09.03.1925
Efri deild: 26. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2362 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

91. mál, einkenning fiskiskipa

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Frv. þetta hefir sjútvn. leyft sjer að flytja eftir tilmælum hæstv. landsstjórnar.

Eins og kunnugt er, þá er eftir samningi frá 6. maí 1882 til ákvæði um, hvernig fiskiskip skuli merkt og auðkend utan landhelgi, en hingað til hafa ekki verið til ákvæði að því er þetta snertir innan íslenskrar landhelgi.

Frv. þetta mælir svo fyrir, að öll skip, útlend og innlend, er koma í íslenska landhelgi, skuli bera á sjer glögt heiti sitt og heimilisfang, að viðlögðum sektum, ef út af er brugðið.

Að því er botnvörpuskip snertir skoðast það brot, ef breitt er yfir merki, og skal fara með það eins og ef veiðarfærum væri óleyfilega fyrir komið. Þetta á við, þegar merki er hulið af ásettu ráði, en ekki eins saknæmt, þó að það kynni að hafa máðst út óvart.

Það kemur oft fyrir, þegar vopnlausir bátar elta botnvörpuskip, að þau komast undan með því móti að breiða yfir merki, svo að það virðist full ástæða til þess að reyna að kippa þessu í lag og leggja fullkomna sekt við slíkum brotum.

Með því að sjútvn. hefir haft þetta frv. til athugunar áður en það var flutt, sýnist ekki ástæða til að vísa því til nefndar, og mælist jeg til, að það verði látið ganga beint til 2. umr.