06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

1. mál, fjárlög 1926

Ágúst Flygenring:

Jeg ætla aðeins að vekja athygli hv. þm. á lítilli brtt. á þskj. 290, um fjárframlag handa Grindvíkingum til að bæta lendingu sína. Hefi jeg við 2. umr. gert grein fyrir þörfinni á þessu og lýst því, hve mikil hætta sje á, að útvegur í Grindavík muni hætta, ef ekki er að gert. Fyrir háttv. deild hefir legið allítarleg skýrsla frá verkfræðingi um skemdirnar, sem orðið hafa, og um möguleikann fyrir því að sporna við, að slíkar skemdir eigi sjer stað aftur. En hjer verður að bregða fljótt við, ef sveitin á ekki að líða undir lok. Er því lýst í skýrslunni, hvernig sjórinn gengur meira og minna á, og hafa tún mjög eyðilagst, en eins og kunnugt er, lifa hreppsbúar líka allmikið á landbúnaði, hafa nokkra sauðfjárrækt og eitthvað af kúm. Verja þeir nú öllum sínum tíma og orku til að byggja upp garða og hreinsa tún sín, og þess vegna læt jeg styrkinn til lendingarbótanna vera óháðan nokkru skilyrði um gagnkvæmt framlag frá hreppnum. Það þýðir ekki að bjóða þeim 1/3 fjárins eða því um líkt, því hreppurinn á þess engan kost að taka lán í sambandi við sýslufjelagið til að bæta tjón það, sem tún, garðar og hús hafa beðið, og ef til vill verða sjerstakar kvaðir lagðar á jarðirnar í kring til að standa straum af þessu. Hreppurinn er fjelaus og sýslan og hreppurinn til samans hafa ekkert lánstraust. Hitt tel jeg sjálfsagt, að styrkur þessi verði veittur með það fyrir augum, að hann verði notaður undir umsjón sjerfróðs og kunnugs manns, svo að ekki endurtaki sig hjer sama sagan og í Bolungarvík og Stykkishólmi og víðar. Hinsvegar ætti hann, þótt ekki sje meiri en þetta, ef hagsýni væri viðhöfð, að nægja til að gera lendinguna öruggari, en sem stendur verður vart komist á sjó þarna, nema með vissri sjávarhæð og miklum erfiðleikum.

Jeg vil nú skjóta því til hv. þingmanna, sem sýnt hafa á þessu þingi mikið örlæti við landbúnaðinn, að þeir skelli ekki skolleyrunum við þessari fjárveitingu. Það er náttúruviðburður, er valdið hefir feikna eignatjóni, sem engum var auðið að afstýra, sem hent hefir þessa sveit og komið þungt niður á henni í atvinnu og eignatjóni. En það fyrsta, sem verður að gera til þess að bæta tjónið, er að tryggja hreppsbúum, að þeir verði ekki útilokaðir frá sjósókn til lengdar. Vona jeg því, að allir hv. þm. sjái sjer fært að greiða atkv. með þessari till.