22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (1550)

100. mál, sala á prestsmötu

Frsm. (Jónas Jónsson):

Það er ljóst af ræðu hv. 1. þm. Rang. (EP), að hann er mjer sammála um þá hlið þessa máls, er að prestunum veit, og þarf því ekki að reikna með andstöðu af þeim ástæðum; því tap þeirra er óverulegt; enda mælir hv. þm. ekki á móti frv. þeirra vegna. En jeg býst við, þótt hann nefndi það ekki í ræðu sinni, að hann sje mjer einnig sammála um það, að óheppilegt sje, ef það orð kæmist á um presta, að þeir lifi helst á smjörverslun og verði því kallaðir „smjörkaupmenn“. Hv. þm. hefir nú fært fram nokkur rök frá sínu sjónarmiði fyrir því, er hann heldur fram, að ríkissjóður hafi halla af frv., ef það verður að lögum. Þetta hefi jeg þegar játað að sumu leyti, og mun jeg síðar víkja að rökum hv. þm. um þetta efni. Okkur í nefndinni var öllum ljóst, að minna mundi fást fyrir prestsmötu framvegis en hingað til, og spurðumst við því fyrir um álit hæstv. fjrh. (JÞ) í þessu máli og hvað um þetta hefði verið sagt, er málið var til meðferðar í hv. Nd. fyrir nokkrum dögum síðan. En þar höfðu bæði hæstv. fjrh. og hæstv. atvrh. (MG) greitt atkv. með frv.; og hæstv. forsrh. (JM), sem um leið er kirkjumálaráðherra, og málið því heyrir undir, hafði einnig tjáð sig þessu máli hlyntan. Þetta verður því að skiljast þannig, að bæði fyrir hv. Nd. og hæstv. stjórn hafi vakað hið sama og nefndinni hjer, að þessi útlát eða tekjurýrnun ríkissjóðs sjeu rjettlætandi vegna þeirrar kvaðar um kirknaviðhald, sem hvílir á mörgum þeirra manna, er hjer eiga hlut að máli. Það eru og talsverð rök í þessu máli, að núverandi stjórn leggur ekki mikið upp úr tekjurýrnun ríkissjóðs af þessu frumvarpi.

Jeg ætla ekki að fara neitt nákvæmlega út í reikning þann, sem hv. 1. þm. Rang. (EP) lagði hjer fram, því hann er líklegast að mestu bygður á skýrslum biskupsins, og verður útkoman því lík þeirri, er við í nefndinni fengum samkvæmt upplýsingum frá stjórnarráðinu. Það má víst segja hið sama um þennan útreikning hv. 1. þm. Rang. og dæmt hefir verið um reikningsfærslu bónda nokkurs í kjördæmi þessa sama hv. þm. Þessi bóndi „sýndi og sannaði“ með útreikningi sínum, að hann hefði byrjað búskap eignalaus og búið allmörg ár við engin efni og altaf tapað meira og minna á hverju ári, en þó var hann orðinn allvel efnum búinn, er hann ljest. (EP: Það voru engin svik í þessu; þetta var alveg rjett). Þetta þykir nú mörgum allundarleg útkoma; þótt máske megi verja þetta reikningslega sjeð, verður það þó ávalt torskilið, að menn geti orðið efnaðir á því einu að tapa. Þetta sýnir því ekki annað en það, að það má ekki byggja of mikið á öllum útreikningum, enda þótt þeir kunni að vera stærðfræðilega rjettir. Þannig hygg jeg og, að sje varið þessum útreikningi hv. 1. þm. Rang. Jeg hefi nú sýnt fram á, hvers vegna það var, að jeg sætti mig við þetta tap ríkissjóðs, sem leiðir af þessu frv., og fært fram ástæður mínar fyrir því, Þá fer hv. 1. þm. Rang. ekki nákvæmlega rjett með sum atriði í þessu máli. Hann segir t. d., að söfnuðirnir hafi víðast hvar tekið að sjer kirkjurnar. Jeg hefi því miður ekki getað aflað mjer upplýsinga um það, hve margar kirkjur eru í höndum safnaða og hve margar bændakirkjur eru eftir, en jeg þekki þó allmarga kirkjubændur, er þurfa að viðhalda kirkjum sínum, og söfnuðirnir eru ekki óvíða of skynsamir til þess, að þeir vilji taka við kirkjunum, en vilja heldur láta þessar kvaðir haldast við á þessum mönnum, og er jeg alls ekki að ámæla söfnuðunum fyrir þetta. Jeg hefi spurst fyrir um það hjá nokkrum kirkjubændum, hvort þar standist á kostnaðurinn við viðhald kirknanna og tekjur kirkjubændanna, þ. e. kirkjugjöldin frá sóknarmönnum, og svarið hefir verið skýlaust nei, — þeir hafi skaða af kirknaviðhaldinu og fái ekki söfnuðina til að taka tillit til þess.

Jeg þekki dæmi um þetta úr minni sveit, — Ljósavatn, — þar sem jeg má fullyrða, að ekkert tillit hefir verið tekið til þessarar kvaðar við sölu eða mat á jörðinni. Þetta er og ekki undarlegt í sumum sveitum, þar sem stundum er kepni talsverð um stærstu jarðirnar, og sjást menn þá ekki ætíð fyrir, þó ekki sje tekið tillit til þessara kvaða á jörðunum. En þetta verður til þess, að kvaðir þessar verða hreinn og beinn þyngslabaggi á þeim, sem að síðustu verða svo hepnir eða óhepnir að hreppa þessar jarðir.

Um smjörverslunina var því sama haldið fram í háttv. Nd., að sumstaðar væri prestsmatan metin undir verðlagsskrárverði, og er þetta eitt af því, sem gerir það erfitt að byggja raunverulega útreikninga á þessum greiðslum, er verðlagsskrárverði er ekki fylgt, en sitt matið gildir í hverju hjeraði, og gerir það mikinn rugling, og þess vegna er hv. 1. þm. Rang. samþykkur mjer prestanna vegna, að því leyti, sem málið kemur þeim við. (EP: Ofmælt). Jæja, jeg legg ekki svo mikið upp úr skoðun prestanna á þessu, en jeg vil benda á, að þess eru mörg dæmi, að maður, sem slíka kvöð hefir átt að inna af hendi og hefir ekki haft til nóg smjör, hefir óskað eftir að mega gjalda þetta eftir mati, en margir prestar hafa neitað og krafist smjörs síns undanfærslulaust, vegna þess, að þeir hafa þóst geta fengið sjálfir hærra verð fyrir smjörið en matið mundi verða, og hvað sem háttv. 1. þm. Rang. annars álítur um þetta, þykist jeg vita, að hann sem prófastur í Rangárvallaprófastsdæmi vilji gera sitt til að firra prestastjettina ámæli vegna smjörverslunartilhneigingar þeirra. En það er óþægilegt fyrir presta, að þetta orð komist á þá, og það er einmitt til þess að losa þá við þessar freistingar og álitshnekki, að jeg álít best, að frv. gangi fram. Það, sem á milli ber í þessu máli, er það, að allflestir, og þar á meðal nefndin, álíta, að þar sem margir menn hafa keypt eða eignast á annan hátt þessar jarðir án tillits til kvaða þeirra, er á þeim hvíldu, og hafa því haft skaða af viðhaldi kirknanna, þá eigi ekki að fara strangt út í þá reikninga, þó þessi kvöð verði eitthvað ljettbærari framvegis, ef frv. gengur fram, en hv. 1. þm. Rang. (EP) álítur, að landið. þ. e. ríkissjóður, hafi of mikið tjón af þessu. Það er og sennilegt, að ríkissjóður tapar einhverju við frv., en það eru engin rök fyrir því, að það verði neitt í þá átt, sem hv. þm. álítur, enda leggjum við heldur ekki svo mikla áherslu á það, heldur á hitt, að frv. bætir úr gömlu ranglæti. Og hæstv. stjórn hefir einnig fallist á þetta og styður frv. Háttv. 1. þm. Rang. (EP) hefir játað, að hann mæli ekki á móti frv. vegna hagsmuna prestanna, en jeg hefi sýnt fram á, að smjörverslun þeirra sje þeim til álitshnekkis, og þess vegna mæli jeg ákveðið með því, að frv. verði samþykt.