08.04.1925
Neðri deild: 54. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2450 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

100. mál, sala á prestsmötu

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Jeg ætla ekki að lengja mikið umr. um þetta mál, en það, sem hv. frsm. meiri hl. (BL) sagði, kemur ekkert málinu við. Kvaðir, sem lagðar eru á kirkju, koma ekki prestinum við. Nei, ef tekjur kirkna eru of litlar, þá verður að útvega kirkjunum annan tekjustofn, og skal jeg ekki spilla því. Ein kirkja fjekk eftirgefið stórfje sem verðlaun fyrir bóndann. Kirkjan hafði alt of litlar tekjur.

Jeg skal styðja hv. frsm. meiri hl. og aðra, sem vilja hlynna að kirkjunum með tekjum, en jeg get ekki fallist á, að það komi þessu máli neitt við.

Prestarnir mundu tapa á því að hafa prestsmöturnar áfram, sagði háttv. frsm. meiri hl. Þetta er þá kannske gert af einskærri umhyggju fyrir prestunum, að vilja kaupa mötuna nú, til þess að þeir eigi ekkert á hættu eftir 1929. (BL: Er það ekki kristilegt hugarfar ?). Jú, að vísu, en jeg efast um, að það kristilega hugarfar hafi stjórnað þessu. Hjer er um að ræða, hvort sanngjarnara sje að miða verðið við verð á smjöri 10 árin næst á undan, eða við einhvern tíma löngu umliðinn. Það er einungis þetta, sem um er að ræða að meta. Jeg vona, að hv. þdm. láti ekki villa sig, með því að farið sje út í aðra sálma, sem ekki koma málinu við.