08.04.1925
Neðri deild: 54. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (1541)

100. mál, sala á prestsmötu

Pjetur Ottesen:

Vegna þess að menn hafa hjer farið að rekja hinn sögulega grundvöll þessa máls, þá vildi jeg einnig segja þar fáein orð.

Það mun hafa orðið skömmu eftir siðaskiftin, að þessi prestsmötukvöð komst í núverandi horf, og það með þeim hætti, að kirkjubændur undirgengust að leggja þessa kvöð á jarðir sínar, til þess að leysa sig undan því að halda prest á búi sín.

Nú á síðustu árum hefir það, sem koma átti á móti prestsmötukvöðinni, — tiltekin prestsþjónusta — verið stórum skert, og nægir í því efni að benda á brauðasamsteypurnar.

Það, sem ennfremur gerir prestsmötukvöðina þungbæra og ósanngjarna, er það, að fyrir þær framfarir í búnaði, sem orðið hafa á síðari árum, hefir verð afurðanna hækkað allmikið, og þá einmitt smjörið einna mest, en sú verðhækkun er til orðin fyrir dugnað og atorku bændanna, en ekki fyrir aðgerðir prestanna eða þess opinbera.

Af þessu er það fullljóst, að full sanngirni mælir með því að greiða götu þeirra, sem búa undir þessari kvöð, til þess að losna við hana. Með lögum frá 1921 var prestsmötugreiðendum gert nokkuð hægra fyrir en áður hafði verið um að kaupa þessa kvöð af sjer, en með þessu frv. er allmikið rýmkað til frá því, sem ákveðið er í þeim lögum. Og jeg verð að segja það sem mína skoðun, að jeg teldi fullforsvaranlegt, að þessu prestsmötumáli væri ráðið til lykta á þann hátt, sem gert var um prestsmötuna á Grund í Eyjafirði nú fyrir 3 árum, að þær væru lagðar til viðhalds kirkjunum.