14.05.1925
Neðri deild: 80. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2319 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvinsson:

Þetta er ekki fullnægjandi svar, enda lýsti hæstv. fjrh. (JÞ) yfir því, að hann gæti ekki svarað þessari fyrirspurn minni. Það er þess vegna ekki útilokað, að það kunni að koma fram misrjetti, en það getur líka verið, að alt það fje, sem fært er á reikningum þessara hlutafjelaga til næsta árs, verði ef til vill talið til varasjóðs. Jeg veit, að á reikningum ýmsra fjelaga er venjan að færa það, sem afgangs er, yfir til næsta árs án þess að það sje kallað varasjóður; ef þetta alt saman verður við skattaniðurjöfnun talið varasjóður, þá sjá allir, að það verður ekki eðlilegur hluti af eignum skattfrjáls, því að jeg geri ráð fyrir, að hjá mörgum fjelögunum sje um stórar upphæðir að ræða. Hinsvegar þykir mjer ekki ólíklegt, að mörg fjelög muni vera búin að leggja drög til sinnar reikningsfærslu áður en frv. kom fram, og þau gátu heldur ekki vitað, hvort það yrði samþykt eða ekki. Þess vegna geri jeg ráð fyrir, til þess að láta öll fjelög standa jafnt að vígi, að rjettast sje að láta þessi lög ekki koma til framkvæmda fyr en árið 1926, við niðurjöfnun skatta þá fyrir árið 1925, og þess vegna ætti þetta ekki að verða málinu að falli, því að hv. Ed. á sjálfsagt eftir að halda fund enn.