15.04.1925
Efri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2439 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Frsm. (Eggert Pálsson):

Háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ) andar á móti þessu frv., og þótti mjer svo, sem aðalástæða hans væri sú, að frv. þetta mætti ekki samþykkja með því að þá mundi vera skapað fordæmi til þess að fjölga prestaköllum ennþá meir framvegis. Þetta held jeg þó, að ekki sje rjett á litið. Og ef hv. þm. athugar mál þetta betur, mun hann sjá, að óvíða annarsstaðar á landinu munu finnast svipaðar ástæður og hjer eru fyrir hendi. Jeg viðurkenni að vísu, að sumstaðar á landinu eru til erfiðleikar, sem geta dálítið samrýmst þessum. En þó svo sje, mun hvergi annarsstaðar vera um jafnmikinn mannfjölda að ræða og þann, sem hjer um ræðir.

Hjer verður á það að líta, að fólksfjöldinn er afarmikill. Á Ísafirði búa á 3. þús. manna og í Bolungarvík um 1 þús. manna, og það má ætla, að þeim fjölgi fremur en fækki þarna, eins og í öðrum sjávarplássum. Og þetta er því ekki saman berandi við það, þó fyrir kunni að finnast svipaðar vegalengdir og þessar til sveita, þar sem fólksfjöldinn aðeins skiftir nokkrum hundruðum manna. Jeg hygg því enga hættu á framvegis, þó einhver frv. kæmu fram um fjölgun prestakalla, að hægt verði með neinum rjetti að benda á samþykt þessa frv. sem fordæmi.

Þetta, sem hv. þm. mintist á, um sameiningu Bolungarvíkur við Súgandafjörð, lá einnig fyrir nefndinni, og er henni því kunnugt um þá uppástungu. En þeir menn, sem best þekkja til á þessum slóðum, telja slíkt hartnær ókleift og segja, að slík samsteypa yrði sama sem að fara úr öskunni í eldinn. Þá tækju sömu örðugleikarnir við þar á milli að því er prestsþjónustu snertir og nú er við að stríða frá Ísafirði. Presturinn yrði að sitja í Bolungarvík og hafa Stað í Súgandafirði fyrir annexíu, og yrði þá jafnerfitt fyrir Bolungarvíkurprest að sækja til Súgandafjarðar og nú er fyrir Ísafjarðarprest að sækja til Bolungarvíkur.

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) sagði eitthvað á þá leið, að ekki væri að sjá, að Ísafjarðarpresturinn væri mjög önnum kafinn, þar sem hann hefði nú önnur störf á hendi en prestsstörfin. Þetta sannar raunar alls ekkert um það, að hann hafi ekki nóg að gera sem prestur, og meira en það. Prestur, sem á að veita prestsþjónustu um 3 þús. manns, eins og er nú á Ísafirði og Hnífsdal, hefir sýnilega nægilegt að gera, hvað þá þegar hann á líka að gegna prestsverkum á fjarlægum stað með alt að 1 þús. manns, eins og nú er í Bolungarvík eða Hólssókn. Að hinn núverandi Ísafjarðarprestur hafi nóg verkefni fyrir hendi sem prestur, liggur í augum uppi. Að hann hefir bætt við sig öðru starfi, á sjer því rót í öðru en því, að hann hafi ekki sem prestur nægilegt að gera. Jeg held einmitt, að hann hafi verið neyddur til að fá sjer þetta aukastarf, sem hann hefir tekist á hendur, til að standast þann gífurlega kostnað, sem ferðalög hans hafa í för með sjer.

Ef skiftingin næði fram að ganga, myndi honum verða kleift að sleppa þessu aukastarfi, þar eð hann losnaði þá við kostnaðinn, sem af ferðalögum hans sem prests leiðir, en annars ekki.

Jeg sje ekki ástæðu til að tala frekar í þessu máli, enda vona jeg, að það eigi sjer vísan framgang hjer í deildinni.