21.03.1925
Efri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2331 í B-deild Alþingistíðinda. (1329)

64. mál, brúargerðir

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. er, eins og hv. deild er kunnugt, sjálfsögð afleiðing af lögum um vegi, sem samþykt voru á síðasta Alþingi. Það dagaði uppi á þingi í fyrra og er þess vegna komið aftur nú og gekk greiðlega gegnum Nd. En þegar til samgmn. þessarar hv. deildar kom, þótti henni rjettara að bíða við og sjá hvað yrði úr öllum þeim breytingum á vegalögum, sem fluttar voru í hv. Nd., og láta frv. um brúargerðir bíða, uns útsjeð yrði um þau. Nú er svo komið um þessi frv., að þau eru ýmist feld eða tekin aftur, og því engin ástæða lengur til þess að draga það að taka ákvörðun um brúargerðirnar.

Það er að vísu ákaflega mikið fje, sem þarf til þess að fullgera þær brýr, sem samkvæmt fyrri ákvæðum og þessu frv. á að fullgera. En það er óhjákvæmilegt til þess að koma samgöngunum í það horf, sem nauðsynlegt er. Nefndin leggur því til, að frv. nái fram að ganga.