13.05.1925
Efri deild: 76. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (1254)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg veit ekki, hvort aukandi er á raunir þessarar hv. deildar með því, að jeg, sem ekki á sæti hjer, fari að bæta við þetta langlokutal hv. 5. landsk. (JJ), sem er hennar maður og hv. deildarmenn eiga ekki undanfæri frá nema flýja úr stólum sínum, þegar lopinn teygist sem mest. Jeg ætla samt að svara fáeinum orðum. Hv. 5. landsk. er sjálfur þannig innrættur, að það, sem hann gerir, gerir hann af persónulegum hvötum, annaðhvort af velvild eða hatri til einhverra manna. Þess vegna skilur hann ekki, að nokkur maður geti tekið sjer fyrir hendur að setja fram rjettar upplýsingar, nema það sje gert af góðum eða illum hvötum til sjerstakra manna. vegna þessa óíullkomleika síns getur hv. 5. landsk. ekki skilið annað en að þessi fyrirlestur minn um fjárstjórn landsins hafi verið fluttur til þess að setja vissa menn í skugga. Ef hv. þm. (JJ) semdi fyrirlestur um þjóðmál, þá mætti ganga út frá því vísu, að hann gerði það til þess að bera hól á þá, sem honum þætti vænt um, og til þess að kasta skugga á hina. En hv. 5. landsk. er undantekning í þessu efni. Þó að jeg leggi eitthvað til landsmála, þá er það ekki af þeirri ástæðu, sem stjórnar tungu og penna hv. 5. landsk. Jeg gat ekki annað en brosað, þegar háttv. 5. landsk. lýsti því, að fyrv. atvrh. (KIJ) hefði hringt stóru bjöllunni og stöðvað allar framkvæmdir. En hvernig stóð á því, að þrátt fyrir þessa hringingu og stöðvun uröu útgjöldin 11/2 milj. kr. hærri 1923 en hjá mjer og samverkamönnum mínum 1924? Við hringdum þó ekki neinni stórri bjöllu. Nei, það er alt annað, sem verður að gera, en að hringja stórri bjöllu og láta allar framkvæmdir stövast á miðju sumri. Það er tilgangslítið að deila um, hverjum sje að kenna þær illu kringumstæður, sem ríkissjóður komst í í stjórnartíð Framsóknarflokksins. (JJ: Það var ekki Framsóknarflokksstjórn, sem samdi fjárlögin fyrir 1922). Nei, það er rjett, að aðrir voru við stjórn 1921, en það hefði heldur ekki farið eins illa, ef fjárlögunum hefði verið fylgt. Út af tali hv. 5. landsk. (JJ) um þetta er rjett að geta þess, að eftir landsreikningunum 1922 hefir stjórnin á því ári borgað utan fjárlaga 2 milj. 118 þús., og umframeyðsla á fjárlagaliðum 648 þús., eða alls 2 milj. 766 þús. kr., en síðara árið, 1923, 2 milj. 82 þús. utan fjárlaga og umframeyðsla 1 milj. 132 þús., eða alls 3 milj. 214 þús.

Niðurstaðan verður sú, að stjórnin, sem sat 1921, fer sigri hrósandi út úr samanburðinum við þá, sem á eftir kemur, ef bornir eru saman þeir liðir, sem ekki eru lögbundnir, en það verður að gera, því að það eru þeir einir, sem stjórnin hefir á valdi sínu. Það væri kannske ekki svo mikil ástæða til að fást um þetta, ef ekki stæði svo sjerstaklega á, að þessi hv. þm. gerir sjer það að atvinnu meðal annars að vera sagnaritari og skrifar sögubækur, sem hann ætlar til kenslu barna og unglinga í landinu. Jeg verð að játa, að jeg hefi ekki lesið þær, en það verð jeg að segja, að ef hann er jafnóáreiðanlegur í söguritum sínum eins og frásögn sinni hjer um viðburði, sem öllum eru kunnir, þá er vissulega ástæða til að taka þessar sögubækur til sjerstakrar skoðunar til þess að athuga, hvort ekki sje verið að kenna æskulýð landsins algerlega rangar frásagnir um sögu landsins.

Það er öllum vitanlegt, að Íhaldsflokkurinn var stofnaður í þingbyrjun 1924, og þó að menn að einhverju leyti vilji telja, að bandalag það, sem var hjer á þinginu næstu árin á undan, hafi verið fyrirrennari þessa flokks, — sem jeg skal ekki bera neinar brigður á — þá var það bandalag altaf kallað Sparnaðarbandalagið og var ekki stofnað fyr en 1922.

Hvað mig sjálfan snertir, þá átti jeg engan þátt í stjórnmálum á neinn hátt frá 1917 og þangað til jeg bauð mig fram 1921. Alt tal um það, að þessir og þessir menn hafi á löngu liðnum árum verið mínir flokksbræður er tilraun til að falsa söguna, þegar það er sagnaritari, sem setur slíkt fram. Á sömu bókina er það lært hjá hv. þm., sem hann er að masa um gildi og vín og veisludýrð og þar fram eftir götum. Þetta eru tilraunir til þess að búa til ranga sögu um undanfarna viðburði.

Það var alt misskilningur hjá hv. þm., að jeg hafi verið að minna á fjárlögin á síðasta þingi. Jeg hafði einungis getið þess, að útgjöldin á síðasta ári hefðu verið11/2 miljón kr. lægri en á næsta ári á undan.

Þá skal jeg víkja ofurlítið að því, sem hv. þm. sagði um afstöðu mína til meðaltalsreglunnar. Hann tók það rjettilega fram, að mjer var ókunnugt um skatthæð þá, sem þessi hlutafjelög áttu að greiða. Þegar stjórnarfrv. var samið, þá voru enn ókomin framtöl frá síðasta ári, svo ekki var hægt að miða við þau. En þegar þau gögn komu fram, voru þau mjög nálægt því, sem við höfðum búist við.

Út af því, sem hv. 5. landsk. sagði um mína verslun, vil jeg geta þess — sem jeg að gefnu tilefni gat einnig um í hv. Nd. —, að hún er ekki hlutafjelag, og að jeg er ekki og hefi aldrei verið hluthafi í neinu útgerðarfjelagi, og ekki nú hluthafi í neinu lilutafjelagi, sem myndi hafa neinn hagnað af upptöku meðaltalsreglunnar. Það eina hlutafjelag, sem jeg á nokkurn verulegan þátt í, er ekki gróðafjelag, og það mundi tapa á meðaltalsreglunni, af því að það hafði engan arð 1924, en dálítinn arð næstu árin á undan.

Háttv. þm. bar af sjer, að hann hefði sjálfur verið að hlusta á tal mitt í símann. Enda fer meira orð af því, að þessi hv. þm. hafi aðra til að hlusta fyrir sig yfirleitt. En þar með vildi jeg ekki segja, að það væri starfsfólkið hjer á Alþingi, sem háttv. þm. notar í þessum erindagerðum sínum. Jeg vil algerlega bera af starfsfólkinu það ámæli, sem hv. þm. beindi til þess, þar sem hann virtist gera ráð fyrir, að ekki gæti verið öðrum til að dreifa um þessa sakargift en annaðhvort honum sjálfum eða starfsfólkinu. Hjer eru símarnir svo að segja á almannafæri, þannig að sjerhver, sem fær aðgang að hliðarherbergjum þingsins, getur haft færi á að hlusta á símtöl, ef hann vill hafa sig til þess, og það hefir hver þm. rjett til að leyfa tiltekinni tölu manna aðgang að þingherbergjum, hv. 5. landsk. (JJ) eins og aðrir.

Um hagsmuni peninganna ætla jeg lítið að tala; jeg þekki þá ekki, enda aldrei verið peningar. (JJ: Sama sem). En hv. 5. landsk. (JJ) talar um þá af svo mikilli þekkingu, að ætla mætti, að það væri af eigin reynslu. En þar sem jeg sagði, að pelinn hefði verið tekinn frá honum, þá átti jeg ekki sjerstaklega við það, að hann hefði persónulega hagsmuni af steinolíueiakasölunni, heldur átti jeg við það, að hann og hans flokkur hefir mikla pólitíska hagsmuni af henni, eins og framkoma þeirra ljóslega sýnir. En hvernig fjárskiftin eru innan flokksins, læt jeg mig ekki varða, en jeg get vel tekið það trúanlegt, þegar hv. þm. segir að hann hafi aldrei neitt þegið fyrir það, sem hann hefir gert.

Háttv. þm. kvartaði undan því, að jeg gerði ekki grein fyrir, hvers vegna jeg að svo komnu máli hjeldi ekki fast við meðaltalsregluna, en mjer datt ekki í hug, að þörf væri að endurtaka það, þar sem jeg gerði það svo skilmerkilega við 2. umr málsins. En jeg skal honum til hugnunar endurtaka tvö höfuðatriði; annað er það, að það lítur svo vel út með árferði, að það má að minsta kosti vonast eftir, að fjelögin geti borgað skattinn, og hitt er það, að einn bankastjórinn við Íslandsbanka kemur fram með till.. bygða á því, að fjelögin geti borgað þetta, án þess að það verði atvinnu þeirra til hnekkis. En hvorugt þetta var fyrirsjáanlegt um áramótin.

Hv. 5. landsk. (JJ), sem hefir bakað samdeildarmönnum sínum marga leiðinlega stund, var nú að reyna að bæta úr því með því að tilkynna íhaldsmönnum í þessari hv. deild, að þeir væru þjóðræknari og vitrari og betri en flokksbræður þeirra í hv. Nd. Jeg ætla alls ekki neitt úr þessu lofi að draga, þegar þetta kemur af vörum hv. þm.; en jeg vil einungis benda honum á það, að þegar hann ber þá ástæðu fyrir þessu, að Ihaldsmenn hjer í hv. deild vildu ekki aðhyllast meðaltalsregluna, þá leiðir það þar af, að t. d. Danir, sem ekki hafa þessa reglu, þeir ættu að vera þjóðræknari og vitrari og betri en Bretar, sem þessa reglu hafa.