07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg ætla að byrja að lýsa því yfir, að jeg ætla að vera með styrk þeim til sandgræðslu, sem nefndur er á þskj. 299. Mjer blæðir ávalt í augum, er fjárveitingavaldið veitir meira fje til að stjórna einhverju verki en til sjálfra framkvæmdanna. En svo er um sandgræðsluna, að þar fer meira fje til að stjórna framkvæmdunum en þær kosta. Nú er vitanlegt, að mikið nauðsynjaverk er að græða upp sandana austur þar, og því á Alþingi ekki að skera svo mjög við neglur sjer fje það, er fara á til framkvæmdanna.

Jeg ætla líka að fylgja brtt. þess hv. þm. (AJ), er nú var að ljúka máli sínu. Jeg man eftir því, að Cicero segir á einhverjum stað, að betra sje að 10 sekir sleppi en að einn saklaus sje dæmdur. Sama er álit mitt í þessu efni; jeg vil hjálpa þeim mönnum, er bæta vilja verkfæri eða finna önnur hentug upp, er verða megi bændum að sem mestu gagni í ræktun landsins. Jeg vil styrkja 10 menn til slíkra starfa, þó jeg viti, að 9 verði ónýtir, svo vissa sje fyrir því, að sá eini hæfi geti notið sín.

Þá ætla jeg að snúa mjer að hv. frsm. síðari kaflans (TrÞ) og ummælum þeim, er hann hefir haft um brtt. mínar. Um stúdentagarðinn talaði hann harkalega, lagði á móti mínum brtt., en talaði þó ekki mikið fyrir sinni brtt. Geymi jeg því að svara honum þangað til jeg kem að hæstv. fjrh. (JÞ) og ummælum hans í þessu sambandi.

Jeg get þá eins minst á Skeiðaáveituna, ekki þó til þess að andmæla brtt., því með henni er jeg, heldur er það eitt atriði í því máli, sem mjer er farið mjög að leiðast og hv. frsm. síðari hlutans (TrÞ) kom ennþá að. Það er þetta eilífa tal um „klöppina óbilgjörnu“. Mjer finst undarlegt, þó að menn hafi rekið sig á þessa klöpp, að vera altaf að tala um hana, eða að ríkissjóður beri sjerstaka ábyrgð á verkfræðingunum, sem ekki ráku sig á hana í öndverðu. Jeg hefi allaf verið þessari áveitu fylgjandi. Og nú vita allir, að hún hefir kostað margfalt meira en ætlast var til í upphafi og að bændunum, sem eiga að njóta hennar, er ofvaxið að standast kostnaðinn. Jeg vil styrkja bændurna, svo þeir geti aukið bú sín og margfaldað arðinn af þeim og áveitunni. Þá er einhver von um, að þeir geti, er stundir líða fram, greitt kostnaðinn og klöppina. En eins og málið horfir nú við, þá leiðist mjer þetta „klappartal“. Jeg vil bjarga bændunum til þess að auka arð sinn, svo að þeir lendi ekki á vonarvöl.

Þá mintist hann á styrkinn til búnaðarfjelaganna, og kom þá með prikið, af því að jeg hafði sagt í gamni um þá fjármálastefnu þingsins að greiða upp lausu skuldirnar á næstu árum, að það væri eins og þegar krakkar ætluðu að ríða á priki. Jeg hefi játað, að jeg hafi jafnan viljað styrkja Búnaðarfjelag Íslands, þó jeg hinsvegar væri ekki viss um, að styrk þeim væri altaf sem best varið eða hann notaður sem skyldi. En hitt veit jeg, að búnaðarfjelögin hafa ætíð varið þeim litla styrk vel, er til þeirra hefir hrotið frá Alþingi, og svo mun enn verða, eins og bæði hv. þm. Ak. (BL) og fleiri hv. þm. hafa tekið fram, að þeir telja, að styrkur þessi hafi orðið til mikilla búnaðarbóta og örvað marga bændur til þess að bæta jarðir sínar á ýmsa lund.

Hann sagði, hv. frsm. síðari hl. (TrÞ), að sumstaðar ætu búnaðarfjelögin styrkinn upp; en þó að hann þekki einhver slík dæmi, sem jeg efast þó um, þá eru hin fjelögin miklu fleiri, sem styrkurinn hefir orðið að miklu gagni. Hann sagðist vera þessu kunnugri en jeg og vita betur, en því svara jeg, að hvorugur okkar mun vita, hvað mikið hinn veit í þessu efni.

Annars hefir hv. þm. Borgf. (PO) andmælt þessari skoðun hv. frsm. (TrÞ), eins og hans var von og vísa, svo jeg þarf ekki miklu þar við að bæta.

Slíkur styrkur, sem hjer er nefndur, mun reynast fjelögunum hollur og bændum til bjargar, því þá þurfa þeir ekki að taka lán, eins og vaxtakjörin eru erfið nú um stundir. Þess vegna ætti hv. frsm. (TrÞ), ef hann er slíkur stuðningsmaður landbúnaðarins eins og hann vill vera láta, að greiða þessari brtt. minni atkvæði. Enda er mjer óskiljanlegt, hvernig hv. þdm., þeir sem landbúnaði unna, vilja skuldbinda sig til þess að vera móti þessari styrkhækkun. Jeg er ekki að koma neinum í vanda með þessu; það er hægurinn hjá að samþykkja brtt. Jeg hefi borið fram þessa fjárveitingu vegna þess, að það hefir gefist vel að trúa búnaðarfjelögunum fyrir fje til jarðabóta. Hitt er ekki víst, að Búnaðarfjelag Íslands, sem forstöðu hefir allra stærri ræktunarmála í landinu, hafi að jafnaði augun opin fyrir því, hvað arðberandi sje eða hvað gera þurfi til þess að jafnhliða og ræktun eykst í stórum stíl, þá þurfi bústofninn að aukast, svo arður fáist af því mikla starfi, sem búið er að vinna.

Það er ekki einhlítt að gera stórar og víðáttumiklar áveitur, ef pening vantar á eftir á jarðirnar til þess að jeta grasið.

Það má vera, að búmenn þessarar hv. deildar hlæi að þessum kenningum mínum, og læt jeg mjer það á sama standa, en jeg treysti mjer að finna marga góða bændur og búmenn þessa lands, sem hlusta mundu á þetta án þess þeim kæmi hlátur í hug.

Það var margt í ræðu hæstv. fjrh. (JÞ), er jeg sje ástæðu til að svara, og ætla jeg þá að byrja á kreppunni, sem honum virðist mesta alvörumálið. Mjer skildist eftir kenningu hans, að kreppunni væri líkt háttað og snúningi jarðarinnar, eða, að eins víst væri og að jörðin snerist, að kreppa kæmi á eftir góðæri. Jeg þori ekki að vjefengja slík vísindi og þetta, en bæti þó við, að ef snúningur jarðarinnar er sambærilegur í þessu efni, þá verður kreppan að vera jafnfljót, og ætti þá eftir því að vera kreppa á hverju ári. Nú er liðið ár síðan kreppunni lauk, og varla að búast við, að hún hefjist aftur á næsta ári. Það skiftir engu máli, hvort sú kreppa, sem stóð fyrir nokkrum árum, stafaði af klaufaskap eða óáran. Stjórn og bankar sáu ekki fyrir hana í það sinn, og það gat enginn sjeð; þess vegna er óþarfi að tala um klaufaskap. En hvað sem því líður, þá er ástæðulaust að gera ráð fyrir, að kreppan þurfi að koma strax, hvað þá að telja það óyggjandi, að svo muni verða.

Þá þótti mjer undarlegt það, sem hæstv. fjrh. sagði um Skutilsfjarðareyri. Hann sagði, að það væri lagabrot, sem farið væri fram á með brtt. Jeg get ekki sjeð, að það sje lagabreyting, að staður þessi fái aftur sitt forna nafn, er Danir hafa afbakað á seinni öldum; en hann hjet áður og frá öndverðu Eyri við Skutilsfjörð. Hjer er því ekki um neina lagabreytingu að ræða, þó nafnið sje fært til rjetts máls í fjárlögunum. Nema hæstv. fjrh. álíti, að lögin eigi við þann Ísafjörð, sem Laugaból stendur við, þá er það breyting á lögum. En sá Ísafjörður er einn af þeim mörgu fjörðum, er skerast suður í landið úr Ísafjarðardjúpi, og heita þeir þetta: Álftafjörður, Seyðisfjörður, Hestfjörður, Skötufjörður, Mjóifjörður og Ísafjörður.

Hjer er því alls ekki um neitt lagabrot að ræða. Þessi staður er Eyri við Skutilsfjörð, sem áður var jafntítt að nefna Skutilsfjarðareyri, en Ísafjörður eða Ísafjord er seinni alda uppnefni.

Þá var ekki síður brosleg sagan, sem hann var að segja um strák, sem hafði í frammi nafnagiftir og var sóttur að lögum fyrir tiltækið. Gerðist þetta víst í hjeraði hans á Vatnsnesi eða í Vesturhópinu, og er ekki annað að sjá en að mjög hafi þeir menn verið strangir í siðum, er þessu gamni vildu hegna. En dæmi þetta sannar ekkert um, að fjvn. hafi ekki á rjettu að standa. Í brtt. hennar er ekki um neinar nafnagiftir að ræða, þó að maður sje kendur við föður sinn. Sjerhver maður heitir skírnarnafni, en er sonur föður síns. Jeg hefi sjeð svo marga skírnarseðla og veit, að þetta er rjett. Jeg heiti Bjarni og er Jónsson, og hæstv. fjrh. heitir Jón og er Þorláksson. Hann um það, hvort hann vill láta framfylgja því, að höfðað verði sakamál gegn fjvn. fyrir að tilgreina feður þeirra manna, er styrks eiga að njóta í fjárlögum. Jeg er að minsta kosti óhræddur við þá sakamálsrannsókn og býst ekki heldur við, að stjórnin sýni þá rögg af sjer.

Þá talaði hæstv. fjrh. um stúdentagarðinn og mælti á móti brtt. minni. Mjer kom þetta dálítið á óvart, vegna þess að hann þekkir, engu síður en jeg, hve nauðsynlegt það er ungum námssveinum að vera saman í heimavist. Við höfum báðir alist upp í heimavistarskóla og munum, hvað það laðaði sveinana saman að sofa undir sama þaki og tala um áhugamál sín hvenær sem færi gafst við sjer snjallari og þroskaðri. Þetta var talin góð mentun og um þetta höfum við verið sammála. Síðan við fengum háskólann hafa stúdentarnir lítið kynst nema í tímunum, en þar er ekki tækifæri til að ræða um áhugamál sín nje fræðast af þeim skólabræðrum, sem betur vita. Þess vegna er það, að áhugasamir menn hafa barist fyrir því að koma upp stúdentagarðinum. Nú þykist jeg vita, að hæstv. fjrh. viðurkenni nauðsyn þessarar byggingar, en það hlýtur þá að vera af umhyggju hans fyrir landssjóðnum, að ekkert megi úr honum taka, að hann er á móti því, að hafist verði nú þegar handa og stúdentagarðurinn látinn rísa af grunni.

Nú hafa menn verið ámintir um að borga sem mest af skuldum sínum og ráðast ekki í nein fyrirtæki, af því að samhliða gengishækkuninni komi verðlækkun. Hvort gengishækkunin byggist á kreppunni, veit jeg ekki. En sennilega yrði frestun á öllum framkvæmdum nú til þess eins, að þær lentu í kreppunni.

Jeg skil því ekki annað en hæstv. fjrh. verði með till. minni, þegar hann fer að athuga þetta betur. Þá sagði hæstv. fjrh., að sjálfsagt væri að halda áfram fjársöfnuninni, því að hún myndi ganga betur her eftir en hingað til. Þetta skil jeg ekki hjá hæstv. ráðherra, þegar hann segir líka, að von sje á fjárkreppu. Annars finst mjer, að þessar kenningar um fjárkreppuna og frestinn stangist hvor á móti annari. En jeg fyrir mitt leyti lít svo á, að samskotin gangi því aðeins greiðlega, að Alþingi gangi á undan með góðu eftirdæmi og sýni röggsemi og skilning í málinu, ekki minni en sumir einstaklingar hafa sýnt, því að eins og allir vita hefir einn alvinnurekandi gefið 10 þús. kr. Og maður skyldi því ætla, að landið hefði 10 sinnuni meiri efni og 10 sinnum meiri skyldu en þessi einstaklingur, og legði því fram 100 þús. kr. til styrktar fyrirtækinu. En þrátt fyrir þetta hefi jeg þó ekki farið fram á nema 1/3 af þessari upphæð, af hræðslu við það, að sú upphæð náði ekki fram að ganga. Býst jeg því við, að allir verði með þessari till. minni og lofi jafnframt hinum 2/3 hlutum, til þess að fjársöfnunin geti gengið svo greiðlega, að stúdentagarðurinn geti komist upp skuldlaus innan skamms. því að það er stórskaði, ef bygging hans dregst lengi úr þessu. Er því mikil nauðsyn, að Alþingi gangi hjer á undan. Því að þá koma hinir á eftir. En aftur er vafasamt, hvort menn telji sig skylduga til þess að halda áfram að styðja þessa fjársöfnun, ef Alþingi sýnir engan áhuga eða skilning í málinu.

Jeg vil nú vona, að bæði þeir ræðumenn, sem jeg hefi nú talað við um stund, og sömuleiðis allir hinir, samþykki þessa till. og lofi stúdentunum að koma þessu hæli upp nú þegar, því að jeg hefi enga trú á því, að ódýrara verði að reisa hús á næstu árum en það er nú. Því að reynslan hefir sýnt, að verð lækkar lítið sem ekkert, þó að gengið hækki. Vel má samt vera, að það lækki eftir 8–9 mánuði, en eftir þeim spádómuni, sem jeg hefi nú heyrt, á þá ný kreppa að byrja, og því ekkert ósennilegt, að gengið falli þá aftur.

Mjer líkar vel svar hæstv. ráðherra um fyrirheit þingsins að því leyti, að þar var hann ekki myrkur í máli, þar sem hann vildi ekkert tillit taka til fyrirheita eða loforða þingsins, nema þau lægju skrifleg fyrir. Þetta var skýrt sagt hjá honum og gott til eftirbreytni fyrir eftirkomandi stjórnir. En jeg fyrir mitt leyti verð að telja það ósóma, ef stjórn eða þing vekur vonir hjá mönnum, sem það vill ekki standa við á eftir. Upp á þetta þekki jeg eitt sláandi dæmi, einmitt dæmi, sem hæstv. fjrh. rakti hjer svo rækilega um daginn. Það var meðferðin á aukalækninum á Skutilsfjarðareyri. (Fjrh. JÞ: Aðstoðarlækninum á Ísafirði). Hæstv. fjrh. sagði, að maður þessi hefði haft beint fyrirheit um 2500 kr. laun, hækkandi upp í 3500 kr. með dýrtíðaruppbót. En nú hafa laun hans verið skrúfuð niður í 1700 eða 1800 kr. uppbótarlaust. Með því að brigða þessi loforð þingsins hafa hv. þm. þóst vera að bjarga fjárhag landsins. Þetta sýnir því, hvernig ekki á að fara “með sóma þingsins.

Mjer þykir leitt, að hæstv. forseti (BSv) er ekki viðstaddur hjer í dag, því að hann hefir flutt hjer brtt. á þskj. 290, um 10 þús. kr. styrk til lendingarbóta að Skálum á Langanesi. Hann hefir öll gögn viðvíkjandi þessu máli hjá sjer. og er því ekki gott fyrir mig að gefa nákvæmar upplýsingar.

Þarna að Skálum er mjög brimasamt. Ströndin liggur fyrir opnu hafi, og er þar því mjög brimasamt í landnyrðingi og erfitt að lenda. Er því mikil nauðsyn að gera brimbrjót þarna. En sá vandi er á, að þarna búa mjög fáir menn, og því ekki hægt að ætlast til, að þeir leggi mikið af mörkum móts við landssjóðsstyrkinn. Væri því sú leið hugsanleg, að leggja lendingarskatt á báta þá, er þaðan stunda fiskiveiðar á sumrum.

Annars get jeg ekki talað um þetta mál eins og sá, sem vald hefir. (Forseti ÞorlJ: Tillaga þessi verður tekin aftur núna). Þá sje jeg ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta nú.