08.04.1925
Neðri deild: 54. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (1537)

100. mál, sala á prestsmötu

Hákon Kristófersson:

Jeg þarf ekki að vera fjölorður. Jeg vildi aðeins þakka hv. fjhn. og þeim, sem hafa sýnt þá sanngirni að vilja láta málið ná fram að ganga. Hinir geta ekki búist við þakklæti frá mjer, en jeg vona, að mótstaðan verði ekki svo mögnuð, að hún geti spornað við því, að frv. verði samþykt.

Hv. frsm. minni hl. (MJ) rakti söguleg atriði þessa máls, sem jeg er ekki svo fær að geta hrakið, enda kemur það ekki málinu við. Jeg skal fúslega játa, að það er ekki tilgangur minn að stuðla að því, að prestar græði á þessu. Mjer gekk það eitt til að færa í lag þá agnúa, sem mjer þótti vera á prestsmötulögunum frá 1921. Þótt frv. nái fram að ganga, er á engan hátt gengið á hag ríkissjóðs. Prestar eru vel launaðir menn, og ekki ástæða til að láta þá hafa neina sjerstaka ívilnun að þessu leyti. Jeg verð að segja það, að ef slík ívilnun getur orðið að ágreiningsefni hjer, þá er ekki síður ástæða til, að hitt verði að ágreiningsefni, að haft sje á móti því að sýna viðkomandi prestsmötugreiðendum þá sjálfsögðu sanngirni, sem felst í frv. Þess ber að gæta í sambandi við þetta mál, að það, sem eftir er af óseldum prestsmötum, mun vera ca. 4400 kg. Hugsunarháttur manna er sá, að vilja losa sig undan þessum kvöðum, enda virðist fullkominn þingvilji vera fyrir því, að svo eigi að vera. Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að þessi eign, sem hann tilnefndi, hefði hlotið stóra ívilnun. Hvaða ívilnun? Jeg vil spyrja hv. þm., hvort honum hafi fundist ósanngjarnt að fella niður Maríu- og Pjeturslömbin án endurgjalds. Það er ekki ólíkt þessu. Hinsvegar lít jeg svo á, að annað samband sje milli safnaða og presta nú en þegar þetta myndaðist. Ríkið hefir tekið að sjer að halda uppi kirkju landsins. Þar af leiðandi ber því skylda til að gera það án þess að láta einstöku menn bera sjerstakar byrðar þess vegna. En ómótmælanlega verður það svo í framkvæmdinni, ef það á að verða svo um aldur og æfi, að einstöku mönnum er gert að skyldu að inna þessa ranglátu kvöð af hendi, kvöð, sem mjög er efasamt, að ríkið eigi nokkurn rjett á, að einstaklingur inni af hendi. Mjer er spurn, — hvað ætti að gera af prestsmötu, ef aðskilnaður yrði milli ríkis og kirkju? Hvert ætti fjeð þá að renna?

Þá vil jeg geta þess, að jeg man ekki eftir mótstöðu hv. þm. gagnvart lagasetningunni um, að prestsmatan á Grund rynni til kirkjunnar. Það er síður en svo, að jeg álíti það ekki sanngjarnt, en samanburður á því og þessu frv. á alls ekki við. Hjer er talað um sölu, sem að nokkru leyti er sanngjörn fyrir kaupendur, en hefði þó átt að vera miklu sanngjarnari, en ríkissjóður ber engan halla af, eins og jeg hefi þegar tekið fram, þegar miðað er við, hvað honum verður úr prestsmötunum til greiðslu á launum prestanna.

Þá sagði hv. þm., að með framkomu frv. væru menn að nota sjer af því, hvernig á stendur með smjörverðið, nefnilega hvað það er hátt. Þetta er ekki rjett. Jeg á ekki lítinn þátt í frv., og get því best um það sagt, að háttv. þm. fer ekki rjett með. En það er annað, sem kom málinu af stað að þessu sinni. Þegar jeg bar saman, með hvaða hætti prestar fá þessa kvöð upp í laun sín og hvernig gjaldendur greiða hana, sá jeg, að vel væri í hóf stilt, að lögunum 1921 væri breytt í það horf, að prestsmötugreigendur ættu kost á að fá hana keypta við sama verði og ríkissjóðnum verður úr henni upp í laun prestanna. Jeg býst við, að hv. þdm. sjeu mjer sammála um, að á alt öðrum grundvelli er að byggja nú, og má í því sambandi minna á brauðasamsteypu o. fl., sem sýnir, að svo er. Það er þetta og fleira, sem verður að leggja til grundvallar: Er sanngjarnt að heimila sölu á prestsmötu, eins og gert er í frv., eða ekki? Það er spurningin, sem háttv. þingmenn verða að leggja fyrir sig, og hver einn að svara henni eftir því, er honum virðist rjettast og sanngjarnast.