23.03.1925
Efri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (1562)

59. mál, sundnám

Jóhann Jósefsson:

Tveir hv. deildarmenn hafa nú látið til sín heyra í þessu máli, fyrir utan framsögumann, og bregður svo undarlega við, að það, sem annar þessara hv. þm. telur galla á frv., telur hinn höfuðkost.

Jeg get byrjað með því að taka undir það með háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að jeg tel það kost á frumvarpi þessu, að hjer er gert ráð fyrir heimildarlögum fyrir bæjarstjórnir og sveitarstjórnir, en ekki lögum, sem gildi fyrir alt landið. En annars tel jeg þó, að það hafi fleiri og betri kosti en þann, er nú var nefndur.

Hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) bjóst við, að þetta myndu einungis verða pappírslög. og mun hann eiga við það, að þessi heimild verði hvergi notuð. Hlutaðeigendur um það, hvort þeir vilja nota svona heimild. Verði frv. þetta samþykt, þá er opin leið fyrir þær bæjar- og sveitarstjórnir, sem vilja fara þá leið að skylda unglinga til sundnáms, að framkvæma það.

Jeg get vel fallist á, að samskonar ákvæði eigi ekki við á Norðurlandi og t. d. í Vestmannaeyjum. En það út af fyrir sig getur ekki verið ástæða til þess að hafa á móti málinu í heild sinni eða stefnu þess. Í frv. er gert ráð fyrir, að þær bæjar- og sveitarstjórnir, sem nota vilja heimild þessa, semji reglugerð, sem stjórnarráðið samþykki. Í reglugerðinni má svo gera ráð fyrir, að stjórnarvöldin taki tillit til hinna mismunandi staðhátta, því að í henni má taka á fleiru en hægt er að taka upp í heimildarlögin. Skilyrðin fyrir því, að stjórnin geti samþykt slíka reglugerð, hljóta að verða mismunandi fyrir hina ýmsu landshluta. Það er því fyllilega rjettmætt að ákveða ekki í lögunum, að hið sama skuli gilda alstaðar.

Þá er sú mótbára háttv. 1. þm. Eyf. (EÁ), sem mjer virtist hann jafnvel leggja ennþá meiri áherslu á, að unglingarnir yrðu tafðir svo mjög frá nauðsynlegum störfum, að það gæti komið sjer illa. Jeg skal ekkert bera á móti því, að í sveitum, þar sem svo hagar til, að unglingarnir verða að eyða mestöllum deginum til þess að komast að og frá kenslustað, sje þetta mjög bagalegt. En þess ber aftur að gæta, að til eru þeir staðir, sem unglingarnir þurfa ekki að eyða nema einni klukkustund á dag til þessa náms, eins og t. d. í Vestmannaeyjum og víðar. Í þessum stöðum kunna þó að vera til foreldrar og umráðamenn unglinga, sem ekki vilja tefja þá frá vinnunni þessa einu klukkustund. Að vilja ekki sleppa unglingunum um svona stuttan tíma eða þar um bil er alveg óverjandi. Þar sem svona stendur á, þarf því að vera hægt að skylda unglingana til sundnáms. Jeg get því ekki tekið undir með hv. 1. þm. Eyf., að eini kosturinn við frv. þetta sje sá, að það eigi aðeins að verða heimildarlög. Hinsvegar er í þessu efni erfitt að lögbjóða neitt á annan hátt en þann, sem hjeraðs- og bæjarstjórnir vilja aðhyllast og telja framkvæmanlegt, og því sjálfsagt að fara þá leið, sem farin er með frv.

Hv. 2. landsk. (SJ) taldi sig málinu hlyntan í aðalatriðum, þó hann hjeldi fram breytingum í sumum atriðum. Hann greinir mjög á við hv. 1. þm. Eyf., þar sem hv. þm. álítur ekki nægilegt, að sett sjeu heimildarlög um þetta efni. Jeg held nú, að með frv. sje nógu langt farið og því rjettast að halda sjer við þá leið, sem þar er farin.

Eigi málið marga jafneindregna andstæðinga á þingi eins og hv. 1. þm. Eyf., mundi það varla ná fram að ganga í öðru formi en því, sem jeg hefi bent á með frv.