30.03.1925
Neðri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

91. mál, einkenning fiskiskipa

Ágúst Flygenring:

Það var aðeins lítið atriði viðvíkjandi þessu máli, sem jeg vildi víkja að nokkrum orðum. Eins og kunnugt er, þurfa fiskiskip og bátar, sem eru við veiðar í hafinu kringum Ísland, ekki að vera merkt, ef þau eru innan landhelgi, en skylt er þeim að sýna merki, er þau eru utan landhelginnar. En þó þetta hafi oft verið brotið, hefir ekki legið sekt við því. Frv. það, sem hjer liggur fyrir, gerir ráð fyrir þessu hvorutveggja, að skip skuli skyld að hafa merki bæði innan sem utan landhelgi, og leggur sekt við, ef brotið er gegn þessu, og er þetta alveg rjettmætt.

Samkv. tilskipun frá 1903, sem enn er í fullu gildi, er gert ráð fyrir, að öll skip, sem hjer eru mæld og skrásett, skuli hafa merki og önnur einkenni, þ. e. skrásetningarbókstafi og tölu, og skyldu lögreglustjórar þeir, er um skrásetninguna áttu að annast, einnig sjá um þetta atriði, nefnilega merkinguna. Þetta var í fyrstu framkvæmt allítar lega, en því hefir í seinni tíð ekki verið jafn stranglega framfylgt. En nú hagar hjer svo til víðasthvar, að menn verða að sækja á fiskimið út fyrir landhelgina, jafnvel á smábátum, og því hefir þetta átt að ná til báta líka. En ákvæðin um bátana hafa að mestu fallið í gleymsku í seinni tíð, þó mest fyrir tómlæti lögreglustjóranna, en það stafar af því, að ekkert hefir verið hægt að gera við ómerkinga þá, sem fyrir hafa hist í landhelgi. Þetta frv., sem hjer er til umræðu, gerir ráð fyrir þessu hvorutveggja, en þó eru ákvæðin „öll skip“ ekki nógu skýr, þar sem ekki er tiltekin stærð skipanna, og verður þetta því of óljóst orðað. En tilskipunin frá 1903 gerir ráð fyrir, að ákvæði hennar taki til alls, sem flýtur utan landhelgi, og því vil jeg beina þeirri spurningu til hæstv. atvrh. (MG), hvað hann álíti rjett í þessu efni. Hvort ekki eigi að vera nánar tiltekið um, hvaða skip skuli merkt vera innan landhelgi, ef ekki er ætlast til, að skrásetningin nái til báta líka, eins og á sjer stað utan landhelgi. petta finst mjer ætti að leiðrjetta og setja gleggri reglur um, hvaða skip skuli merkingarskyld og hverjum megi sleppa.