07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Auðunn Jónsson:

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. (KIJ) hefir skýrt frá þeim ástæðum, sem vöktu fyrir minni hl. nefndarinnar um að bera fram styrk til mjólkur fjelagsins Mjallar, og hv. frsm. (KIJ) hefir lýst því, að minni hl. vilji sjerstaklega hlynna að þessu fyrirtæki með því að samþykkja 10% verðtoll á innfluttri mjólk, en það viljum við, meiri hl. nefndarinnar, með engu móti samþykkja, vegna þess að í sjóþorpum landsins er oft ekki með nokkru móti hægt að ná í innlenda mjólk, og þó að það sje kannske hægt, þá er hún svo dýr, að ekki er hægt fyrir fátækt fólk að nota hana. Auk þess er varla hægt að geyma innlenda mjólk nema svo sem eitt dægur; en eins og allir vita, er hægt að geyma útlendu mjólkina í fleiri daga, ef dósin er látin standa í köldu vatni. Þess vegna er það, að meiri hl. nefndarinnar vill veita verðlaun fyrir niðursuðu mjólkur hjer á landi, en alls ekki stuðla að því, að fátækum þurrabúðarmönnum sje gert enn erfiðara fyrir með að afla sjer þessarar nauðsynlegu fæðutegundar.

Jeg var andvígur þessu fyrirtæki, þegar til þess var stofnað og sótt um styrk til ríkissjóðs handa því. Jeg þóttist sjá það fyrir, að erfitt yrði að sjóða niður mjólk og keppa við hina erlendu, vegna þess að þeir, sem sjóða niður í útlöndum, fá hráefnin miklu ódýrara, og svo er ýms kostnaður miklu minni en hjer. En þar sem fjárveitingavaldið hefir að nokkru leyti hvatt þessa menn til þess að stofna þetta fyrirtæki, þá finst mjer ekki nema sjálfsagt, að fjárveitingavaldið styrki það í byrjun, því að það er ábyggilegt, að þeir geta ekki soðið niður mjólk þar í Borgarfirði, nema með því að selja hana nokkru dýrara en útlenda. Það eina, sem gæti hjálpað þeim, er, að þeir fengju verðlaun fyrir framleiðslu sína, en þó er hvorugur kosturinn góður, að leggja fram fje úr ríkissjóði, nje heldur að hækka verðið um 10 aura á dósinni fyrir þeim, sem þurfa að nota útlenda mjólk hjer. Jeg hygg því, að meiri hl. fjhn. verði andvígur þessari till. og haldi fast við till. sína á þskj. 290, að minsta kosti veit jeg það um flesta hv. þm. í meiri hl. nefndarinnar.

Hæstv. fjrh. (JÞ) gat þess, að svo gæti farið, að verðfallið yrði það mikið á erlendri niðursoðinni mjólk, að þetta fyrirtæki gæti ekki unnið á árinu 1926; en verði það, þá verða heldur ekki greidd nein verðlaun fyrir framleiðsluna. Það er aðeins með því skilyrði, að þeir vilji og geti haldið áfram, að þeir fá þessi verðlaun, sem hjer er um að ræða.

Þá mintist hæstv. fjrh. á till. fjvn. um eftirgjöf á láni til brimbrjótsins í Bolungarvík, og virtist mjer sem hann teldi, að þessi till. ætti ekki að ná samþykki hv. deildar. Mjer þótti það því undarlegra, sem hann í öðru máli, Skeiðaáveitumálinu, talaði svo sem hann áliti best að taka sem fyrst eitthvað af þeim sköðum, sem orðið hefðu á fyrirtækjum einstakra hjeraða sem stofnað hefði verið til á stríðsárunum, og vil jeg taka undir það með hæstv. fjrh., því að þeir, sem búa í Hólshreppi og á Skeiðaáveitusvæðinu, líða mikið við þessar ráðstafanir, sem án þeirra tilverknaðar urðu stórum dýrari en áætlaðar voru í upphafi, og álít jeg því rjett, að þingið taki nokkurn þátt í þeim erfiðleikum, sem þessi hjeruð eiga við að búa, og mig furðar á því, að hæstv. fjrh. virtist líta svo á, að brimbrjóturinn væri ekki hliðstæður við Skeiðaáveituna. Hæstv. fjrh. sagði, að það væri komið undir fjármagni hreppsins, hvort hann gæti gert við brimbrjótinn. Jeg hygg, að hæstv. fjrh. myndi neita um eftirgjöfina, þangað til hann væri viss um að endurbótin væri gerð, og það tel jeg líka rjett og sjálfsagt, að þá fyrst komi eftirgjöfin, þegar búið er að endurbæta brimbrjótinn.

Í sambandi við þetta mál vil jeg geta þess, að jeg get fylgt vatill. hæstv. fjrh. á þskj. 317, um að binda styrkveitinguna til Skeiðaáveitufjelagsins því skilyrði, að veðdeildarlánsgreiðslur fyrir árin 1924 og 1925 verði eftirgefnar af Landsbankanum. Þetta er einmitt sú leið, sem jeg benti á við 1. umr. þessa máls, og tel jeg, að Landsbankinn geti tæplega skorast undan því að veita þessa eftirgjöf, þar sem ríkissjóður jafnframt gefur fyrirheit um styrk eða aukið fjárframlag.

Viðvíkjandi brtt. minni á þskj. 290 um styrk til ábúandans á Arngerðareyri, til að halda uppi gistingu, vildi jeg aðeins bæta því við, að það eru komin meðmæli og eindregnar áskoranir frá sýslunefndarmönnum í Norður-Ísafjarðarsýslu um að veita þennan styrk. Mjer þykir það dálítið undarlegt, ef veittir eru styrkir í sama augnamiði þar, sem jeg get sýnt, að þörfin er minni, en látið sitja á hakanum þar, sem hún er meiri. Trúi jeg því ekki fyr en jeg sje atkvgr., að hv. þdm. sýni slíkt misrjetti í styrkveitingum.