23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

103. mál, veiting ríkisborgararéttar til séra Friðriks Hallgrímsssonar

Forsætisráðherra (JM):

Eftir þessa ræðu hv. frsm. (ÁJ) veit jeg eiginlega ekki, hvað á milli ber. Mjer heyrðist á honum, að meiningin væri sú, að taka aðeins þennan mann út úr af sjerstökum ástæðum, sem jeg get vel fallist á, en bera hinsvegar alla hina upp í einu lagi. Ef svo er, þá hefir það verið misskilningur hjá okkur hv. 2. þm. Rang. (KIJ), að ætlunin væri sú, að bera hvern mann upp í sjerstöku frv. Jeg get ekki sjeð annað heldur en að hægt sje og sjálfsagt sje að afla sjer sem fullkomnastra upplýsinga um hvern einstakan mann, enda þótt margir sjeu bornir upp í sama stjfrv. Hitt, að bera upp eitt stjfrv. fyrir hvern mann, er á móti allri venju, sem jeg þekki til. Það er alveg rjett, að komið hafa fram frv. frá einstökum þm. um að veita mönnum ríkisborgararjett en í hvert skifti, sem slíkt hefir skeð, hefir þess verið getið annaðhvort í nál. eða framsögu, að slíkt ætti ekki að vera, heldur ættu því lík frv. að koma í einu lagi frá stjórninni í hvert sinn. Um dvalartíma þeirra manna, er hv. frsm. (ÁJ) nefndi, skal jeg ekki segja, en þó sýnist hann vera nægilegur, ef okki er annað til hindrunar. Um íslenskukunnáttu þessara manna er ráðuneytinu að vísu ekki persónulega kunnugt, en þó veit jeg um einn mann, sem jeg nefndi við 1. umr., sem talar íslensku mjög vel. Má vera, að hv. frsm. (ÁJ) sje hjer kunnugri en jeg. Einn maður sótti, sem ráðuneytinu var kunnugt um, að kunni ekki málið, og hefir hann heldur ekki verið tekinn upp í frv. En annars hygg jeg, að fáir útlendingar gætu fengið þennan rjett, ef kröfur ætti að gera til fullkominnar kunnáttu í íslenskri tungu.

Það er öllum kunnugt, að útlendingum veitist mjög erfitt að tala íslensku, svo vel sje.

Annars sje jeg ekki ástæðu til að orðlengja meira um þetta, þar sem sá skoðanamunur, sem jeg hjelt að væri milli hv. allshn. og mín í þessu máli, hefir, að því er virðist, verið á misskilningi bygður.