30.03.1925
Efri deild: 42. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

79. mál, selaskot á Breiðafirði og uppidráp

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg held, að það sje ekki ástæöa til þess að fara mörgum orðum um þetta frv. Nefndin leggur fram nál., sem skýrir víst nægilega, hvernig í þessu máli liggur. Meginmál frv. er fyrri hluti 1. gr. Það má segja, að frv. þetta sje gamall kunningi í deildinni; það kom fyrir þessa hv. deild á síðasta þingi frv., sem gekk í þessa stefnu og var afgr. með rökstuddri dagskrá til stjórnarinnar, vegna þess að menn vildu láta leita álits hlutaðeigandi sýslunefnda, áður en það væri gert að lögum. Þessa álits hefir nú verið leitað, og frá tveimur sýslunefndum hafa komið ákveðin svör. Þær hafa ekkert á móti því, að það verði lögleidd þannig löguð friðunarlög. En hin þriðja hefir ekki svarað neinu. Það má því segja, að ekkert sje því til fyrirstöðu að lögleiða frv. Eins og sjá má, hefir frv. frá því sem var í fyrra fengið viðbót í hv. Nd., að því leyti, eins og stendur í 2. málsgr. 1. gr., að það er undanþeginn þessu banni dálítill blettur af Hvammsfirði. Þar má eftirleiðis skjóta selinn. Það stendur sem sje þar svo á, að þar eru nokkrar laxveiðiár, Laxá, Haukadalsá, Miðá og Hörðudalsá. Mönnum hefir ekki þótt rjett að banna selveiði fram undan mynnum þessara áa, svo að á Hvammsfirði myndast þannig þríhyrningur, er selaskot verður leyft á, en bannað bæði fyrir innan og utan þann þríhyrning. Það er sama hugsun, sem liggur í frv. sjálfu eins og í brtt. þeim, sem nefndin hefir komið með, en hún telur betra að undanþiggja þennan blett heldur en að segja, að sama bann skuli gilda í Hvammsfirði, eins og stendur í frv. Við lítum sem sje svoleiðis á, að Hvammsfjörður tilheyri að vissu leyti Breiðafirði og þess vegna eigi að láta bannið grípa yfir alt, Breiðafjörð með fjörðum þeim, sem inn úr honum ganga, en undanfella svo friðuninni það svæði, sem þykir við eiga. Það er enginn ágreiningur um þetta; allir nefndarmenn eru samþykkir um þær brtt., sem nefndin hefir gert, og hv. flm. frv. í Nd. telja breytingarnar til bóta.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. En nefndin mun til 3. umr. athuga, hvort ekki ætti að breyta fyrirsögn frv. Fyrirsögnin er orðuð eins og á frv., sem lá fyrir þessari háttv. deild í fyrra, en svo er komin 2. gr. um sektir, samhljóða sektarákvæðunum í frv. til laga um breytingu á tilskipun um veiði á Íslandi, 20. júní 1849, og lögin frá 1885 þar

með fullkomlega upphafin. Nefndin mun því athuga, hvort ekki sje rjett að breyta fyrirsögn frv. í samræmi við þetta.