02.04.1925
Neðri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2391 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

61. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það er náttúrlega alt annað mál, ef það þykir rjett að banna algerlega innflutning á heyi vegna þeirrar hættu, að það kunni að flytja með sjer hættulega húsdýrasjúkdóma, eins og hv. þm. Str. (TrÞ) talaði um. En jeg get ekki sjeö, að heyið verði neitt heilsusamlegra fyrir skepnurnar, þó það sje tollað í lögum með 71/2 eyri á kg., eða að landsstjórnin samkv. lögum undanskilji það þessum tolli. Hitt, ef á að banna innflutninginn, þá er auðvitað ekki hægt að færa neina skynsamlega ástæðu fyrir því að ná slíku takmarki með breyting á tollalöggjöf.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði, að engin þörf væri á að flytja inn hey. Það, að heyið er nú flutt inn, sannar þörfina, því að vitanlega er það aðeins flutt inn af því, að menn þurfa að nota það. Hann sagði ennfremur, að víða um land lægi óselt hey. Má vol vera, en menn verða að gæta að því, að samgöngunum hjer á landi er nú svo háttað, að oft getur reynst ókleift að flytja heyið frá þeim, sem hafa það, til hinna, sem skortir það. Það er vitanlegt öllum, að í heyskorti geta menn ekki náð til þeirra, sem heyin eiga, ef þeir búa langt í burtu. Það er nú líka svo, að mest hey eru flutt til sjávarþorpanna og kaupstaðanna að vorinu, þegar heimafengni heyfengurinn reynist ónógur. T. d. er það flutt hingað til Reykjavíkur eingöngu á vorin, eða um þetta leyti árs. Og jeg get ekki annað sagt en að eins og uppástunga þessara hv. þm. er orðuð, þá myndi hey sennilega verða undanþegið vörutollinum á hverju vori. Því ekki er farið fram á, nje heldur er það tilgangurinn, að almennur fóðurskortur þurfi að vera um alt land til þess að undanþága sje veitt, heldur aðeins í því bygðarlagi, sem ekki á völ á að ná sjer í hey í nærsveitunum.

Segjum t. d., að Vestmannaeyingar hefðu svo mikið af kúm, að þeir yrðu að treysta á útlendan heyfeng. Þá gætu þeir rólegir, á haustin eftir að strandferðum er lokið, tilkynt, hvort þeir þœttust hafa nóg hey eða ekki. Og ef þeir hefðu ekki nóg, þá mundu þeir að sjálfsögðu fá það tollfrítt innflutt eftir till. hv. flm., því að jeg trúi ekki öðru en að þorp með 3 þús. íbúa eigi eins mikinn rjett á sjer og álíka mannmörg sýsla, sem kvartaði undan að geta ekki náð í nóg hey.

Annars hygg jeg, að það sje fullkominn misskilningur að ætla, að slík aðflutningshindrun á heyi sje svo afskaplega mikilsverð, sakir þess að hún muni lyfta undir og auka framleiðsluna á heyi innanlands. Jeg ætla, að þetta yrði þvert á móti. Þeir, sem hafa kýr í þorpum, reyna að rækta svo stóran blett, að hann nægi til að fóðra þær, en grípa aðeins til þess að flytja inn hey, meðan þess er ekki kostur. En ef tekið er alveg fyrir þetta með slíkum hindrunum, þá er mönnum gert erfiðara fyrir að ráðast í þessa jarðrækt í smærri stíl.