22.04.1925
Efri deild: 58. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (1551)

100. mál, sala á prestsmötu

Eggert Pálsson:

Jeg vil aðeins geta þess, að jeg hefi gert mitt til, að það sjáist, að rangt sje að ganga blindandi að þessu máli. Jeg hefi sýnt hjer útreikning yfir það, sem frv. mun kosta ríkissjóð, og verður þeim útreikningi alls ekki mótmælt með gildum rökum. Þar sjest, að ef öll sú prestsmata, sem nú er óseld, yrði seld samkv. frv., mundi tap ríkissjóðs nema um 84 þús. kr. Mjer er því nóg, að þetta hefir komið hjer fram, og svo geta hv. þdm. áttað sig á því, hvað þeir vilja gera við frumvarpið.

Hvað viðvíkur því, sem hv. 5. landsk (JJ) sagði um, að viðhald kirknanna hvíldi á kirkjubændunum, þá veit jeg ekki til, að þeir hafi þurft að leggja fram fje frá sjálfum sjer til viðhalds kirkjunum (JJ: Þegar þeir hafa bygt þær). Nei, þeir hafa að jafnaði tekið lán til þess og þau lán hafa jafnaðarlega lent á söfnuðunum við afhending kirknanna. Í mínu prófastsdæmi eru bændakirkjur fáar, og mun skamt að bíða, að þær verði afhentar söfnuðunum, sem eftir eru. Ef þetta prestsmötugjald ætti að leggjast til kirknanna sjálfra, eins og t. d. var gert að því er snertir Grundarkirkju í Eyjafirði, væri það alt annað mál, og mundi jeg þá taka á annan veg í það. Jeg viðurkenni að vísu, að eigendur bændakirkna hafa fyrrum orðið allhart úti, en þetta lagaðist mikið á þinginu 1923, er kirkjugjaldið var hækkað úr 75 aur. upp í kr. 1,25, og svo verður á það að líta, að þessar kirkjur hafa og sjerstök rjettindi fram yfir safnaðakirkjurnar, þar sem er sönggjaldið og kirkjugarðsgjaldið, sem þar hvílir sjerstaklega eða aukreitis á söfnuðunum.

Að það sje háskalegt fyrir presta að njóta þessara tekna, getur að vísu átt sjer stað, en jeg þekki engin dæmi til, að vandræði hafi orðið úr því. Jeg veit ekki til annars en að prestar hafi verið fúsir til að leyfa þessar greiðslur samkv. verðlagsskrá. En þá verður vitanlega að vera til um það fastur samningur við prestinn, því engin sanngirni er í því, að farið sje að hlaupa til að greiða þetta. eftir verðlagsskrá aðeins þau árin, sem verð á smjöri er þannig, að presturinn hafi heldur óhag af því að fá þessar greiðslur þannig goldnar,

Hitt býst jeg við, að hver prestur gangi góðfúslega inn á. Jeg hefi aldrei lent í slíku stappi. Á Breiðabólsstað var í fyrstu um 1800 pd. af smjöri, sem greiðast áttu í leigu af jörðum og nokkuð sem prestsmata. (JJ: Það er of mikið fyrir eitt heimili). Komst jeg ætíð vel út úr þeim viðskiftum. Jeg tók við smjöri, ef það var til, en ella tók jeg við peningagreiðslum, sem voru miðaðar við það, að gjaldendur biðu engan skaða, oftast 25–50 aur. og jafnvel stundum 75 aur. lægra verðið á pundinn en gangverðið var það árið. Þetta voru allir vitanlega ánægðir með. Þetta þarf því ekki að valda neinum óþægindum eða verða sundurþykkjuefni milli prests og safnaðar. (SJ: Ef aðeins allir prestar væru jafnsanngjarnir og hv. 1. þm. Rang.). Jeg veit með vissu, að þetta er ekki einsdæmi. Jeg veit, að þetta er svo og hefir verið í mínu prófastsdæmi.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að ræða um fleira í þessu sambandi. Jeg mun ekki greiða frv. atkv. mitt, því jeg tel þetta óþarfa örlæti við menn, sem eru engir gustukamenn. En hv. 5. landsk. (JJ) gerir þetta að kappsmál fyrir sjer. Honum finst það svo sjálfsagt og nauðsynlegt að hlynna að jarðeigendum þeim, sem hjer eiga hlut að máli. En þetta skil jeg ekki vel, allra síst í sambandi við framkomu hans í öðru máli, sem nýlega var hjer fyrir deildinni. Ef menn setja það fyrir sig að selja heilum hreppi eða bæjarfjelagi lóð, sem það býr á, gegn fullkomnu mati, sem Alþingi og á síðasta orðið um, svo sem ástatt var með frv. um heimild til sölu á lóð Vestmannaeyja, þá skil jeg ekki, að þeir hinir sömu þurfi að líta svo mjög á hag þessara manna, sem hjer eiga hlut að máli, sem allir eru fasteignaeigendur og flestir munu vera auk þess í góðum álnum.