22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

100. mál, sala á prestsmötu

Frsm. (Jónas Jónsson):

Fjhn. hefir orðið sammála um að mæla með því, að þetta frv. nái fram að ganga í þeirri mynd, sem hv. Nd. skildi við það. Eins og hv. þdm. er kunnugt um, er það um breytingar á lögum, sem ekki eru mjög gömul og hafa verið notuð dálítið, en breytingarnar eru í því fólgnar að gera auðveldara fyrir þá, sem búa á jörðum, sem þessi kvöð hvílir á, að kaupa prestsmötuna. Það er öllum kunnugt, að þessar gömlu kvaðir frá miðaldakirkjunni eru smámsaman að hverfa. Prestsmatan er með síðustu leifunum af þeim. Það lágu upplýsingar fyrir nefndinni frá stjórnarráðinu, sem það hafði fengið frá biskupi, um að breytingin mundi leiða til skaða fyrir ríkissjóð að öllum líkindum, en það fer eftir því, hvernig gildi þessarar vörutegundar verður ákveðið framvegis. En það er rjett að gera ráð fyrir nokkrum skaða fyrir ríkissjóð. En aðalástæðan til þess, að nefndin fjelst á þetta, er sú, að okkur var kunnugt um, að þeir menn, sem þessi kvöð hvílir á, hafa á margan hátt illa aðstöðu, þar sem þeir verða að halda við kirkjum, sem oft verður þeim erfiður baggi. Jeg er ekki nægilega kunnugur til þess að geta sagt, að allir verði fyrir skaða, en nefndarmenn vissu annars allir um einstaka menn, sem höfðu orðið fyrir tjóni á þennan hátt. Þetta er fyrir okkur aðalástæðan til þess að hlynna að þessum mönnum. Annars skal jeg taka það fram, að eins og nú stendur á, er þetta ekki reikningslegur skaði, af því að munurinn á framkvæmdum gömlu laganna og þessa frv. er fólginn í því, að hugsanlegt er undir vissum kringumstæðum, að prestur, sem fær mötuna „in natura“, gæti hagnast á henni, ef hann seldi. En spursmálið er, hvort æskilegt væri fyrir presta, að söfnuðurinn hafi þá skoðun, að þeir græði á að versla með smjörið. Þó að það sje að öllu leyti löglegt, tel jeg vafasamt, hvort það er hagnaður fyrir álit presta. Jeg álít heppilegra að bæta kjör presta á annan hát.