23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2344 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

103. mál, veiting ríkisborgararéttar til séra Friðriks Hallgrímsssonar

Frsm. (Árni Jónsson):

Eins og kunnugt er, hefir legið fyrir allshn. stjfrv. um að veita 6 mönnum ríkisborgararjett. Af þeim eru 5 erlendir, en aðeins þessi eini, sjera Friðrik Hallgrímsson, fæddur hjer á landi, en hefir dvalið langvistum vestan hafs, og er því ríkisborgari í Canada.

Nú stendur svo á um þennan mann, að hann er fyrir skömmu kosinn dómkirkjuprestur hjer í Reykjavík cg væntanlegur hingað til lands bráðlega, til þess að taka við embætti sínu. Áður en sjera Friðrik hvarf vestur um haf, var hann um hríð prestur á Útskálum og því embættismaður landsins. Hann er maður íslenskur í húð og hár, þó að löggjöfin hinsvegar eftir allan þennan tíma skoði hann ekki sem íslenskan ríkisborgara.

Um hina mennina fanst nefndinni vanta fullnægjandi upplýsingar fyrir því, að veita bæri þeim ríkisborgararjett. Þó má vera, að slíkar upplýsingar fáist um suma þeirra, og mun nefndin þá að sjálfsögðu leggja til, að þeim verði einnig veittur ríkisborgararjettur. En hvað sem því annars líður, vænti jeg þó, að allir geti verið sammála um, að engra tvímæla orki að veita þessum manni ríkisborgararjett, og lofi því frv. þessu að ná fram að ganga.