18.03.1925
Neðri deild: 36. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (1419)

91. mál, einkenning fiskiskipa

Forsætisráðherra (JM):

Hv. sjútvn. í Ed. hefir borið þetta frv. fram fyrir hönd stjórnarinnar. Það er alkunnugt, að á síðari árum hafa skip, sem hafa verið að ólöglegum veiðum í landhelgi, mjög oft falið merki sín, og þannig gert óhægra fyrir um eftirlit. Þetta frv. fer fram á að gera þetta að sjerstöku broti, þótt annað ólöglegt sje ekki aðhafst, en jafnframt sje hegningu fyrir þetta brot bætt við, ef fleiri sakir eru. Frv. fjekk góðar viðtökur í hv. Ed., enda mun það vera vilji allra hv. þingmanna að hlífa ekki slíkum lögbrjótum.

Jeg hygg, að ekkert sje í frv. þessu, sem brýtur í bága við alþjóðalög, en þó vil jeg til varúðar leggja það til, að því verði vísað til sjútvn.