21.03.1925
Neðri deild: 39. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2374 í B-deild Alþingistíðinda. (1443)

61. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vil vekja athygli hv. nefndar á því, að samkv. heimild í 3. gr. vörutollslaganna hefir tollur á girðinganetum verið lækkaður úr 7. fl. niður í 2. fl. 1. gr. vörutollslaganna. Slíkt hefir oftar verið gert, þegar tollurinn hefir verið ósanngjarnlega hár, samanborið við innkaupsverðið. Mjer finst ekki fara vel á að telja sumar þessar vörutegundir upp í frv.; annaðhvort á að taka allar eða enga. Jeg vil því skjóta því til hv. nefndar til athugunar, hvort ekki megi taka upp í frv. allar þær vörutegundir, sem hafa verið úrskurðaðar úr 7. fl. og í 2. fl., því að annars getur þetta valdið ruglingi.