08.04.1925
Neðri deild: 54. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

100. mál, sala á prestsmötu

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Jeg ætla fyrst að svara hv. þm. N.-Ísf. nokkrum orðum. Jeg er ekki viss um, að jeg hafi heyrt rjett, en mjer heyrðist hann segja, að prestsmötugjald þyrfti að greiða af jörðum, þótt þær væru í eyði. (JAJ: Gjaldið færist á heimajörðina). Það er ósköp eðlilegt, að svo sje. Þar sem mörg innstæðukúgildi fylgdu stórbýlum, notuðu eigendur vald sitt til þess að setja svo og svo mikið af þeim yfir á hjáleigur og kot í kringum sig, og fylgdi þá prestsmatan með. Þegar svo kotin hafa farið í eyði, færðust þessar kvaðir auðvitað aftur heim til sín. Það er hárrjett, að þegar jarðir leggjast í eyði, hverfa kvaðirnar undir höfuðbólið.

Hv. þm. Barð. (HK) sagði, að ekki væri gengið á hag ríkissjóðs, þótt prestsmöturnar væru seldar lægra verði. (HK: Rangfærsla). Ekki er það hagur fyrir ríkissjóð. Mjer er ekki kunnugt um, hvernig menn losnuðu við Maríu- og Pjeturslömbin. (PO o. fl.: Ókeypis). Jæja, var það ókeypis! Má þá segja, að þar hirti skolli sitt. Á það ef til vill vel við, að vondir menn hrifsi nú aftur til sín frá kirkjunni það, sem góðir menn gáfu henni áður. Hjer er líka farið fram á gjafir. Jarðirnar hækka í verði, því það er vitlaus maður, sem kaupir jörð með kvöð jafndýrt og kvaðalausa.

Hv. þm. mintist á Grundarkirkju. Það er alveg satt, að það er ekki alveg hliðstætt þessu. En það eru ekki allir, sem leggja eins mikið af mörkum og leggja eins mikið á sig og Magnús á Grund gerði.

Það, sem kom hv. þm. Barð. (HK) til að flytja þetta frv., var hinn grátlega mikli gróði prestanna, sem fengju þetta við alt of lágu verði; háttv. þm. viðhafði máske ekki þau orð, að gróði prestanna væri „grátlega“ mikill, en þó var þetta skoðun hans, og er því rjettmætt, þó jeg færi þetta til betra máls. En hver er þá þessi „grátlega mikli gróði“ prestanna? Það er vitanlega ekki annað en fyrirframgreiðsla upp í það mikla tap, sem þeir hljóta að bíða, þegar smjörverðið lækkar.

Jeg held það sje svo óþarfi að vera fjölorðari um þetta, og læt jeg því skeika að sköpuðu um það, hvernig fer um þetta mál, en það hygg jeg, að allir muni sjá, að það er ekki eins mikið sanngirnismál þetta og hv. þm. Barð. lætur í veðri vaka. Hann vill aðeins leyfa sjerstökum mönnum að nota verðlagsbreytingar sjer í hag.