17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Magnús Jónsson:

Það sagði einhver: Atkvæði! Já, það væri kannske alveg rjett að hafa þegar atkvæði um þetta mál, vera ekki að ræða það lengur. Það er auðsjeð, að það á að beita sömu grýlunni við þetta mál sem við svo mörg önnur góð mál, að þingið verði að samþykkja alt, sem hliðstætt er, hversu vitlaust, sem það kann að vera; ef farið sje að fjölga prestum fyrir Ísfirðinga, þá verði að fjölga prestum alstaðar, hvar sem beðið er um það. Þegar þetta sama mál var flutt á þinginu 1921, kom þegar beiðni um skiftingu á öðru prestakalli, og þótti ægileg útsýn opnast, ef svo ætti að ganga. Fyrir þessari beiðni voru flutt ýms góð rök, en það var þó ómögulegt að bera það saman við þetta frv. Jeg skal játa, að það er rjett, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði, að það eru víðar erfiðar annexíur, en það dettur t. d. engum manni í hug að fara að skifta Skálavík frá Ísafjarðarprestakalli, þótt þar væru 100 manns, en ef ofan á örðugleikana bætist, að þar er að ræða um fjölmenna sókn, þá er, svo framarlega sem menn leggja nokkuð upp úr prestsþjónustu, mikið meira í húfi. Og því er hvergi til að dreifa á landinu nema hjer, að annexía sje bæði með þeim erfiðustu og auk þess að fólksfjölda eins og eitt af fjölmennustu prestaköllum landsins.

Jeg efast ekki um, að það er víða um land þörf á að fjölga prestum. Jeg get sagt, að það er mín persónulega skoðun, að prestum hafi verið fækkað um of. Þessi fækkun, sem gerð hefir verið, hefir leitt til þeirrar hrörnunar, sem að ýmsu leyti verður vart við og sem kirkjan er vítt fyrir. Hv. þm. Borgf. sagði, að jeg væri hræddur um, að alt mundi fara í kaldakol, ef prestum væri fækkað mikið meira. Nei, jeg er alveg viss um, að það mundi fara í kaldakol, ef prestum væri fækkað niður í 40. Hv. þm. (PO) tók það sem dæmi upp á blóma kirkjulífsins, að það hefðu verið 3000 messuföll síðastliðið ár, sem jeg þó veit ekki, hvað satt er í. (PO: Það er eftir skýrslu frá synodus). Nú, jæja; það er þá t. d., að einn hríðardagur um alt land gerir um 100 messuföll, og ekki er hægt að kenna daufu andlegu lífi um það. Í því tilfelli er sama, hve blómlegt kirkjulífið er, og hver, sem komið hefir út í íslenskt hríðarveður, veit, að þau verða mörg messuföllin af þeirri ástæðu. Jeg skal fúslega játa, að messuföll hjer á landi eru fleiri en æskilegt væri. En er nokkurt vit í að segja það, ef búið er að skemma einhverja stofnun, þannig að hún er farin að sýna greinileg afturfararmerki, þá eigi að bæta úr því með því að skemma hana ennþá meira? Það er alveg eins og ef maður væri settur í óholla vinnu, og svo færi hann að sýna þess merki, að hann væri farinn að missa vinnuþrek, og þá ætti að setja hann í enn óhollari vinnu. Hv. þm. Borgf. sannaði vel mál mitt með því að draga þetta inn í það, en hinsvegar vil jeg ekki láta draga svo vitlausa ályktun, sem oft er dregin af þessum 3000 messuföllum, að þarna sje um að ræða 3000 vanrækslusyndir hjá íslenskum prestum.

Þá var hv. þm. (PO) að tala um hlunnindin við Ísafjarðarprestakall, þar sem heimatekjur væru svo miklar, en heimatekjurnar væru metnar lágt. Heimatekjur Ísafjarðarprestsins eru eftirgjald eða afborgun af jörðunum Eyri og Stakkanesi, og prestsmata frá Hóli í Bolungarvík. Afgjaldið er hreint peningagjald, og er því hvorki hagur nje óhagur að því fyrir prestinn. Prestsmötugjaldið er á hinn bóginn svo lítið, að jafnvel þótt gengið sje út frá of lágu mati á smjöri, þá getur það aldrei numið meiru en 20–30 krónum eða svo. Þá talaði hv. þm. (PO) um nokkuð, sem freistandi væri að ræða nokkru nánar, því að þar sprakk sparnaðarblaðran, eins og oft vill verða hjer á þingi, þegar hv. þm. (PO) fór að tala um aðskilnað ríkis og kirkju. Jú, þá fyrst myndi nú ljetta á ríkissjóði, en við skulum svo líta á eftir nokkur ár, þá mundi það sjást, að þjóðkirkjan er stórkostleg sparnaðarstofnun. Ef fríkirkja kæmist á fót, þá mundu vera komnar 3–4 kirkjur á Akranesi, 6–7 á Ísafirði og fjöldi hjer í Reykjavík og prestur við hverja kirkju. Jeg þekki þetta vel, því að jeg hefi sjálfur búið undir fríkirkjufyrirkomulagi. Það getur vel verið, að það hafi geysimikla kosti að hverfa frá þjóðkirkju til fríkirkju; það getur fyrir mjer haft alla kosti, nema sparnað. Þann kost hefir það áreiðanlega ekki, og ef á að innleiða fríkirkju, þá er það ekki til sparnaðar, heldur af trúmálaáhuga; og ef menn vilja, að þjóðin leggi 5–6-falt meira til kristnihalds, er ekkert við því að segja, nema að það er alveg fráleitt, að það sje til sparnaðar fyrir þjóðarheildina.