17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2413 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Magnús Jónsson:

Jeg vil ekki sleppa þessu máli fram hjá mjer án þess jeg láti mína skoðun í ljós, einkum þar sem hv. þm. Borgf. (PO) hefir gerst til þess að andmæla því, eins og líka á þinginu 1921. En að jeg hefi meiri áhuga á framgangi þessa frv. en máske flestir aðrir hv. þm., þá kemur það til af því, að jeg veit ger en þeir, hvernig skórinn kreppir að þar vestra.

Háttv. þm. Borgf. fór talsvert út fyrir efnið og sneri máli sínu að embættafækkuninni alment. Jeg er honum samdóma í því, að sjálfsagt er að hafa ekki fleiri embættismenn en nauðsynlegt er, og mjög væri gott til þess að vita, ef ríkið gæti fengið meiri vinnu hjá þeim; en hætt er þá við, að þörf yrði á að bæta laun þeirra að sama skapi. Sjerstakur fagnaðarhreimur var í rödd hv. þm. (PO), þegar hann talaði um fækkun presta. Má og vel vera, að prestar hafi verið óþarflega margir, meðan í Skálholtsbiskupsdæmi einu voru um 300. En sje hlutdrægnislaust litið á þessi mál, þá held jeg að varla verði sagt, að íslensk prestastjett hafi unnið sjer til óhelgi. Þeir hafa lifað við lík kjör og öll alþýða manna, verið bændur og ekki ósjaldan frömuðir og forgöngumenn í búskap og menningarmálum fólksins. Þeir voru einustu (vantar orð*) menn sinna sóknarbarna, voru læknar þeirra og ráðunautar í öllum málum og stunduðu embættisstörf sín með sæmd og prýði. Auk þess voru þeir vísindamenn margir hverjir, og þó þeir gætu ekki hlaupið með hvað eina strax í prentsmiðjuna, þá liggur mjög mikið eftir þá af slíkum störfum á söfnum og víðar, og er það undravert, hvað þeir hafa getað afkastað miklu af merkilegum störfum á því sviði. Og þegar aðrir embættismenn tóku að „dependera af þeim dönsku“, þá hjeldu þeir áfram að vera þjóðlegir embættismenn og hafa gert meira en nokkur önnur stjett til þess að varðveita þjóðerni vort.

Eftir því sem prestsembættunum er fækkað, verða minni og minni líkindi til þess, að þeir hafi sömu menningarleg áhrif á þjóðina og áður. Eftir því sem embættin verða umsvifameiri, minka hin persónulegu kynni prestsins og sóknarbarna hans, og starfsemi hans verður þar af leiðandi meira úti á þekju. En þó önnur stjett ætti að koma í stað prestanna til að verða fræðari og yfirlýstur ráðunautur almennings, þá tel jeg mikið vafamál, að sú stjett verði því hlutverki betur vaxin en einmitt klerkastjettin.

Þetta, sem jeg nú hefi sagt, kemur ef til vill ekki mikið frv. Við, en þó óbeinlínis. Hv. þm. Borgf. mintist á sparnaðarnefnd þá, er situr nú á rökstólum, en í stað þess, að hann virðist líta hana með miklum velvildarhug, þá myndi jeg vilja hlífa henni við því að minnast á hana. Mjer finst það, sem frá henni hefir sjest enn sem komið er, svo nauðaómerkilegt, að furðu sætir. Aðalbjargráðið, sem hún hefir fundið, er að ráðstafa þannig skemtanaskattinum, að útilokað sje, að hann komi að nokkru gagni, og annað því um líkt.

Það er satt, að einn maður úr kirkjumálanefndinni gömlu var fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Og hlerað hefi jeg það, að þessi sparnaðarnefnd, sem sami maður á nú sæti í, ætli að koma fram með till. um stórkostlega fækkun á prestum, jafnvel niður í 40. Þar skýtur sama stefnan upp höfðinu og í skemtanaskattsmálinu, og mun þá hv. þm. Borgf. vel líka. Með öðrum orðum, það á að fækka þessum embættismönnum svo mikið, að öll starfsemi þeirra verði vitaþýðingarlaus. Ef þeir eiga ekki að gera annað en þeysa um landið og vinna einungis ,,útvortis“ prestsstörf, þá er alveg eins gott að afnema þá alveg. Slíka fækkun væri ekki hægt að skilja öðruvísi en sem einskonar háðsmerki, sem sett væri við kirkjulega starfsemi í landinu, og væri þá betur farið, að ríkið geri hreint fyrir sínum dyrum og skildi hæðnislaust við presta sína.

Um þetta sjerstaka frv. var háttv. þm. (PO) fáorður. Þó hjelt hann því fram, að ýktir væru örðugleikarnir fyrir prestinn að hafa annexíu í Hólssókn, en mjer er fullkunnugt um, að þetta er alls ekki ýkt. Og það er heldur engin mótsögn í því að segja, að þetta hafi versnað við það, að mótorbátar hafa komið í stað árabáta. Við það hafa ferðirnar orðið miklu dýrari og þeim þá stórum fækkað, enda er Bolungarvík að verða meir og meir sjálfri sjer nóg. Áður voru ferðir nær daglega milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, en þegar jeg var fyrir vestan, hafði þeim fækkað mjög. Helst voru þær á laugardögum, en þess á milli engar. Jeg varð því að sitja um ferðirnar, þegar þær fjellu, því að launin leyfðu það ekki að leigja bát fyrir 50–60 kr. Hinsvegar leiðin á landi oftast mjög erfið og hættuleg.

Það er auðvitað ekki nema hálfgerður útúrsnúningur hjá hv. þm. Borgf., þegar hann talar um, að sóknarbörnin setji hátt upp við prestinn, er þeir lofa honum að fljóta ræð. Fargjaldið er ekki tilfinnanlegt, ef ferð fellur á annað borð. Ferðirnar eru bara svo stopular, að stundum er ekki hægt að komast hjá því að kaupa bát. Jeg hafði að þessu leyti betri aðstöðu en presturinn hefir nú, sökum þess að þá var fríkirkjuprestur í Bolungarvík, enda sá jeg fram á, að nær ómögulegt hefði verið að þjóna 1000 manns í viðbót í Bolungarvík, nema með því móti að fara þangað aðeins 3. hvern helgidag og hafa litla viðstöðu. Mjer finst þetta mál ósköp augljóst. Hólssókn hefir um 1000 íbúa, og eru fá prestaköll fjölmennari. Jeg má segja, að hún sje 10. eða 11. í röðinni að fólksfjölda. Þetta kall er líka þannig samsett, að ekki er lítil þörf á að hafa þar sjerstakan prest. Þarna er fjölment sjóþorp og uppvöðslusamur ungdómur. Það þótti bregða við, þegar presturinn fór þaðan, enda er það ekki nema sjálfsagt, að presturinn hafi áhrif til bóta í þessu efni. Fyrir utan þetta sjóþorp er allvíðáttumikil sveit, og síðan annað bygðarlag, en þar á milli er erfiður fjallvegur.

Sem dæmi þess, hvað þessi fjallvegur er talinn varasamur, má nefna það, að sagan segir, að þarna hafi haldist reimleikar miklir, og áttu forynjur að granda mönnum, sem um heiðina fóru. En svo var sett vígð klukka í kirkjuna á Hóli, sem hrakti burtu óvættirnar. Þessi þjóðsaga geymir í sjer þann sannleika, að hjer sje um verulega vondan fjallveg að ræða.

Í þessu bygðarlagi eru um 100 manns, eða álíka margir og í fámennustn sóknum, og væri því ástæða til að hafa þar litla kirkju. En öllu þessu bygðarlagi er svo þjónað, að þar er ein kirkja og þangað kemur presturinn eins og byssubrendur 3. hvern sunnudag, því að heima bíður 3. fjölmennasta sókn á landinu. Það eina, sem gæti bætt þetta upp, er, að auðvelt væri að komast á milli staðanna. En það er síður en að svo sje. Það er t. d. eins og fara ætti að þjóna Akranesi úr Reykjavík, og þó öllu verra. Oft komst jeg í að leggja af stað þegar brimlaust var, en verða svo að snúa við á miðri leið, af því að ólendanlegt var í Bolungarvík. Mjer finst, að svo framarlega sem háttv. þm. viðurkenna, að fullnægjandi prestsþjónusta sje nauðsynleg, verði þeir að vera með frv. Það er náttúrlega hægt að láta einn prest þjóna heilli sýslu eða öllum Vestfjörðum, en ef svo ætti að vera, er líklega sama, hvort nokkur prestur er eða enginn.

Jeg ætla að enda mál mitt með því að segja hv. þm. Borgf., að jafnvel þó að prestum fækkaði niður í 100, þá er eftir sem áður ekki nema sanngjarnt, að Hólssókn fái sjerstakan prest. Frá fjárhagslegu sjónarmiði ber að líta á, hvað Hólssókn leggur mikið af mörkum í prestlaunasjóð. Áður en laun presta voru hækkuð, borgaði Ísafjarðarprestakall öllum prestum í prófastsdæminu, og býst jeg við, að það muni borga tveimur, þótt búið sje að hækka launin.