07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

1. mál, fjárlög 1926

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg þarf að minnast hjer á tvær tillögur vegna sjútvn.

Fyrir síðustu umræðu þessa máls ritaði hún fjvn. um laun fiskiyfirmatsmanna, en hv. fjvn. treystist ekki til að bera bað erindi fram. Þó kom fram tillaga um að hækka laun þessara manna, en hún fjell. Nú hefir það orðið að samkomulagi milli nefndanna að hækka launauppbót þeirra upp í 8200 kr. Að vísu er þetta heldur lítið, en þá ætti þó fremur að vera von um, að brtt. yrði samþykt hjer í þessari hv. deild.

Önnur brtt. er um það að hækka um helming fje það, sem ætlað er til eftirlits með skipum. Jeg býst nú við, að sumum kunni að þykja hækkunin nokkuð mikil, en þegar þess er gætt, að fje þetta er ætlað til þess að greiða umsjón með skipaskoðun um land alt, og einnig skrifstofufje og ferðakostnað umsjónarmanni, þá er auðsætt, að það er síst of mikið. Og þegar tekið er tillit til þess, að þessari hækkun fylgja meðmæli hæstv. stjórnar, vona jeg, að brtt. nái samþykki háttv. deildar.

Auk þessa eru þrjár brtt., sem jeg vil minnast á. Er jeg ýmist aðalflutningsmaður þeirra eða þá meðflutningsmaður. Er það þá fyrst XXX. brtt. á þskj. 290, um að veita Fornleifafjelaginu 800 kr. styrk. Styrkur þessi var feldur á síðasta þingi, þegar alt annað var skorið niður. Hjer er aðeins um litla fjárhæð að ræða, og býst jeg við, að það sje fremur af gleymsku, að aðrir hv. þm. hafa ekki orðið á undan mjer til þess að bera till. fram. Landið stendur í þakklætisskuld við fjelag þetta fyrir útgáfu þess á Árbók þess. Mun þetta fjelag og hafa gefið landinu Fornmenjasafnið. Á fjelagið því þennan litla styrk skilinn, og þótt meira væri, og vona jeg, að hv. deild verði mjer samþykk um það.

Þá skal jeg geta tveggja brtt., er snerta atvinnulíf þjóðarinnar. Er það þá fyrst brtt. á þskj. 290, liður XXXIX, um 2600 kr. viðbót handa efnarannsóknarstofunni. Það mun flestum ljóst, hvert gildi efnarannsókn hefir fyrir vöruvöndun og verðhækkun útflutningsvara. Þeir framleiðendur, sem kunna að nota slíkar stofnanir, geta selt vörur sínar miklu hærra verði en ella. Annað höfuðatriði er og það, að þegar skýrsla um efnagreining fylgir útflutningsvöru, má selja hana í landinu sjálfu, og þarf ekki að bíða þess, að hún komi til kaupenda. Jeg skal í þessu sambandi minna á lýsið. Það er dýr vara og er að vísu metin, en það mat, sem á henni er nú, er ekki nægilegt, því að ýmislegt fleira kemur til greina en núverandi matrannsókn. Lýsi er svo mismunandi, að ekki er hægt að flokka það rjettilega nema með efnarannsókn.

Vegna þess að efnarannsókn hefir vantað hjer á ýmsum vörum, hafa þær ekki komist í fult verð. Af þeirri ástæðu hefi jeg flutt þessa brtt. Verði þessi styrkur veittur, fær efnarannsóknarstofan betri áhöld en áður og getur haft meiri starfskröftum á að skipa. Og það mun eggja menn á að nota efnarannsóknarstofuna meira en áður til þess að leiðbeina um vöruvöndun. Fyrir landbúnaðinn eru slíkar rannsóknir mjög nauðsynlegar, og erlendis hafa mestu framfarir í búnaði og iðnaði einmitt orðið á grundvelli efnafræðinnar. Brtt. þessi, sem hjer er um að ræða, miðar til þess að efla bæði landbúnað og sjávarútveg. Ef þingið vill fylgja tillögunni, er jeg viss um það, að forstöðumaður efnarannsóknarstofunnar er svo framtakssamur og áhugasamur, að hann mun taka vel á móti þeirri útrjettu hönd.

Þá er brtt. LVI á þskj. 290, um 30 þús. kr. ríkisábyrgð fyrir tóvinnufjelag Vestur-Ísfirðinga, gegn tryggingu, er stjórnin tekur gilda. Fjelag þetta ætlar að reyna að koma upp kembivjelum og lyppivjelum fyrir Vestfirðinga. Jeg hefi leitast fyrir um þetta mál hjá hv. fjvn., og hýst jeg við, að hún sje því meðmælt. Ennfremur býst jeg við, að hefði nefndin ekki komið fram með tillögur sínar um frystihús, þá hefði hún tekið þetta mál að sjer og fylgt þá láni til fyrirtækisins, þar sem hjer er aðeins farið fram á ábyrgð. Fjelagið er ekki þannig statt, að það geti ráðist í framkvæmdir, nema því aðeins, að það fái stuðning ríkisins. En það er hið mesta nauðsynjamál, að slíkar tóvinnuvjelar komist upp á hverju landshorni. Þær eru undirstaða spunavjela, en þær vjelar eru aftur undirstaða prjónavjela og vefstóla. Hjer er því um að ræða endurnýjun hins íslenska heimilisiðnaðar, og vona jeg, að tillagan hljóti fylgi hv. þdm.