14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2316 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Frá hálfu okkar minni hl. fjhn. get jeg sagt það, að við leggjum til, að frv. verði samþykt óbreytt. Eins og menn muna, tók jeg það fram við framsögu málsins í þessari háttv. deild, og endurtók það síðar, að fyrir okkur væri þessi meðaltalsregla ekkert aðalatriði, heldur hitt, að tryggja fjelögin með því að gefa þeim kost á að leggja í varasjóð og að fá undanþeginn skatti hluta af því fje, sem færi í varasjóð; það væri megin málsins fyrir okkur. Jeg vil nú samt segja það frá sjálfum mjer og fyrir minn eiginn reikning, að jeg er dálítið hissa á þeim háttv. þm., sem nú telja sig mjög ánægða með frv. eins og það kemur frá háttv. Ed., en voru óánægðir með það, þegar það fór frá þessari hv. deild, og nefndu það þá skaðsemdarverk. Jeg skal ekki fara frekar út í þetta, en það hljóta allir að sjá, að eins og frv. liggur fyrir nú, gefur það mestar ívilnanir þeim fjelögum, sem vel eru stæð fjárhagslega, en fátækari fjelög njóta lítils eða einskis góðs við það. En það er annað, sem þetta fry. gerir; það hvetur til fjársöfnunar í varasjóð og stendur á móti því, að menn í gáleysi borgi hluthöfunum alt of mikinn arö. Hv. frsm. meiri hl. nefndarinnar (SvÓ) hjelt því fram, að með frv. eins og það var samþykt hjer við 3. umr. væri kastað úr ríkissjóði hundruðum þúsunda, og fleiri hv. þm. hafa haldið því fram. Það má segja, að á yfirstandandi ári er kastað hundruðum þúsunda úr ríkissjóði, en þau hundruð þúsunda koma aftur að mestu leyti, eða í sumum tilfellum að fullu, og þá er spurningin um það, hvort heppilegra sje að fá eitt árið mjög miklar tekjur, en annað árið mjög litlar; en jeg skal ekki deila um það, því að jeg heyri, að allir, nema hv. 2. þm. Reykv. (JBald), eru sammála um það að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir, en jeg get ekki látið hjá líða að lýsa undrun minni yfir því, að sumir hv. þdm. láta svo um mælt, bæði við umr. um þetta mál og jeg held við umr. um flest mál, sem hafa verið til umr. síðustu viku, að þetta frv. sje sniðið til þess að gefa þeim eftir skattana, sem ríkastir eru og best stæðir, en taka blóðpeninga af fátæklingunum. Jeg skil satt að segja ekki, með hvaða hugsun þessu er slegið fram, nema með því blátt áfram að bera vantraust á hæstv. fjrh. (JÞ), sem bar þetta frv. fram hjer í deildinni, en það hefir þegar verið upplýst, að það er hvergi jafnhár skattur á hlutafjelögum og hjer, og í Danmörku hefir jafnaðarmannastjórnin lagt til, að skatturinn væri hækkaður úr 20% upp í 25% (hjer er hann 30%), en jafnframt lagt til, að skattfrjáls skyldi 1/3 af því, sem lagt er í varasjóð. Árið 1921 var jafnaðarmannastjórn, frjálslynd stjórn í Svíþjóð, að því er jeg hygg, og þá var skattur, sem hafði verið settur á þinginu 1919 30%, færður niður í 20%. Skatturinn í sjálfu sjer er ekki óbærilega hár, jafnvel þótt hann sje hærri en hjá öðrum þjóðum af samskonar fyrirtækjum, en það, sem gerir það, að skatturinn er of hár hjer, er það, að hjer er svo mikill misbrestur í atvinnuvegunum, einkum fiskiveiðum, að fiskiveiðafjelögin tapa kannske öllu því á einu ári, sem þau hafa grætt á fleiri árum. Mjer hafa leiðst ummæli ýmsra hv. þm. um togaraútgerðina og þá, sem að henni standa. Það lítur helst út fyrir það, eftir ummælum þessara hv. þm., að þetta sjeu fjárglæframenn, eða stórauðugir menn, sem alls ekki þurfi að sýna neina sanngirni, og ekki þurfi af ríkisvaldsins hálfu að hafa neina hliðsjón af því, hvort þeir geti greitt skatta sína eða ekki. Einn hv. þm., 2. þm. Reykv. (JBald), kallar þá stórríka burgeisa, þegar þeir eiga að greiða skatt, en bláfátæka útgerðarmenn, þegar þeir eiga að fara í mál við Krossanesverksmiðjuna. Jafnframt þessu eru afgreidd lög frá þinginu, sem hækka útflutningsgjaldið um 50%, og það er þó öllum vitanlegt, að togaraútgerðin ber mikið af þessum sköttum og fær ekkert beint í staðinn, en óbeint njóta allir landsmenn þess, sem lagt er í ræktunarsjóðinn. Þessi auknu útgjöld eru þó frá 3–5 þús. kr. á hvert skip, og meira, ef vel gengur.