06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

1. mál, fjárlög 1926

Halldór Stefánsson:

Jeg mun láta mjer nægja að minnast aðeins á brtt. XLV. á þskj. 290, frá minni hl. fjárhagsnefndar, um að veita mjólkurniðursuðufjelaginu Mjöll í Borgarfirði alt að 8 þús. kr. styrk, þó með því skilyrði, að styrkurinn verði ekki greiddur nema því aðeins, að fjelagið njóti ekki meiri tollverndunar en nú er í lögum.

Hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar hefir gert grein fyrir ástæðunum fyrir þörfinni á þessum styrk. Hefi jeg ekkert við það að athuga og engu við það að bæta, sem hann sagði. En nefndin er ekki á einu máli um það, á hvern hátt eigi að bæta úr þörfum fjelagsins. Hv. meiri hl. vill gera það með framlagi úr ríkissjóði, en minni hl. með því móti að færa niðursoðna mjólk undir ákvæði verndartollalaga, þannig að fjelagið njóti álíka stuðnings af þeim og það fengi með þessu fje úr ríkissjóði. En til þess að spilla á engan hátt fyrir því, að fjelagið fái styrk, þá höfum við orðað brtt. okkar þannig, að þótt menn fallist ekki á að setja innflutningstoll á innflutta mjólk, þá fær fjelagið styrk engu að síður, ef tillaga okkar verður samþykt. Hvað snertir þessar tvær till. fjhn. frá sjónarmiði ríkissjóðs, þá fer önnur fram á bein útgjöld, en hin fer ekki fram á nein útgjöld. heldur gæti hún orðið ríkissjóði til tekjuauka jafnframt því, sem fjelaginu veitist stuðningur. Menn hafa haft það á móti því að tolla mjólk, að það kæmi illa niður á neytendunum. En sama máli gegnir um alla innflutningstolla, svo þetta er ekki veigamikil ástæða. Tökum t. d. smjörlíki, sem er enn almennari þurftarvara en mjólk. Eða tökum sápu. Hún er tolluð, að undanskilinni grænsápu, og er þó sápa vissulega ennþá miklu almennari þurftarvara en niðursoðin mjólk. Og enn má nefna fleiri nauðsynjavörur, sem vörutollur hvílir á, svo sem trjesmíðavörur og vefnaðarvörur. Og tollurinn á þessum vörum er einmitt rjettlættur með því, að hann sje meðfram verndartollur fyrir innlenda framleiðslu á þessum varningi. Gagnvart neytendunum skiftir tollurinn á þessum vörum, er jeg nú hefi nefnt, sama máli og tollur á innflutta mjólk. Og um leið og mjólkurtollurinn gæfi tekjur í ríkissjóð, væri með honum stutt iðnaðarfyrirtæki, sem erfitt á í byrjun, en virðist geta átt góða framtíð í vændum. Og jafnframt væri stuðlað að bændaframleiðslunni í landinu. Ávinningurinn af till. okkar, sem erum í minni hl., er því þrefaldur.

Mjer er sagt, að innlenda niðursoðna mjólkin sje bæði betri neysluvara og ódýrari en sú útlenda; en því ríkari ástæða er til þess að leggja verndartoll á innflutta mjólk, til að auka mjólkurframleiðsluna innanlands. Við í minni hl. fjhn. munum því bera fram till. um það í sambandi við frv. um verðtollinn, að lagður sje 10% verðtollur á innflutta mjólk. Af þessum ástæðum tel jeg sjálfsagt, að hv. þdm. fylgi till. minni hl., sem bætir jafnvel úr þörf fjelagsins og till. hv. meiri hl., en heldur þó um leið opinni leið til þess að gera það án útgjalda fyrir ríkissjóð.