07.03.1925
Neðri deild: 28. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (1388)

79. mál, selaskot á Breiðafirði og uppidráp

Flm. (Hákon Kristófersson):

Þetta frv. er flutt fyrir ósk fjölmargra manna við Breiðafjörð. Eins og drepið er á í greinargerð fyrir frv., eru sektarákvæðin í lögunum frá 1885 svo lág, að þau hafa engin áhrif á lögbrjóta. Jeg get fullyrt eftir minni reynslu og annara, að brot og yfirtroðslur gegn lögum þessum hafa verið og eru svo úr hófi fram, að margar selalagnir því nær eyðileggjast, ef ekki verður við gert. Okkur er þannig farið á þessu landi, að við höldum yfirleitt engin fyrirmæli, nema nokkurnveginn tryggi lega sje um búið. Og hjer er farið fram á að tryggja friðunina með hækkun sekta svo um muni. Það mætti ef til vill segja, að sektarákvæði þessi sjeu nokkuð há, er ákveða skuli 50–100 krónur fyrir hvern sel. En sannleikurinn er sá, að víða er margur selur skotinn, sem er meira virði.

Til þess að tryggja þetta enn betur, er svo ákveðið, að byssan skuli einnig upptæk ger. Mjer er kunnugt um, að skyttur, sem stunda þessa iðn, eiga að jafnaði góðar byssur og rifla, og á svæði því, er þessi lög mundu ná yfir, kaupa menn iðulega dýra og góða rifla í þeim tilgangi einum að skjóta sel. Er það trú mín, að það mundi draga allmjög úr lögbrotum, ef menn væru hræddir um að missa byssuna sína. Geri líka ráð fyrir, að það hafi dálítil áhrif til að brot komist upp, að uppljóstrarmaður fái 2/3 sektanna.

Jeg hefi sjálfur orðið fyrir miklum óþægindum af þessum lögbrjótum, og má svo að orði kveða, að vart sje eftir 1/4 hluti fyrri selveiði jarðar þeirrar, er jeg bý á, einkum að því er útsel snertir. Af hvaða ástæðum sú rýrnun er, kemur vitanlega ekki af neinu öðru en skotunum, og svo mun víðar vera. Jeg lít svo á, eftir því verði, sem nú er á skinnum, að sjálfsagt sje að vernda þessa atvinnugrein. Hinir, sem lögbrotin fremja, telja eigendur selalátranna ekki hafa meiri rjett til selsins en sig. En þess er að gæta, að þetta eru stórhlunnindi einstökum jörðum, sem verið er að eyðileggja, en stundarhagnaður einn fyrir hina. Þess má einnig geta, að rýrnun á selveiði jarða þeirra, sem hlut eiga að máli, er um leið rýrnun á verðmæti þeirra, og þar af leiðandi rýrnun á ýmsum fasteignum landsins.

Jeg býst við, að þetta sje svo ljóst, að ekki þurfi að vísa því til nefndar, þó eftir reglu þyki hæfa, að svo sje gert. Jeg sting því upp á að vísa málinu til landbúnaðarnefndar, þó hjer sje um sjávardýr að ræða. Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta meir, með því að þá yrði að geta fjarstaddra manna.