07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. fyrri kafla (Þórarinn Jónsson):

Það hefir ekki verið hallað neitt á fjvn. fyrir till. hennar við fyrri hluta fjárlagafrv., en vegna þess, að jeg hefi ekki gert grein fyrir afstöðu nefndarinnar til ýmsra brtt., skal jeg leyfa mjer að segja nokkur orð.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hefir borið fram nokkrar brtt. um hækkun á tekjuliðum. Nefndin áleit, að það væri ekki rjett að hækka hjer meira. Vill hún fara varlega í slíkar hækkanir, því að þótt hún telji, að vel geti verið, að sumir liðir geti orðið hærri en áætlað er, vill hún ekki samsinna þessu og er því á móti þessum brtt. Skal jeg hjer geta þess, að eins og till. eru nú, ættu tekjurnar að vera komnar upp fyrir meðaltal áranna 1922–’24. Vil jeg þar benda á það, að áfengistollurinn varð að meðaltali 480 þús. kr. þessi árin, en hv. 3. þm. Reykv. gerir ráð fyrir, að hann verði 550 þús. kr. Kaffi- og sykurtoll vill hann líka áætla hærri, 975 þús. kr., í stað 920 þús. kr., sem hann hefir verið að meðaltali. Sömuleiðis hefir vörutollurinn ekki orðið nema 1308 þús. kr., en er eftir till. áætlaður 1400 þús kr, Það sýnist því varlegra eftir þeirri venju, er þingið hefir ávalt viljað fylgja, að láta við þá hækkun sitja, sem nefndin gerði við 2. umr. En ef tekjuhliðin þætti alveg sjerstaklega varlega áætluð, mætti taka það til athugunar við eina umr. fjárlaganna hjer í hv. deild og hækka þá tekjurnar, ef ástæða þætti til. Nú eru eftir 3 umr. í hv. Ed. og ekki sjeð fyrir, hvaða meðferð frv. fær þar.

Þá er hjer smábrtt., sú V. í röðinni á þskj. 290; er hún orðabreyting, eða miðar að því að færa til betra máls, og býst jeg við, að allir geti greitt henni atkvæði sitt.

Svo er hjer ein brtt. á minni landareign, við fyrri hl. fjárlaganna, um að Ísafjörður skuli nefnast aftur sínu forna heiti: Skutilsfjarðareyri. Þó að jeg segi um hana fáein orð, þá þarf ekki að skilja það svo, að nefndin sje óskift um hana, enda hefi jeg fylgt þeirri reglu sem frsm., að mæla fyrir þeim brtt., sem meiri hl. nefndarinnar hefir orðið ásáttur um að fylgja, og aldrei látið koma annað í ljós en að meiri hl. stæði mjer að baki.

Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) feldi sig ekki við Skutilsfjarðareyri, heldur vildi hann hafa það Eyri við Skutilsfjörð. En þetta er ekkert aðalatriði og ekki heldur það, að þess mun ekki kostur að breyta lögum með fjárlagaákvæði. Aðalatriðið er, að hjer er verið að færa til forns og fegra máls nafn, sem afbakað hefir verið öldum saman. Slík nafnabreyting sem þessi er heldur ekkert einsdæmi. Þarf þar ekki annað en minna á Norðmenn, sem hafa nú í vetur breytt nafninu á höfuðstað sínum, og uppi er nú, að þar verði ekki staðar numið, heldur muni fleiri bæjarnöfnum verða breytt. Það þarf því engan að undra, þótt við Íslendingar fylgdum dæmi Norðmanna í þessu efni og tækjum aftur upp fornhelg nöfn, er Danir hafa afbakað í fyrstu. Þeir, sem ekkert nafn vilja nema Ísafjörður, þeir mundu kannske vilja vinna að því að fá Akureyri breytt í Eyjafjörð, til þess að ná þar meira samræmi. En jeg verð að telja að það sje landshamingja, að nafnið Eyjafjörður (Öfjord) hefir ekki fest þar. En það er vitanlegt, að Akureyri og Skutilsfjarðareyri er ekki voðfelt í danskri tungu, og því er það, að Ísafjörður hefir orðið ofan á. Yrði till. þessi samþykt, mætti skoða hana sem undirbúning þess, að horfið yrði að því að færa til eldra og betra máls nöfn, sem afbökuð hafa verið eða lögð niður.

Næsta brtt. er frá hv. 1. þm. S.-M. (Svo) um styrk til farlama manns. Hann hefir nú talað fyrir brtt. og lýst ástæðum þessa manns, og þykir mjer sennilegt, að þessa væri full þörf, ef ríkissjóður gæti litið til allra slíkra þarfa. Annars hefir nefndin óbundið atkv. um brtt., og læt jeg því úttalað um hana.

Þá kem jeg að stærstu brtt., um 100 þús. kr. til landsspítalans, og skal jeg þá lýsa því strax yfir, að nefndin hefir þar óbundið atkvæði. En út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að gera megi fyrir þessar 100 þús. kr. jafnmikið og fyrir 150 þús. eftir till. hans við 2. umr., þá býst jeg við, að hann ætlist til, að fje það, sem safnað hefir verið í sjerstakan sjóð til landsspítalans, verði þá látið ganga alt til byggingar hans, en um það hefir farið tvennum sögum, hvort fje það ætti að ganga til byggingarinnar. Mjer er nú ekki ljóst, hvað mikið hefir safnast með samskotum, en gera má ráð fyrir, að bygging þessi standi yfir nokkur ár og að 1927 verði búið að byggja fyrir 400 þús. kr. og þá alt fje landsspítalasjóðs komið þar í. Þá er þó eftir samkvæmt áætlunarkostnaðinum að byggja fyrir 600 þús. kr., er yrði að leggja fram á næstu árunum úr ríkissjóði, svo þetta verður þá rúm 1/2, miljón króna, sem ríkissjóður verður að leggja til eftir 1927, sje miðað við orðalag brtt.

Er nú ýmislegt að athuga í þessu efni. Fyrst og fremst er hjer tept fje ríkissjóðs í stórum stíl á því tímabili, sem ætlunin var að hafa það sem mest laust í ákveðnu augnamiði. Og einnig er líklegt, að þessi 600 þús. kr. útgjöld, sem þá er eftir að leggja í bygginguna, geti orðið ríkinu of þungur baggi. Þess vegna væri rjettara að bíða enn um stund og halda áfram með sama dugnaðinum og áhuganum að afla fjár í sjóðinn. Það eru líka skiftar skoðanir um þessa síðustu teikningu, eða síðari. Þannig hefi jeg heyrt, að próf. Guðmundur Hannesson telji ekki álitlegt að byggja við eftir þessari minni teikningu, ef stækka ætti síðar, og sje því með stærri byggingunni. Og meðan menn koma sjer ekki saman um þetta, virðist ekki úr vegi að fresta byggingunni um óákveðinn tíma og ofhlaða ekki ríkissjóð. Auk þess verður nefndin að líta svo á, að það sjeu aðrar byggingar, sem ganga eigi fyrir þessum, eins og t. d. stækkun Klepps. Að vísu skal jeg játa, sem mitt álit, að landsspítali hefði átt að ganga fyrir heilsuhali á Norðurlandi. En jeg hefi áður gert það að umtalsefni, og skal því ekki dvelja við það nú, enda orðið að því kappsmáli, að geta ríkissjóðs er þar að engu metin.

Næsta brtt. er frá háttv. 2. þm. Árn. (JörB). um styrk til læknisbústaðarins í Laugarási. Þetta læknishjerað er nú orðið svo þekt hjer í þinginu og um þetta mál hefir staðið sá styr á undanförnum þingum — en mest þó vegna þess, hversu klaufalega það var upp borið í fyrstu — að vonandi er, að því geti nú verið lokið. Nú hefir nefndin fallist á, eftir upplýsingum landlæknis og víðar frá, að fullmikið muni hafa verið haldið í við þetta læknishjerað með styrk til byggingarinnar, samanborið við önnur hjeruð, og vill því láta hjeraðið fá þennan styrk. Hv. 2. þm. Árn. (JörB) bar fram brtt. um nokkuð hærri styrk við 2. umr., eða 7000 kr., en tók hana þá aftur. Nefndin telur þessa upphæð sanngjarna og leggur til, að hún verði samþykt, en fellir af 2000 kr., með hliðsjón af því, er hún leggur til, að feldar verði viðbótarkröfur frá Síðuhjeraði o. fl.

Um 10. brtt., frá hæstv. fjrh. (JÞ), er fátt að segja. Hún er aðeins um að bæta í fjárlög upphæð, sem ekki verður komist hjá að greiða, og er nefndin því að sjálfsögðu með þessu.

Um 11. brtt., frá hv. þm. Barð. (HK), um 300 kr. hækkun á styrk til umbúðasmiðs, hefir nefndin óbundin atkvæði.

13. brtt., frá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), er sú sama og hann flutti við 2. umr. Um hana er ekkert að segja annað en vísa til atkv. nefndarinnar um hana við 2. umræðu, enda hefir nefndin eins og þá óbundin atkvæði um hana.

Sama er að segja um 14. brtt., frá hv. þm. Str. (TrÞ), að jeg get vísað til þess, sem jeg hefi áður sagt. Nefndin getur ekki fallist á, að ríkissjóði beri nein skylda til þess að styrkja húsbyggingu á þessum stað, þó að töluverð gestnauð sje þar með köflum.

15. brtt. hefir samnefndarmaður minn, hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), gert að umtalsefni og tekið fram, að frá hálfu fjvn. ætti þessi hækkun að miðast við Hornafjörð. Það kom líka fram í nefndinni frá háttv. þm. Borgf. (PO), að hann óskaði eftir, að Hvalfirði yrði ekki gleymt, en nefndin fjellst samt á, að Hornafjarðarbáturinn væri maklegri nokkurrar hækkunar, þó hún vilji ekki með því spilla fyrir Hvalfjarðarbátnum.

Þá kem jeg að 16. brtt., frá hv. minni hl. fjvn. (BJ), og er það sama brtt., er hann tók aftur við 2. umr. af því að hann taldi hv. deildarmenn þá orðna blóðuga til axla af drápi brtt. hans. Hann hefði ekki átt að æsa blóðþorsta deildarinnar á ný í þessu efni, því að vita má hann hug meiri hl. nefndarinnar, að hann er hinn sami og áður. Eftir upplýsingum, sem nefndin hefir fengið, eru það ýmsar aðrar símalínur, sem þegar eru teknar inn í símalög og hljóta að ganga fyrir. Og á meðan þær símalínur verða ekki bygðar vegna fjárskorts ríkissjóðs, virðist óþarfi að taka upp sjerstakar línur í fjárlög, sem eiga þar engan rjett á sjer.

Þá held jeg, að fleiri brtt. einstakra þingmanna sjeu ekki í þessum kafla, er sjerstök ástæða væri að minnast á. Get jeg því látið máli mínu lokið hjer með og vona, að jeg hafi ekki hagað orðum mínum svo, að nokkur hv. þm. gefi mjer tilefni til að standa upp aftur.