthvað að gert, en hrun þeirra gat haft almennar og illar afleiðingar. Að öðru leyti hefi jeg þegar svarað hv. 5. landsk. við 2. umr., og þarf jeg ekki að bæta neinu þar við. En er hann gaf í skyn, að tillaga sú um vantraust á núverandi stjórn, sem fram er komin í hv. Nd., hafi haft áhrif á afstöðu mína til þessa eða annara mála, þá er sú tilgáta svo ólíkleg, að hún er naumast samboðin jafnvel svo lítið vitrum manni, sem hv. 5. landsk. (JJ) er. Hann veit vel, að stjórnarflokkurinn hefir aðeins 13 atkv. í hv. Nd., og veltur því á utanflokksmönnum um fylgi stjórnarinnar í þeirri deild. Veit jeg um tvo þeirra (úr Sjálfstæðisflokknum), er fylgja með altalsreglunni, og munu þeir að öllum líkindum einnig greiða atkv. stjórninni í vil, ef til atkv. kemur um vantraustsyfirlýsingu. Það gæti jafnvel hugsast, að jeg hefði brotið af mjer fylgi þessara manna með því að setja ekki meðaltalsregluna á oddinn hjer í þessari deild, þar eð þeir leggja allmikla áherslu á, að hún komist í lög. Þetta eitt, fyrir utan ýmislegt annað sýnir, hversu ólíkleg þessi tilgáta hv. 5. landsk. þm. (JJ) er, að jeg álít það sje honum sjálfum jafnvel ekki samboðið að koma með aðra eins fjarstæðu. Það hefir flogið fyrir, að hv. 5. landsk. ljeti hlera fyrir sig eftir því, sem ýmsir þm. segðu. er þeir væru að tala í síma hjer í þinginu. Þetta er ekki fjelegt athæfi, að setja út fyrir sig menn til þess að standa á hleri, og datt mjer síst í hug, að háttv. þm. (JJ) mundi játa þetfa á sig, eins og hann gerði áðan. Það er alveg satt, að jeg hringdi hr. skattstjórann, próf. Einar Arnórsson, upp, og bað hann um afrit af skýrslu sinni til fjhn., en það gat hv. 5. landsk. ekki hafa vitað um, nema hann hefði haft mann til að hlera eftir þessu fyrir sig, ef hann hefir ekki haft tækifæri til að standa á hleri sjálfur. En þetta er öllum þingheimi alkunnugt, að þess háttar athæfi er dagleg venja þingmannsins. (JJ: Lygi!). Hv. 5. landsk. (JJ) sagði, að lögin ættu að ganga jafnt yfir alla. Því er nú svo farið með alla skattalöggjöf, ef fylgja ætti reglum þeirra út í æsar, að ótal dæmi má þá jafnan finna um það, að þau sjeu ekki í alla staði sanngjörn, enda hygg jeg, að það muni reynast torvelt að búa skattalög svo úr garði, að ekki verði eitthvað að þeim fundið, og það með meira og minna rjetti.

Annars ætla jeg ekki eins og nú stendur að yrðast meira við hv. 5. landsk. Hann er í slæmu skapi í dag, líkt og þegar verið er að venja barn af pela. Það er al kunna, að slíkt veldur skapbrigðum, svo að barnið verður órótt og óþekt, enda er það mála sannast, að nýskeð hafi verið kipt pela frá þessum hv. þm. í Sþ. (JJ: Getur hæstv. fjrh. sannað dylgjur sínar?). Jeg á við niðurstöðuna í steinolíumálinu og veit, að enginn misskilur orð mín, svo sem jeg meini, að hv. þm. hafi bókstaflega drukkið sjálfa steinolíuna úr pela. (JJ: Hvað eiga þessar dylgjur að þýða?).