17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2417 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Árni Jónsson:

Þetta skal aðeins verða stutt aths. Jeg ætla ekki að bera af mjer sakir, heldur ætla jeg að bera af mjer þakkir. Hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) þakkar allshn., en hefir ekki veitt því eftirtekt, að 2 af nefndarmönnum áskilja sjer rjett til að hafa óbundið atkv. um málið, sem sje hv. 2. þm. Eyf. (BSt) og jeg. Jeg skal játa, að það mælir nokkur sanngirni með málinu. Því hefir verið lýst, hversu leiðin sje erfið og hættuleg. Jeg hefi að því leyti tilhneigingu til þess að vera með frv., og það því fremur, sem jeg er persónulega kunnugur prestinum og veit, að hann er ágætismaður. En jeg segi með hv. þm. Borgf., að sje þessu prestakalli skift, er sjálfsagt ástæða til að skifta fleiri prestaköllum hjer á landi.

Jeg vil benda á það, að í Þistilfjarðarlæknishjeraði, þar sem jeg er vel kunnugur, er 1 læknir en 3 prestar. Menn munu samt alment vera þannig hugsandi nú á tímum, að þeim finnist engu minni þörf á lækni en presti. Háttv. þm. Borgf. mintist á sparnaðarnefnd og taldi ekki ólíklegt, að fram mundi koma frv. um aðskilnað ríkis og kirkju. Álít jeg þá ekki rjett að fjölga prestaköllum nú.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) fór mörgum velvöldum og fögrum orðum um, hvað prestarnir hefðu verið nauðsynlegir fyrir þjóðina. Þetta er nú alt gott og blessað, en sannast að segja fæ jeg ekki skilið, hvað það kemur málinu við. Þó að prestarnir hafi áður verið alt í senn, kennarar, prestar og læknar, þá eru þeir það ekki lengur. Hjer er ekki um það að ræða, að þessi prestur eigi að taka að sjer læknis- eða kennarastörf í Bolungarvík. Ef svo væri, mundi jeg greiða frv. atkvæði mitt.

En það er ein hlið, sem ekki hefir verið athuguð á þessu máli, sem sje kostnaðarhliðin. Það er ekki sanngjarnt, að presturinn þurfi að hafa beinan kostnað af að rækja annexíuna. Gæti jeg því felt mig við, að hann fengi einhverja uppbót fyrir að þjóna Hólsprestakalli.