17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Þegar þetta mál kom fyrir þingið 1921, sem var fyrsta þing, sem jeg hefi átt sæti á, þá fanst mjer strax, að það vera svo sanngjarnt og sjálfsagt að veita því fylgi, að jeg greiddi því hiklaust atkvæði mitt þá, og síðan hefi jeg ekki breytt skoðun minni. Allshn., eða meiri hl. hennar, hefir fallist á það, að rjett væri að mæla með frv. til samþyktar.

Frá mínu sjónarmiði er hjer í fyrsta lagi um sanngirnismál að ræða gagnvart þeim starfsmanni ríkisins, sem hlut á að máli. Það var ómótmælanlega sannað með umr. á þinginu 1921, að hjer er um að ræða erfiðasta prestakall landsins og hættulegasta yfirferðar. En jafnframt því, sem ferðir prestsins eru hættulegar, þá kom í ljós, að þær eru jafnframt svo kostnaðarsamar, að þær meira en jeta upp tekjur þær, sem presturinn hefir af því að þjóna þessari sókn.

Jeg skil vel, að til sjeu raddir, sem ekki vilja fjölga prestaköllum, og varð þess vart í allshn. En meðan ekki er gerð önnur skipun á um samband ríkis og kirkju en nú er, þá er ómögulegt annað en að taka til greina nauðsynlegar og sanngjarnar breytingar á skipulaginu. Hjá því verður ekki komist, meðan ekki er gerður skilnaður ríkis og kirkju, sem jeg tel rjettast, og margir fleiri. En jeg býst við því, að það mál þurfi svo mikinn undirbúning, að það eigi enn langt í land. En meðan svo er, virðist mjer sjálfsagt að taka til greina nauðsynlegar umbætur á núverandi skipulagi kirkjumálanna. Og þar á meðal er þetta mál, sem hjer liggur fyrir. Það er sanngirniskrafa, sem jeg og meiri hl. allshn. teljum sjálfsagt, að verði tekin til greina. Það mun vera einsdæmi, að lögð sjeu á nokkurn embættismann störf, sem auk þess að vera hættuleg fyrir líf og heilsu leggja á hann miklar fjárhagslegar byrðar. Það er stundum svo, að lögð eru á menn erfið störf, en þau eru venjulega vel borguð. Því er ekki að heilsa hjer. Það er sannað, að það er fjárhagslegt tjón fyrir prestinn að fara þessar ferðir frá Ísafirði til Bolungarvíkur. Jeg er kunnugur á þessum slóðum og þekki vel alla staðháttu og veit, að landleiðin er erfið og ófær með köflum. Sú breyting hefir orðið hin síðari ár, að þorpið í Bolungarvík hefir eflst og stækkað og tekið til sín þá verslun, sem áður var sótt inn í Ísafjarðarkaupstað. Fyrir ca. 25 árum voru jafnan tíðar bátsferðir milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. En það voru róðrarbátar, sem þá voru notaðir, og þeir eru ódýrir í ferðum; en nú hafa menn stærri báta og dýrari, sem þeir skjökta ekki á á sama hátt og á hinum, enda þurfa þess síður en áður, vegna verslunarinnar. Alt þetta veldur því, að presturinn verður að leigja vjelbát í hvert sinn að heita má, er hann þarf að fá þarna í milli, en getur ekki sætt ferðum nema af hendingu, einu sinni eða tvisvar á ári.

Jeg get sagt það fyrir mig, og líklega meiri hl. allshn. líka, að þetta er okkur ekkert kappsmál. En jeg lít svo á, að þetta sje rjettlætismál, ekki aðeins gagnvart prestinum, heldur líka sóknarmönnum.

Að svo komnu mun jeg ekki fara fleiri orðum um málið. Jeg veit, að fleiri hv. þdm. eru mjög vel kunnugir á þessum slóðum og geta lagt meira til málanna. En fyrir hönd meiri hl. allshn. vil jeg mæla með því, að hv. þd. samþykki frv.