08.04.1925
Neðri deild: 54. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (1539)

100. mál, sala á prestsmötu

Frsm. meiri hl. (Björn Líndal):

Það voru aðeins fáein orð, sem jeg vildi sagt hafa út af ræðu háttv. frsm. minni hl. (MJ). Mjer fanst þar gæta minni mannúðar en jeg annars hefði vænst frá honum. Háttv. þm. taldi hiklaust rjettmætt, að kirkjubændur yrðu að taka á sig skyldur og kvaðir þeirra jarða, sem væru komnar í eyði. Hjer á þá að gilda alt annað rjettlæti en annars gildir um gjöld af fasteignum. Ef jörð eyðilegst eða spillist af náttúrunnar völdum, get jeg heimtað, að nýtt mat fari fram, og á þann hátt fengið hæfilega lækkun á öllum opinberum gjöldum af henni. En prestsmötukvöðina verður maður að sitja með, þótt jörðin sje í eyði og einskis virði. Þetta get jeg ekki talið kristilegt rjettlæti eða guðsmönnum samboðið.