07.03.1925
Neðri deild: 28. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (1334)

80. mál, veiði

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Eins og hv. þdm. hafa sjeð, er þetta frv. í rauninni sama frv. sem það, sem hv. þm. Barð. (HK) bar hjer áðan fram um selaskot á Breiðafirði. Við ætluðum líka í upphafi að verða samferða með þessi mál, en svo stendur á, að sjerstök löggjöf er fyrir hendi um selaskot á Breiðafirði, og ná ákvæði hennar ekki til annara hjeraða landsins, svo að til þess að mínum tilgangi yrði náð, varð að fá breyting á tilskipuninni gömlu frá 1849. Sömu ástæður liggja annars til þess, að þetta frv. er fram borið og hitt frv.; það er komið fram samkv. eindregnum áskorunum bænda í Strandasýslu, sem fara alveg í sömu átt og óskir bændanna við Breiðafjörð.

Annars vildi jeg í þessu sambandi aðeins víkja að einu atriði, sakir þess, að mjer hefir heyrst, að fremur andi kalt í garð þessara frv. frá einstaka þm. Þeir telja sem sje selinn slíkt óargadýr, að dæma beri hann óalandi og óferjandi. Um þetta hefir og staðið deila norður í kjördæmi mínu. Selabændurnir telja sjer selina jafnvissa á vorin og kindurnar sínar af f jalli á haustin, halda fast í rjett sinn, en aðrir sækja það fast að fá hagnaðinn af því að mega skjóta selinn, og hinir síðarnefndu halda því fram, að selurinn spilli svo fiskigöngum, að hann eigi að vera rjettdræpur hvar sem er. Bar jeg nú málið undir þann mann, sem fróðastur er um þessa hluti, Bjarna Sæmundsson, og spurði hann, hvort rjettmæt væri sú löggjöf, sem nú gildir um friðun sela. Lagði hann þann úrskurð á og leyfði að hafa þau ummæli eftir sjer, að þar sem svo stæði á, að selur lægi fyrir minni ár, sem víst væri að silungur og lax gengi í, þar væri rjett að útrýma selnum. Er það kunnugt, að af þessum ástæðum hafa Borgfirðingar útrýmt selnum úr Hvítá í Borgarfirði En, bætti Bjarni Sæmundsson við, þar sem ekki stendur svo á, þá eru tekjurnar ef selaveiðunum svo vissar og góðar, að ekki er víst, að aðrar tekjur bæti þær upp, og er því sjálfsagt að halda á þeim stöðum lögunum um friðun sela. Því það er með öllu ósannanlegt, að aukin fiskiganga komi í kjölfarið, ef sel er útrýmt.

Þess vegna standa ekki aðeins kröfur þeirra, sem hlut eiga að máli, bak við þetta frv. mitt og frv. hv. þm. Barð. (HK), heldur hefir og sá maður, sem allra manna hefir best vit á þessum málum, lýst því yfir, að þau sjeu rjettmæt.

Að svo mæltu vil jeg óska þess, að þetta frv. fari sömu leið og frv. næst á undan, þ. e. að því verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.