06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

109. mál, sóttvarnalög

Forsætisráðherra (JM):

Jeg býst ekki við að þurfa að hafa langan formála fyrir þessu frv., því að jeg hygg, að það sje þegar allkunnugt orðið hv. þdm. Hv. allshn. Ed. gerði mjer þann greiða að bera þetta frv. fram, svo ekki þyrfti að kosta til símskeytis til konungs þess vegna.

Frv. þetta er að nokkru leyti komið fram vegna þess, að sóttvarnarhúsinu á Ísafirði býðst nú kaupandi. Landlæknir er þeirrar skoðunar, að vel megi fella niður sóttvarnarhúsin utan Reykjavíkur, og virðist reynslan hafa sannað þetta; nefnilega að í Reykjavík aðeins sje slíks sjúkrahúss þörf. Það virðist því óþarft fyrir ríkissjóðinn að vera að burðast með hús þessi. Betra að láta viðkomandi kaupstaði notfæra sjer þau í því skyni, sem þau voru ætluð í fyrstunni, nefnilega á einhvern hátt til heilbrigðisráðstafana.